Karlmenn eru ónýtt auðlind í hjúkrun

Gunnar Bergmann Steingrímsson

Í ár eru 100 ár liðin frá stofnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Af því tilefni stendur stjórn deildar hjúkrunarfræðinga á Akranesi og nágrenni fyrir því á afmælisárinu að birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga í Skessuhorni. Greinarnar hafa að undanförnu verðið birtar jafnt og þétt í blaðinu en í þeim geta lesendum fengið smávegis innsýn í þau fjölbreyttu störf og áskoranir sem hjúkrunarfræðingar fást við. Að þessu sinni kynnir sig til leiks Gunnar Bergmann Steingrímsson hjúkrunarfræðingur:

Ég heiti Gunnar Bergmann Steingrímsson og á mínar rætur að rekja til norðurs. Fæddist á Akureyri 1973 og ólst upp að mestu á Húsavík en flutti aftur til Akureyrar þegar kom að framhaldsskólagöngu. Árið 2000 flutti ég til Akraness eftir að hafa kynnst einni af mikilvægustu manneskjum lífs míns, eiginkonu minni Láru Elínu Guðbrandsdóttur. Saman eigum við nú fimm börn, hund og kött. Sú elsta er 24 ára og er nú búsett í London. Hún fylgdi með í pakkanum ef svo má segja, en ég lít engu síður á hana sem mína eigin. Við eigum son sem er fæddur á aldamótunum 2001 og var þá fyrsta barn ársins. Þá kemur miðjubarnið sem í dag er 16 ára sunddrottning. Yngstu börnin eru 5 ára og 3ja ára stuðboltar. Við búum semsagt á Akranesi og líkar það bara vel. Helst af öllu finnst okkur skemmtilegt að búa til svolítil ævintýri fyrir börnin eins og að búa til heitan pott úti á svölum og fara í heimsókn í sveitina að kíkja á lömbin og kindurnar. Ég hef sjálfur óbilandi áhuga á tækni og vísindum. Hef alveg einstaklega gaman að því að tengja saman tæki eða gera við þau. Vísindaskáldsögur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég hef gaman af því að skoða hvernig þær geta haft bein eða óbein áhrif á þróun nútímans. Til að mynda skrifaði Aldous Huxley merkilega bók árið 1932 sem hafði þá einstaklega nákvæma framtíðarsýn. Hann kynnti til sögunnar glasafrjóvgun, klónun, geðprýðislyf, stefnumótaþjónustu og þyrluflug sem samgönguviðbót til almennra nota. Þetta hefur allt ræst að miklu leyti. Þannig getur maður velt fyrir sér hvort það séu einhverjir vísindamenn í dag að reyna sitt besta til að finna upp geislasverð og geimskip sem getur ferðast á ljóshraða.

„Besta gjöf sem foreldrar geta gefið börnum sínum er heil lífstíð af ævintýrum.“ [Lewis Carrol]

Við reynum að veita börnunum okkar valkosti fremur en að móta þau eftir forskrift samfélagsins. Litlu stelpurnar okkar leika sér með ógurlegar risaeðlur jafnt sem dúkkur og uppáhaldsdýrið hjá þeirri yngstu eru köngulær. Þær eru líka Batman, eins og við öll. Konan mín hefur gaman af því að baka kökur og brauð, en ég hef svo sem alveg ágætis ánægju af því að vaska upp eftir hana. Hún er einstaklega fær í að færa rök fyrir máli sínu. Vei þeim sem reynir að sannfæra hana um annað.

