Kjarkur fyrir þjóð sína

Stefán Skafti Steinólfsson

Góðir landsmenn og lesendur Skessuhorns! Nú líður að ákvörðun er varðar fjöregg þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda fyrir næsta fiskveiðiár. Engum dylst þeir hræðilegu gallar sem fylgja kvótakerfinu. Byggðaröskun, hreppaflutningar, misskiftingin og fyrst og fremst slæm umgengni um auðlindina þar sem sóunin skiftir tugum milljarða á hverju ári.  Milljarða sem vantar í þjóðfélagið sem sveltur á kostnað fárra. En nú er lag að breyta til.

Kjarkur og frjálshyggja ætti að vera aðalsmerki ráðherra sjávarútvegs og þess flokks sem kennir sig við frjálshyggju og frelsi einstaklingsins.  Frjálsar krókaveiðar væru góð byrjun ásamt því að vinda ofanaf stórgölluðu kvótakerfi.  Ekki þarf að taka neitt af neinum heldur auka veiðar. Senda skýr skilaboð að það er fiskurinn í sjónum sem eru verðmætin, en ekki aflaheimildir á blaði. Að braska með fjöreggið og líf fólks ætti að heyra sögunni til. Það er tímabært að ákvarðanir um veiðar séu teknar annarsstaðar en í bankakerfinu. Ég óska sjávarútvegsráðherra alls hins besta í ákvörðunum sínum. Kjarkur er allt sem þarf.

 

Stefán Skafti Steinólfsson, Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar