Kjósum heilbrigðara og réttlátara samfélag

Guðjón S. Brjánsson

Ég fór um norðanvert kjördæmið á dögunum og ræddi við fólk í sjávarútvegi, bæði stjórnendur stærri fyrirtækja og smábátasjómenn og kom við í beitningarskúrum þar sem hitnaði gjarnan í kolunum. Allir viðmælendur eiga það sammerkt að vera áhugasamir um greinina og vilja veg hennar sem mestan.  Þá greinir auðvitað á um áherslur, aðferð við gjaldheimtu fyrir aðgang að auðlindinni og skiptingu aflamarks. Þetta er ekki óeðlilegt enda miklir hagsmunir í húfi. Fjöldi fjölskyldna hefur af þessu beina lífsafkomu. Þjóðin krefst þess líka að fá eðlilegt afgjald af þessari allra stærstu sameiginlegu auðlind.  Um þetta stórmál verðum við að ná sátt og ekkert val um annað.

Síðustu mánuði hafa menn litið til Færeyja og aðferðar sem valin var með uppboðum fiskveiðiheimilda. Mörgum hefur eflaust brugðið í brún, vaknað upp af vondum draumi þegar í ljós kom hverjar upphæðir er um að tefla og hvaða hagsmunir eru undir.

Jafnaðarmenn hafa í mörg ár talað fyrir annarri útfærslu af svipuðum meiði, miklu hófsamari og sanngjarnari til lengri tíma. Aðrir flokkar hafa gefið þessu gaum og bergmál þeirrar leiðar má heyra í kimum ýmissa stjórnmálaflokka þessa dagana. Takmarkaður hugur fylgir trúlega máli ef marka má reynsluna, það getur hver og einn rifjað upp fyrir sig.

Það sem hæst hefur borið í stefnu jafnaðarmanna er að um meðferð aflaheimilda verði farið í samræmi við meðferð annarra auðlinda í þjóðareign og ákvæði þess efnis fest í stjórnarskrá.  Það sem jafnaðarmenn leggja jafnframt áherslu á er að óhjákvæmilegar breytingar tryggi útgerðinni starfsgrundvöll til framtíðar og þann frið sem forystumenn greinarinnar, fiskvinnslufólk, sjómenn og þjóðin öll kallar eftir.  Með tillögum jafnaðarmanna skapast ekki hætta á alvarlegri röskun í atvinnugreininni og útgerð í landinu ekki íþyngt um of fjárhagslega.  Þá eru einnig miklar líkur á því að breytingarnar létti aðgang nýliða að útgerð með sanngjörnum hætti.

Það hefur náðst frábær árangur á ýmsum sviðum í sjávarútvegi á Íslandi með hagræðingu og uppskiptum.  Það sem eftir stendur þó er sú staðreynd að mörg byggðarlög eru rjúkandi rúst eftir sviptingar og óprúttin viðskipti með fiskveiðiheimildir mörg undanfarin ár. Ekkert hefur verið hirt um félagslegar afleiðingar og þær hafa þegar komið okkur í koll.  Þessu verðum við að snúa við og gefa byggðarlögum sem frá aldaöðli hafa sótt í auðlindina aukin tækifæri á ný.  Þjóðin öll og harðduglegir og djarfir sjómenn bíða og krefjast sanngjarnra lausna.  Kjósum heilbrigðara og réttlátara samfélag.

 

Guðjón S. Brjánsson,

Höf. skipar 1. sæti Samfylkingar í NV kjördæmi