Jón og séra Jón, ofbeldishegðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Ásgeir Sæmundsson

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur frá nóvember 2020 neitað að gefa jákvæða umsögn vegna fullgilds rekstrarleyfis fyrir gistihúsið Gamla bæ í landi Húsafells 1 og ber fyrir sig að það sé ekki hægt vegna laga- og reglugerðarbreytinga frá 2017.  Ástæðan er að sögn sveitarstjóra að Húsafell 1 er á landbúnaðarsvæði, samt er lóðin skráð sem viðskipta- og þjónustulóð í fasteignaskrá og Borgarbyggð hefur rukkað fasteignagjöld í samræmi við það. Margoft hefur verið beðið um breytingu á aðalskipulagi vegna lóðarinnar. Þess vegna geti Borgarbyggð ekki gefið út jákvæða umsögn sem er skilyrði fyrir leyfisveitingu sýslumanns.  Hins vegar hafa yfir 40 sambærileg gistihús á landbúnaðarsvæði í Borgarbyggð fengið jákvæða umsögn Borgarbyggðar og þar með rekstrarleyfi eftir gildistöku laganna. Það seinasta reyndar þriðja febrúar á þessu ári. Í einu tilfelli svaraði Borgarbyggð ekki beiðni um umsögn og þá fékkst rekstrarleyfi sýslumanns.  Sveitarstjóri ber fyrir sig (með réttu eða röngu) kæruhótun frá einum af forsvarsmönnum ferðaþjónustufyrirtækis á Húsafelli sem reyndar seldi núverandi eiganda Húsafells 1 gistihúsið með gilt rekstrarleyfi.  Í bréfi frá Lilju B. Ágústsdóttur, forseta sveitarstjórnar Borgarbyggðar, vegna þessa máls kemur fram að Borgarbyggð hafi ekki áttað sig á að útgefin rekstrarleyfi voru ekki samkvæmt lögum fyrr en rétt eftir dóminn yfir Páli Guðmundssyni þann 14. júlí 2020. Daginn áður þann 13. júlí 2020 var gefið út ótímabundið rekstrarleyfi fyrir gistiheimilið Þverárrétt sem er á landbúnaðarsvæði, enda kom jákvæð umsögn frá sveitarstjóra Borgarbyggðar.

Tímasetning þessarar uppgötvunar Borgarbyggðar hefur þó ekkert með dóminn að gera að sögn Lilju, hrein tilviljun að þetta uppgötvaðist einmitt þegar Gamli bær sótti um endurnýjað starfsleyfi! Reyndar virðist Gamli bær vera eina gistihúsið sem fellur undir þessa nýju starfsaðferð Borgarbyggðar. Önnur sambærileg gistiheimili hafa fengið leyfi án fyrirvara fram á þennan dag, ef aðrir umsagnaraðilar hafa ekki gert athugasemd. Til dæmis gistihúsið Lækjarkoti sem fékk ótímabundið rekstrarleyfi í febrúar á þessu ári fyrir gistihús. Hins vegar er enn ófrágengið leyfi fyrir hjólhýsi til útleigu á því landi. Ekki er vitað hvað Borgarbyggð hyggst fyrir vegna rekstrarleyfa sem hafa fengist á röngum forsendum og í trássi við lög samkvæmt skilgreiningu Borgarbyggðar.

Eiganda Húsafells 1 eru settir afarkostir af hálfu Borgarbyggðar. Annaðhvort sætti hann sig við óleyfisbyggingar með tilheyrandi ónæði á hlaði Gamla bæjar og Bæjargils eða hann fái ekki rekstrarleyfi. Á þennan hátt er reynt að koma í veg fyrir málsókn eiganda Bæjargils á hendur Borgarbyggð og tug milljóna bótakröfur ef nauðsynlegt verður að færa óleyfisbyggingu til á lóð Bæjargils vegna skipulagsklúðurs Borgarbyggðar. Á því yrði þó aðeins þörf ef Páll hafnar því að skipta bílastæði þannig að aðgengi að Gamla bæ verði tryggt.

Þessi vinnubrögð Borgarbyggðar hafa hleypt nánast frágengnum samningaviðræðum eiganda Húsafells 1 og Bæjargils í uppnám. Þolinmæði eiganda Húsafells 1 er á þrotum eftir að hafa reynt í heilt ár að komast að samkomulagi við Pál og Borgarbyggð þannig að allir aðilar gangi sáttir frá borði.

Áhugavert er að bera hörku í framkomu Borgarbyggðar gagnvart eiganda Gamla bæ á Húsafelli og vegna starfsemi á Brákarbraut 25-27, saman við vinnubrögð Borgarbyggðar vegna nokkurra fyrirtækja á Húsafelli. Þar er meðal annars starfsemi Ferðaþjónustunnar á Húsafelli. Þá eru vinnubrögð Borgarbyggðar mun mildari. Látið er óátalið að leyfisskyldur rekstur þess fyrirtækis sé án starfsleyfis eins og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands (HEV) hefur staðfest. Þar á meðal vatnsveita og tjaldsvæði. Sótt var um starfsleyfi fyrir ferðaþjónustuna 28. apríl síðastliðinn eftir áratuga rekstur, en leyfi er enn óútgefið að sögn HEV.

 

Mosfellsbæ 20. júní 2021,

Ásgeir Sæmundsson