Valdi sjúkraliðabraut

Þegar ég var í 9. bekk á Húsavík, sem nú er þekktur sem 10. bekkur, var lagt fyrir okkur hefti með mögulegum námsleiðum í framhaldsskóla og þá áttum við að íhuga hvað við vildum gera í framtíðinni eða leggja drög að því og taka einhverja stefnu. Svo eftir smá umhugsun var hverjum og einum boðið að lýsa því fyrir bekknum hvað hann/hún vildi læra. Það vakti strax athygli mína að flestir voru að velja náttúrufræðibraut, viðskiptabraut, málabraut og íþróttabraut. Ég velti því fyrir mér hvort það væri einhver sérstök ástæða fyrir því að flestir völdu sér þessar leiðir eða hvort þetta væri bara eitthvað sem væri tilviljunum háð. Þegar röðin kom að mér, eftir að vera búinn að fletta í gegn um námsvísinn, hafði ég tekið þá ákvörðun að velja eitthvað sem gæti vakið áhuga minn og jafnframt verið eitthvað nýstárlegt fyrir mér. Ég valdi sjúkraliðabraut. Fyrstu viðbrögð sem ég fékk frá nánasta umhverfi var að ein stelpan aftarlega í bekknum gargaði: „“OJ! Skeina Gamla Fólkið!”

Þá hugsaði ég; nú fyrst að það er hluti af þessu starfi þá verð ég bara að taka því og varð enn ákveðnari. Einhverra hluta vegna vissi ég sáralítið um þessa starfsgrein, það hafði enginn minnst einu orði á hana í kynningunni og hvað þá minnst á að þetta gæti verið hentugt nám fyrir karlmann. Áhuga mínum var þó einhverra hluta vegna beint algjörlega að þessum kosti og ég var ákveðinn í að láta ekkert stöðva mig.

Þennan sama dag, þegar ég kom heim úr skólanum, var ég að velta því fyrir hvernig foreldrar mínir myndu taka þessu fyrst að öll viðbrögð innan skólans höfðu verið afar neikvæð. Þegar ég sagði þeim frá ákvörðun minni reyndu þau að telja mér í trú um að þetta væri ekki hentugt fyrir mig, lág laun og svoleiðis, en mér varð ekki haggað.  Þannig, eftir ýmsar hindranir, byrjaði ég í námi í framhaldsskóla og lauk síðan Sjúkraliðaprófi árið 1993 frá VMA og lauk svo stúdentsprófi 1994.

Ég sá það alltaf fyrir mér að sjúkraliðanámið gæti verið stökkpallur yfir á eitthvað meira, jafnvel hjúkrunarfræði. Það liðu þó nokkur ár þar til sá draumur minn varð að veruleika. Um aldamótin reyndi ég fyrir mér í Háskóla Íslands og settist á skólabekk til að læra tölvunarfræði. Eftir eitt og hálft ár varð ég að hverfa frá því námi vegna fjölskylduaðstæðna og óhagstæðrar tilhögunar við afgreiðslu námslána. Ég var að vinna með náminu á hjúkrunarheimili og á þeim launum sem þá voru í boði var erfitt að ná endum saman. Því færðist ég um set og hóf vinnu hjá einingaverksmiðju sem framleiddi forsteyptar húseiningar. Þetta var á fyrri góðæristímanum og launin voru töluvert betri en í heilbrigðisgeiranum, en þetta var mikil vinna og átti ekkert sérlega vel við mig. Rétt áður en efnahagshrunið reið yfir hafði ég sagt því starfi lausu og réð mig til starfa hjá álverinu á Grundatanga. Þetta var sérlega heppilegt vegna þess að eitt af því fyrsta sem hrundi var fasteignamarkaðurinn. Eftir 5 ára starf sem verkamaður í álveri var ég orðinn frekar óhamingjusamur með starfsvettvanginn og þráði einna helst að láta draum minn rætast um að læra hjúkrunarfræði. Sá draumur rættist þegar næst yngsta dóttir okkar kom í heiminn. Það má segja að hún hafi hjálpað mér að komast af stað.

Ákveðin köllun að starfa við hjúkrun

Hjúkrunarfræði er krefjandi og vandasamt starf. Það snýst um að hjálpa fólki í erfiðleikum, bjarga lífum og bæta lífsgæði. Það er sennilega ekki til meira gefandi starf. Sú ánægja sem hlýst af því að láta gott af sér leiða fyrir þá sem geta enga björg sér veitt er mjög dýrmæt. Að vissu leyti má segja að það sé ákveðin köllun að starfa við hjúkrun. Þegar litið er til þess að hægt er að fá mun betri laun við önnur störf má ætla að hjúkrunarfræðingar séu að velja sinn starfsvettvang út frá hjartanu. Ég vil fyrir mitt leiti frekar vera í starfi sem gerir mig hamingjusaman frekar en ríkan. Auðvitað mætti þó meta störf hjúkrunarfræðinga að verðleikum og bæta kjörin til samræmis við það hversu gríðarlega verðmætir hjúkrunarfræðingar eru fyrir þjóðfélagið í heild sinni.

