Keðjuverkandi áhrif ákvarðana

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Nú stendur yfir vinna við fjárhags- og framkvæmdaætlun Borgarbyggðar. Í allri uppbyggingu og endurbótum á húsnæði, gatnagerð og annars í eigu sveitarfélagsins er mikilvægt að líta til íbúaþróunar og forgangsraða verkefnum. Um mikla fjármuni er að ræða og fjárfestingu til framtíðar. Ábyrgð kjörinna fulltrúa er mikil og því lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum og þær séu vel ígrundaðar og rökstuddar.

1,5 milljarður í nýtt skólahúsnæði á Kleppjárnsreykjum

Sú framkvæmdaáætlun sem lögð verður fram með fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að ríflega 1,5 milljarður verði lagður í nýtt skólahúsnæði á Kleppjárnsreykjum til næstu ára, í skóla sem rúma á um 130 börn. Í þessari áætlun á eftir að gera ráð fyrir kostnaði við lóð, innanstokksmuni og endurbætur og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður nálgist 2 milljarða. Vissulega er úrbóta þörf á húsnæðinu en er hér um að ræða forgangsverkefni? Fulltrúar Framsóknar telja að svo sé ekki meðan við eigum gott skólahúsnæði á Varmalandi þar sem aðeins um 35 nemendur stunda nám í dag í 1.-10. bekk.

Forgangsverkefni sveitarstjórnar eru af öðrum toga næstu árin. Huga þarf að nýjum íþróttamannvirkjum í Borgarnesi, skipulagi á nýjum hverfum og lóðum og eitt brýnasta verkefnið er að bregðast við skorti á leikskólaplássi til að geta tekið á móti fjölgun íbúa í tengslum við uppbyggingu á nýju hverfi í nágrenni við KB og Húsasmiðjuna.

Eitt af því alvarlegasta sem hefur skort við yfirstandandi fjárhagsáætlunarvinnu er framtíðarsýn á rekstur sveitarfélagsins og skipulag. Þá þarf að meta hvað er nauðsynlegt, hverju má breyta? Hverjar eru þarfir og kröfur samtímans? Í sveitarfélaginu eru t.a.m um tíu félagsheimili, sex af þeim eru í eigu sveitarfélagsins að fullu, önnur að hluta til. Árlega skiptast um 8-10 milljónir í brýnasta viðhald á þessu húsnæði og ljóst að nýtingin á húsnæðinu hefur breyst í takt við tímann og nær nú aðeins yfirleitt yfir fáa daga á ári. Er e.t.v kominn tími á að stefna að sölu á þessum húsum næstu árin og gefa þeim nýtt hlutverk?

Verður allt skólahúsnæði og aðstaða jafn góð?

Sveitarfélagið rekur íþróttamannvirki í Borgarnesi, Varmalandi og á Kleppjárnsreykjum. Þessi mannvirki eru dýr í rekstri og viðhaldi en eru mikið notuð og ótvírætt einn af mikilvægum þáttum í góðum búsetuskilyrðum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið starfrækir starfsstöðvar grunnskóla á fjórum stöðum. Mikilvægt er að þegar rætt er um fjölda starfsstöðva til framtíðar að miðað sé við að þær áætlanir og fjárfestingar sem ráðist er í horfi til þess að öll börn og starfsfólk í grunnskólum sveitarfélagsins hafi jafn góða aðstöðu og starfsumhverfi. Öll börn eiga að hafa aðgang að heilsusamlegu húsnæði, góðri aðstöðu til útivistar ásamt því að njóta góðrar aðstöðu til íþrótta- og sundkennslu. Það er því mikilvægt að fyrir liggi áður en lagt er af stað í fjárfestingar eins og á Kleppjárnsreykjum hve mörgum börnum sá skóli á að taka við til framtíðar, hvort að miðað sé við að fara innan fárra ára í samskonar endurbætur og fjárfestingu við grunnskólann á Hvanneyri og á Varmalandi til að jafna aðstöðumun barna í sveitarfélaginu?

Vísbendingar um hækkandi álögur á íbúa

Núverandi meirihluti horfir til þess að fjármagna bæði framkvæmdir og endurbætur með lánsfé til næstu ára. Ekki er litið til mikilvægis þess að rekstrarafgangur sé til staðar til að hægt sé að fara í fjárfestingar. Þetta gefur vísbendingar í þá átt að eina leiðin fyrir sveitarfélagið til að standa skil á afborgunum lána og vaxtagreiðslum sé að hækka álögur á íbúa næstu árin, fasteignagjöld og gjaldskrár. Þetta er ekki góð þróun og verður ekki til þess fallin að laða að fyrirtæki og fjölskyldur.

Meirihluta sveitarstjórnar virðist Í fjögurra ára framkvæmda- og fjárfestingaráætlun sem lögð er fram skorta vilja eða getu til að leggja fram framtíðarsýn á nýtingu fasteigna í eigu sveitarfélagsins til framtíðar. Fyrir liggur að þörf er á endurbótum og miklu viðhaldi á flestum eignum sveitarfélagsins t.a.m. mörgum félagsheimilum, safnahúsi, slökkvistöð, félagslegum íbúðum, sem og viðhaldi á flest öllu skólahúsnæði.

Stórfurðuleg forgangsröðun

Dæmi um stórfurðulega forgangsröðun sem flokkast jafnframt undir það að vera svívirðileg er t.a.m. sú ákvörðun að ráðstafa ríflega 100 milljónum á næstu tveimur árum í að innrétta nýtt húsnæði sveitarfélagsins á Digranesgötu á meðan ekki fást nokkrar milljónir í að bæta öryggi skólabarna í biðskýlum. Nokkuð sem foreldrafélagið hefur kallað eftir í mörg ár. Enda núverandi biðskýli um 40 ára gömul og engin lýsing við þau. Einnig er í þeirri áætlun sem unnið er með í dag ekkert fjármagn sett í áform um skipulag og uppbyggingu í Brákarey. Sveitarstjórn einfaldlega skuldar íbúum það að gengið sé rösklega í það að taka ákvörðun um örlög þess húsnæðis sem þar er í eigu sveitarfélagsins og hver áform eru á þessu verðmæta svæði.

Að mörgu er að hyggja þegar ákvarðanir um fjárfestingar og ráðstöfun fjármagns eru teknar. Brýnt er að sveitarstjórnarfulltrúar láti ekki hjá líða að setja sig vel inn í fjármál og rekstur m.t.t. langtímaáhrifa ákvarðana á íbúa sveitafélagsins og tækifæri til uppbyggingar.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Höf. er oddviti Framsóknar í Borgarbyggð

 

Fleiri aðsendar greinar