Kirkja á réttri leið

Elínborg Sturludóttir

Þegar gengið er úr Hvalfirði um Botnsheiði er farin hin forna þjóðleið sem kölluð er „Leggjabrjótur.“ Áður fyrr þegar menn riðu þessa leið til Alþingis hefur án efa oft sannast hið fornkveðna: „Betri er krókur en kelda.“  Einmitt þarna er Biskupskeldan, sem sr. Jón Þorláksson á Bægisá kvað um: „Tunnan valt og úr henni allt ofan í djúpa keldu.“

Þegar haldið er lengra um Öxarárdal er komið á Orrustuhól, hvaðan er mikið og fagurt útsýni yfir Þingvelli og vatnið, Bláskógaheiðina, Arnarfell, Hengilinn og alveg að Ingólfsfjalli. Slíkan sjónarhól þyrfti biskup ávallt að hafa.

Þegar haldið er niður Svartagil um Langastíg og stefnan tekin á Stekkjargjá, eru ævafornar gamlar götur bersýnilegar í sverðinum og göturnar liggja hlið við hlið. Órækt merki um að menn gengu saman þessar gömlu götur, hlið við hlið. Þannig á það einnig að vera með biskupinn, hann má ganga einarðlega fram en hann á aldrei að ganga einn, heldur ávallt með öðrum.

Og sjónarhóllinn sem biskup stendur á til að hafa yfirsýn má gjarnan heita „Friðarhóll.“

Nú stendur biskupskjör fyrir dyrum og því vil ég nota þetta tækifæri að segja þér sem þetta lest í örstuttu máli frá mér og þeirri sýn sem ég hef á hlutverk biskups Íslands.

Verði ég kjörin biskup Íslands, mun ég:

  • Hlúa að einingu og friði í lífi þjóðkirkjunnar, milli leikra og lærðra, höfuðborgar og dreifbýlis.
  • Styrkja stöðu safnaðanna með því að ganga eftir því að sóknargjaldalögin verði fest í sessi og fjárhagur safnaðanna verði þar með treystur.
  • Efla og standa vörð um vandaða stjórnsýslu og faglega leiðsögn með sanngjarnri og ábyrgri stjórnun.
  • Auka hlut fræðslu, kennslu og boðun á vegum kirkjunnar fyrir fólk á öllum aldri.
  • Móta frekar samskiptastefnu þjóðkirkjunnar og ydda áherslur og nálgun sem kemur boðskap kristinnar trúar á framfæri í fjölmenningarsamfélagi dagsins.
  • Standa vörð um og efla kærleiksþjónustu kirkjunnar í söfnuðum og Hjálparstarfi kirkjunnar.
  • Styðja við nýjungar, fjölbreytni og endurnýjun í helgihaldi kirkjunnar.
  • Ganga til góðs með prestum, próföstum, djáknum og öðru trúnaðarfólki þjóðkirkjunnar um allt land.
  • Tala til þjóðarinnar á stórum stundum og vera talsmaður kristinna lífsgilda í samfélagsumræðunni.

 

Biskup Íslands er fyrst og fremst trúarlegur leiðtogi, sem prédikar og leiðir bænalíf þess samfélags sem þjóðkirkjan er. Biskup þarf að bera gæfu til að eiga gott og uppbyggilegt samstarf við kirkjuþing og aðra leiðtoga þjóðkirkjunnar. Örugg boðun í trú og gleði, sátt og samlyndi, með vandaðri stjórnun, verður mín nálgun.

Elínborg Sturludóttir

Elínborg er frá Snæfellsnesi og hefur þjónað sem prestur í Grundarfirði, Borgarfirði og nú við Dómkirkjuna í Reykjavík. Hún er í framboði til biskups Íslands, kjör fer fram 11.–16. apríl.