
Kastljós á Vesturland
Kristinn Jónasson
Það er stór áfangi að ná 25 ára aldri, ekki síst þegar afmælisbarnið er fjölmiðill. Það er því tilefni til að fagna þessum tímamótum.
Héraðsfréttamiðlar gegna mikilvægu hlutverki. Þeir flytja fréttir af því sem er að gerast í nærsamfélaginu. Oft öðruvísi fréttir en lesa má í landsmiðlunum, þeir miðla efni til okkar íbúanna með því að flytja okkur fréttir og segja sögur úr mannlífinu sem skipta okkur miklu máli. Sögur af svæðinu sem þar með eru skráðar og varðveittar og verða með tímanum ómetanlegar heimildir um lífið á Vesturlandi. Skessuhornið var stofnað sem blað fyrir Vestlendinga um Vestlendinga og hefur svo sannarlega sinnt því hlutverki með sóma. Það er þó ekki síður mikilvæg fréttaveita fyrir þá sem búa ekki á svæðinu en vilja fylgjast með því hvað um er að vera á Vesturlandi. Það er nú því miður þannig að kastljós stóru fjölmiðlanna er ekki eins mikið á okkur sem búum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu, Skessuhornið varpar því mjög mikilvægu kastljósi á Vesturland.
Í gegnum árin hef ég dáðst að þeim krafti og þeim mikla metnaði sem hefur einkennt starfsemi Skessuhorns. Umhverfi einkarekinna fjölmiðla er erfitt ekki síst úti á landi og þess vegna er það mikið afrek hjá rekstraraðilum Skessuhorns að hafa lifað af og þjónustað Vesturland þetta langan tíma með útgáfu blaðsins og vefmiðils.
Svo skemmtilega vill til að starfsaldur minn hjá Snæfellsbæ er næstum sá sami og Skessuhornsins. Ég hef á þessum 25 árum kynnst mörgu góðu fólki sem hefur unnið fyrir Skessuhorn en mest hafa þó samskiptin verið fyrst við Gísla Einarsson stofnanda og ritstjóra og Magnús Magnússon, stofnanda og núverandi ritstjóra og eiganda og vil ég nota þetta tækifæri og þakka þeim og starfsmönnum öllum kærlega fyrir afar góð samskipti.
Ég vil að lokum óska eigendum og starfsmönnum Skessuhornsins innilega til hamingju með þessu merkilegu tímamót.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ.