Jón eða séra Jón – árið 2017 skiptir það greinilega enn máli

Rósa Vigdís Arnardóttir

Í dag er ég vonsvikin. Mér finnst sem sveitarstjórnin hafi brugðist mér og syni mínum. Til að hugsa þetta í víðara samhengi, ekki aðeins brugðist okkur heldur öllum hinum fjölskyldunum í sveitinni minni.

Já, ég segi sveitinni minni þrátt fyrir að við séum aðflutt. Við fluttum hingað tvö mæðginin fyrir þremur árum síðan en alla tíð hefur okkur fundist við vera hluti af sveitinni. Við erum héðan. Fólkið hér er dásamlegt og tekur öllum vel. Samstaðan er ólík nokkru sem ég, borgarbarnið, hef kynnst. Málefni sveitarinnar eru okkur hjartfólgin sama hvort við búum í Hvítársíðu, Reykholtsdal eða Hvanneyri.

Nú eru málin þannig að í mörg ár hafa staðið til úrbætur varðandi húsnæðismál leikskólans Hnoðrabóls sem staðsettur er í Reykholtsdal. Ég sjálf starfaði þar í tvö ár, þekki aðstæður og þekki örlítið til málsins.

Húsnæðið er gamalt íbúðarhús sem er fyrir löngu síðan orðið allt of lítið til að anna því starfi sem þar fer fram. Börn og starfsfólk eyða sínum virku dögum í skipulögðu starfið/kennslu í svo alltof litlum rýmum. Ef fólk sem býr til dæmis í einbýlishúsi ímyndar sér að starfrækja þar kennslu 20-25 barna á aldrinun 1 árs til 5 ára, ásamt sjö starfsmönnum þá getið þið ímyndað ykkur aðstæðurnar. Hvaða barni líður vel í því umhverfi mögulega átta tíma á dag?

Miklir peningar hafa farið í margar teikningar. Margar. Því á nokkurra mánuða fresti kemur ný hugmynd að staðsetningu nýs leikskóla. Þessar hugmyndir fara fyrir nefndir, skipulagsnefnd, bygginganefnd, deiluskipulag þarf að skoða og þar fram eftir götunum. En ekkert gerist. Ég endurtek, mörg ár!

Hnoðraból stendur við bæinn Grímsstaði í Reykholtsdal. Börnin upplifa sveitina frá fyrstu hendi og það var dásamlegt að fylgjast með þeim vaxa og dafna í þessu umhverfi. Við fórum í göngutúra í fjárhúsin og hesthúsið, sáum kind bera og ekki má gleyma hinu árlega smalakaffi þar sem farið er í gönguferð í hesthúsið og drukkið heitt kakó og gætt sér á flatkökum og kleinum. Þetta er lífsreynsla fyrir börnin, fræðsla og frábær viðbót í minningabankann. Einnig má nefna að ábúendur á Grímsstöðum hafa skipt börnin á leikskólanum miklu máli. Í útiveru er fylgst með öllum hreyfingum Guðmundar bónda og rætt hvaða störfum hann sé að sinna hverju sinni. Ekki má gleyma hinni yndislegu Steinu ömmu sem starfaði lengi á leikskólanum og flest börn þekkja hana sem ömmu. Því fyndist mér réttast að byggja við og lagfæra núverandi húsnæði. Það myndi kosta minna. Sagan, upplifunin og það sem mikilvægast er, framtíðin okkar. Börnin.

Þó skiptir mig mestu máli að húsnæðismálið leysist. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum og er algerlega vonsvikin.

Það sem brennur á íbúum hér er hvers vegna ekkert gerist í þessu máli. Afhverju þarf í sífellu að koma með nýjar staðsetningar? Sú nýjasta og versta er að byggja á fótboltavelli Kleppjárnsreykjaskóla! Hverjum dettur í hug að taka af grunnskólabörnum Kleppjárnsreykja þar sem aðstaða til hreyfingar og útiveru er alls ekki nægilega góð fyrir? Ætlaði Borgarbyggð ekki að vera heilsueflandi samfélag? Þetta er til skammar. Til skammar fyrir sveitarfélagið og stjórn þess. Hvers eigum við að gjalda fyrir að búa í dreifbýli? Erum við og börnin okkar ekki með sama rétt og þéttbýlið? Erum við ekki hluti af Borgarbyggð?

 

Kveðja,

Rósa Vigdís Arnardóttir.

Fleiri aðsendar greinar