Kæru Ungmennafélagar og aðrir héraðsbúar!

Sólrún Halla Bjarnadóttir

Dagana 28. – 31. júlí verður haldið Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi. Þessi helgi er mikil ferðahelgi enda verslunarmannahelgin. Íbúar í Borgarbyggð munu taka á móti þúsundum manns þessa helgina þar sem stefnan er tekin á hátt í tvö þúsund keppendur á mótinu. Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem allir finna eitthvað sér til gagns og skemmtunar, sama á hvaða aldri þeir eru.

Það er því mikilvægt að við, íbúar í Borgarbyggð, tökum gestum okkar fagnandi og sýnum þeim hvað sveitarfélagið okkar er frábært. Við búum í víðfeðmu sveitarfélagi þar sem náttúrufegurðin er ólýsandi. Styrkleikar íbúanna eru mismunandi og ef við tökum höndum saman eru okkur allar leiðir færar.

Til þess að Unglingalandsmót og umgjörð þess gangi sem best þá treystum við á ykkur, kæru félagar, til aðstoðar. Á Unglingalandsmóti eru mörg sjálfboðaliðastörf sem þarf að fylla og veit ég að margir eru klárir í slaginn. Allir þeir sem hafa áhuga á því að aðstoða á mótinu geta haft samband við verkefnastjóra Unglingalandsmótsins, Evu Hlín Alfreðsdóttur – evahlin@umfi.is  Framlag sjálfboðaliða styrkir aðildarfélögin sem standa að mótinu. Hvetjum við alla til að leggja hönd á plóginn og sýnum landsmönnum hvað Borgarbyggð er flott sveitarfélag.

 

Virkjum samstöðuna!

Sólrún Halla Bjarnadóttir
Sambandsstjóri UMSB