Um 2% hjúkrunarfræðinga eru karlmenn

Það má teljast nokkuð sérstakt að vera karlmaður sem starfar við hjúkrun. Það ætti ekki að vera sérstakt, en er það engu að síður. Það eru einungis 2% hjúkrunarfræðinga á Íslandi karlmenn og við vitum svo sem ekki nákvæmlega hversu margir af þeim starfa á sínu kjörsviði. Þessar aðstæður gera það að verkum að maður er mjög áberandi í starfi eða námi. Í mínum útskriftarhópi voru u.þ.b. 50 einstaklingar, þar af vorum við tveir hvítu hrafnarnir í þeim hópi. Það hefur bæði kosti og ókosti að skera sig úr með slíkum hætti. Kostirnir eru t.d. að allir þekkja mann með nafni en ókostirnir til að mynda að verða oftar fyrir valinu til að stíga fram sem tilraunadýr. Námið er mjög kvenlægt eins og gefur að skilja, áherslurnar eru mjög oft miðaðar við að það sé kvenkyns nemandi að tileinka sér þær. Stundum mætti segja að námið dragi úr sjálfstrausti nemendanna. Það er ætlast til þess að maður efist um eigið hæfi og sé ávallt tilbúinn til þess að leggja verk sín undir ákvarðanavald annarra. Við þessar aðstæður vill gleymast að það eru í raun og veru skjólstæðingarnir sem eiga að ráða ferðinni og öll vinna á náttúrulega að miða að því að uppfylla þarfir þeirra innan skynsamlegra marka.

Málsvari skjólstæðinga sinna

Orðalag og verkhættir inni á sjúkrahúsum gera það að verkum að sjúklingar eiga á hættu að missa völd sín og eru oft hræddir við að láta sitt álit í ljós. Þetta má t.d. sjá við aðstæður eins og stofugang, sem er að mínu mati arfavitlaus leið til að ná markmiðum við lækningar og hjúkrun. Hjúkrunarfræðingar eru málsvarar skjólstæðinga sinna og bera skyldu til að halda þeirra sjónarmiðum á lofti. Þetta er hlutverk sem ég tek mjög alvarlega. Við mína vinnu reyni ég eftir fremsta megni að valdefla skjólstæðinga mína og líka starfsfólkið. Það er nauðsynlegt að viðhalda reisn þeirra sem eru í undirsettum aðstæðum þannig að upplifunin verði ekki óþægileg. Sem karlmaður í hjúkrun er sérstaklega mikilvægt að vera meðvitaður um þetta. Þegar skjólstæðingur þarfnast aðstoðar við viðkvæma hluti eins og við athafnir sínar á salerninu þarf að biðja um leyfi til að fara inn fyrir persónuleg mörk hvort sem um karl eða konu er að ræða.

Valdi að starfa á dvalar- og hjúkrunarheimili

Starfssvið hjúkrunarfræðinga eru jafn ólík og þau eru mörg. Það er hægt að velja úr mörgum valkostum. Sjálfur hef ég valið að starfa inni á dvalar- og hjúkrunarheimili. Það hentar mér vel, þar sem ég get verið mjög sjálfstæður í starfi og hef kost á því að skipuleggja áherslur eftir mínum eigin hugmyndum. Þetta er langt frá því að vera eins og sumir sjá það fyrir sér og kom m.a. fram í viðhorfum sem lýst er í fyrri hluta greinarinnar. Það hugnast ekki öllum hjúkrunarfræðingum að starfa með öldruðum, en að sama skapi hugnast ekki öllum að starfa á skurðstofu, slysadeild eða á legudeildum sjúkrahúsanna. Það er hægt að ímynda sér hvernig lífinu væri háttað ef maður yrði fyrir stórkostlegum skakkaföllum. Það þarf ekki mikið til. Öllum ætti að vera ljóst að þeir myndu þarfnast sérstakrar nærgætni og alúðar við persónulegar athafnir sínar eftir áfall sem dregur verulega úr, eða takmarkar algjörlega, sjálfsbjargargetu. Þetta á oft við um aldraða. Vitsmunaleg og líkamleg hrörnun getur leitt til þess að þeir verða á mörgum sviðum ósjálfbjarga. Þá er mikilvægt að til staðar séu einstaklingar sem eru tilbúnir til að leggja þeim lið á þann hátt að þau geti haldið virðingu sinni.

Eitt af því sem er sérstaklega vandasamt í starfi hjúkrunarfræðings á hjúkrunarheimili er nálægðin við dauðann. Það er algjörlega einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við í þessum aðstæðum. Þetta á við um alla sem að því koma. Sorgin knýr að dyrum á mismunandi hátt fyrir alla. Stundum koma tímar þar sem margir kveðja okkur og það getur verið eins og það sé jafnvel árstíðarbundið. Samt sem áður verður það aldrei hversdagslegt. Við sem störfum á heimilinu verðum líka sorgmædd þegar kemur að kveðjustund. Það gerir okkur sennilega samt sterkari og gerir okkur betur kleift að skilja aðstandendur sem eru að kveðja ástvini sína.

Þjónusta vélar eða sjá um mannlega þætti

Í framtíðinni mun fólk velja á milli tveggja leiða í lífinu. Áherslurnar munu fylgja þeirri þróun sem er fólgin í fjórðu iðnbyltingunni. Þannig stendur valið á milli þess að starfa við tæknilega hluti sem fela í sér þjónustu við vélarnar sem munu taka við af fólki í hversdagslegum störfum. Við sjáum þetta nú þegar í þróun. Afgreiðslukassar í verslunum eru að verða úreltir og í stað afgreiðslufólks eru að koma vélar sem aðstoða fólk við að afgreiða sjálft sig með því að nýta gervigreind. Þetta má heimfæra upp á alla hluti sem hægt er að leysa með tæknilegri útfærslu og gervigreind. Það mun hinsvegar aldrei eiga sér stað á flestum sviðum hjúkrunarfræðinnar. Þar eru mannlegir eiginleikar til staðar sem engin vél gæti líkt eftir. Til þess að ná árangri á því sviði þarf fólk að tileinka sér þekkingu og færni í mannlegum samskiptum, rækta eiginleikann til að skynja tilfinningar fólks og temja sér heilbrigða gagnrýna hugsun. Það er mikill skortur á starfsfólki í dag á þessum mannlegu sviðum. Með tíð og tíma mun þetta breytast. Við þurfum að vera tilbúin til að taka á móti þeim sem missa störf sín í hendur véla og hjálpa þeim að aðlagast nýjum veruleika. Það er erfitt að segja til um hversu langan tíma þetta mun taka. Hvort sem það verði ár eða áratugir getum við, með þessa framtíðarsýn í huga, gert ráð fyrir því að það hugnast ekki öllum að vinna tæknileg störf. Að mínu mati væri ágætis byrjun að hvetja karlmenn til að skoða möguleikana til að starfa við hjúkrun. Það er ekki einungis vegna þess að jafnvægið er gríðarlega skakkt. Heldur vegna þess að karlmenn hafa heilmikið fram að færa í starfi sem hjúkrunarfræðingar. Það má segja að þeir séu í raun og veru vannýtt auðlind. Svo er aldrei að vita hvort stjórnvöld fari að sjá hversu verðmætir hjúkrunarfræðingar eru í raun og veru fyrir þjóðfélagið og fari að greiða samkeppnishæf laun þannig að tölvunarfræði og hjúkrunarfræði geti staðið jafnfætis.

Gunnar Bergmann Steingrímsson, hjúkrunarfræðingur.

Fleiri aðsendar greinar