Kjarasamningabindindi?

Vilhjálmur Egilsson

Laun á Íslandi hækkuðu um 66,2% í evrum talið frá febrúar 2014 til febrúar í ár. Launavísitalan hækkaði um 26,5% á þessu þriggja ára tímanbili sem eru rausnarlegustu launahækkanir í okkar heimshluta en á sama tíma lækkaði evran í verði um tæp 24%.  Þjóðin hefur lifað mikinn uppgangstíma þessi þrjú ár með ferðaþjónustuna í fararbroddi, en hlutdeild hennar í útflutningstekjum var 39% á síðasta ári, hærri en samanlögð hlutdeild áliðnaðar og sjávarútvegs.

Hagvöxtur á Íslandi hefur verið ótrúlega mikill á alla mælikvarða en á þremur síðustu árum jókst landsframleiðslan um 13,7% sem þætti alls staðar fagnaðarefni meðal nágranna okkar.  Verðbólgan hefur verið um og innan við 2% allan þennan tíma en slíkum verðstöðugleika hefur þjóðin ekki átt að venjast.

Þau vandamál sem mest svigrúm fá í opinberri umræðu virðast flest frekar léttvæg í alþjóðlegum samanburði enda eru friðsæld, innra öryggi, hreint loft og vatn, almenn velferð og velmegun ekki í boði fyrir stóran hluta jarðarbúa.  Ísland stendur í fremstu röð í öllum samanburði milli þjóða í velferð, jöfnuði og jafnrétti. Í mælingum á alþjóðlegri samkeppnishæfni hafa efnahagslegri þættir hingað til verið stóra fyrirstaðan fyrir því að Íslandi væri meðal 10 bestu. Það gæti jafnvel farið að breytast líka.

Er þá búið að marka vegferðina til samfelldrar hagsældar, lífskjarabata og velferðar?  Á ársfundi Seðlabankans var bankastjórinn í ræðu sinni jafnvel farinn að gæla við að lækka vexti sem er sjálfsagt marktækasti mælikvarðinn á bjartsýni þar á bæ þar sem varfærni hefur verið öðrum dyggðum æðri.  Allavega eru allir ráðamenn þjóðarinnar fullir sjálfstrausts þessa dagana. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarninnar er stefnumarkandi plagg og lýsir viðleitni hennar til að sækja fram með ábyrgum hætti.

Það er einmitt á svona stundum sem nauðsynlegt er að staldra við og spá í hvort rétt sé að láta sig berast með straumnum eða hvort í allri velgengninni leynist hættur sem geta spillt gleðinni svo um munar.  Getur t.d. verið að árangur í hagstjórn og endurreisn íslenska fjármálakerfisins hafi fyrst og fremst snúist um að koma í veg fyrir kreppuna 2008?  En að ekki sé nægilega gætt að því að næsta samdráttarskeið verður allt öðruvísi en það síðasta?

Nú er framundan ný lota kjarasamninga.  Ekki virðist skorta væntingar eða rök fyrir áframhaldandi umtalsverðum hækkunum hjá þeim hópum á vinnumarkaðnum sem eru að undirbúa nýja samningagerð.  Þrátt fyrir ábyrga viðleitni stærstu heildarsamtakana á vinnumarkaðnum til að haga kjarasamningum með sambærilegum hætti og annars staðar á Norðurlöndum virðast fleiri og fleiri hópar ekki telja sig geta tekið þátt í slíku verkefni nema með skilyrðum sem ekki sýnast raunhæf í flestum tilvikum.

Stórhætta er á því að sundrung muni einkenna þróun mála á vinnumarkaði. Hver hópurinn eftir annan stígur fram og ítrekar að hann semji fyrir sjálfan sig og vilji sem minnst samstarf við aðra hópa hafa. Þeir ítreka sjálfstæði sitt og telja sér ekki koma við hvað aðrir hópar vilja eða gera.  En samt skiptir höfuðmáli að fá meira en aðrir.  Það er líka umhugsunarefni að verkfallsvopnið hefur snúist uppí andhverfu sína.  Nú er það fyrst og fremst orðið tæki fyrir hálaunahópa til að brjóta niður viðleitni til að hækka lægri endann á vinnumarkaðnum meira en aðra.

Það blasir við að ekki er endalaust hægt að teysta á að laun á Íslandi geti hækkað á hverju ári um langleiðina í 20% í evrum.  Útflutningsfyrirtækin hafa misst verulega samkeppnishæfni vegna hærri launakostnaðar og það er örugglega lítill áhugi frá erlendum viðskiptavinum Íslendinga að greiða fyrir launahækkanir landsmanna langt umfram það sem þeir eru sjálfir að fá. Þegar ekki er hægt að koma kostnaðarhækkunum út í verðlag á erlendum mörkuðum stöðvast aflvél hagvaxtarins á Íslandi.

Ef ferðamönnum hættir að fjölga vegna mikilla verðhækkana á Íslandi hefur það ótrúlega snögg áhrif til hins verra.  Margir sem hafa fjárfest og veðjað á áframhaldandi vöxt munu lenda í vandræðum sem smitar út frá sér t.d. inn á fasteignamarkaðinn og fjármálastofnanirnar fara að halda að sér höndum. Ofrisið á vinnumarkaði er langlíklegasta ástæðan fyrir næsta samdráttarskeiði.

Því er ekki fráleitt að láta sér detta í hug að það sé skynsamlegt fyrir þjóðina að fara í 3 – 4 ára kjarasamningabindindi. Leyfa núverandi stöðu að halda sér meðan atvinnulífið og hið opinbera er að jafna sig á ótrúlegum hækkunum síðustu missera. Því má auðveldlega halda fram að kjarasamningabindindi væri í raun besta leiðin til að verja og festa lífskjarabatann í sessi og skapa grunn til frekari sóknar á traustum grunni. Á meðan þarf líka að nota tímann til þess að styrkja samstarf allra aðila á vinnumarkaðnum og enginn hópur getur skorast undan því að taka þátt.

 

Vilhjálmur Egilsson.

Höf. er rektor Háskólans á Bifröst.

Fleiri aðsendar greinar