Kjósum uppbyggingu

Bjarni Benedikt Gunnarsson

Ég hef verið með lögheimili í Borgarfirðinum svo til allt mitt líf. Ég er alinn upp í Hálsasveit, en hef búið í Reykholtsdalnum síðan ég settist varanlega að aftur í Borgarfirðinum 2012. Kvæntur Vigdísi Sigvaldadóttur kennara og saman eigum við 5 börn. Ég er verkfræðimenntaður og hef starfað hjá Norðuráli sem sérfræðingur í kerskála en síðustu ár sem vaktstjóri. Ég býð mig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn til komandi sveitarstjórnarkosninga í Borgarbyggð.

Borgarbyggð er í þeirri einstöku stöðu að geta boðið upp á búsetukosti við svo til allra hæfi; Borgarnes, Hvanneyri, Varmaland, Reykholt, Bæjarsveit og Kleppjárnsreykir og svo dreifbýlið allt. Það ættu allir að geta unað hag sínum vel hér.

Ég vil líka sjá að skipulagðar séu stórar lóðir í dreifbýlinu þar sem fólk getur verið með hesthús eða vélaskemmu á sinni lóð, hvort sem er til afþreyingar eða í atvinnuskyni.

Það sem brennur þó helst á mér er að skipulagsmál séu einfölduð til muna. Hið opinbera verður að treysta einstaklingum til athafna. Það stendur uppbyggingu fyrir þrifum hversu flókið er að komast af stað. Sveitarfélagið á að einfalda sín skipulagsmál eins og lög leyfa og krefja ríkisvaldið frekari úrbóta og einföldunar þar sem lagaramminn aftrar sveitarfélaginu þess að veita íbúunum frelsi.

Einfalt og augljóst dæmi er að landeigendur í dreifbýli ættu að hafa um það mun frjálsari hendur hvernig þeir ráðstafa sínu landi, án þess að nokkur yfirföld þurfi að koma þar að.

Við þurfum líka að stýra framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins betur og halda vel utan um fjármuni íbúanna. Á lista Sjálfstæðisflokksins er að finna fólk með góða reynslu af framkvæmdum og fáum við umboð til, þá munu kjósendur sjá enn betur farið með sitt skattfé.

Það eru allir sammála um að framundan sé vaxtarskeið í Borgarbyggð. Kjósendur þurfa því að gera það upp við sig, hverjir séu líklegastir til þess að stýra þeim vexti þannig að hagur okkar allra verði sem bestur. Við því er svarið í mínum huga augljóst, kjósum Sjálfstæðisflokkinn þann 14. maí, X við D.

 

Bjarni Benedikt Gunnarsson

Höf. skipar 11. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð