Jöfn tækifæri til að blómstra í námi

Ísfold Rán Grétarsdóttir

Jafnrétti til náms hefur verið mér mjög hugleikið frá því að ég hóf háskólanám síðastliðið haust. Ég legg stund á BA nám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands, sem er fag sem ég brenn fyrir og það var gamall draumur að mennta mig á því sviði. Það er skortur á félagsráðgjöfum víða um land og sérþekking þeirra eftirsótt, enda mikilvægir liðir í félagsþjónustu, réttarkerfinu, heilsugæslu, sjúkrahúsum, og svo mætti lengi telja. Félagsráðgjöf er hins vegar ekki í boði í fjarnámi við Háskóla Íslands, sem er eini háskólinn sem býður upp á nám í faginu. Land sem er jafn ríkt og Ísland ætti að hafa efni á að bjóða öllum nám við hæfi óháð stöðu, stétt og ekki síst búsetu. Það ætti að vera sjálfsagt að ríkið hvetji og styðji fólk til þess að mennta sig og hagur samfélagsins alls að bjóða upp á fjölbreyttara námsframboð í fjarnámi.

Við núverandi aðstæður finnst mér ekki vera jöfn tækifæri til náms óháð búsetu, það er verulega torsótt fyrir flesta nemendur sem búa úti á landi að keyra í hverja einastu kennslustund. Við Háskóla Íslands stundar fjölbreyttur hópur fólks nám sem kemur víðs vegar að og margir eiga börn sem erfitt er að slíta sig frá um lengri tíma. Eðlilega hafa margir foreldrar ungra barna lent í erfiðleikum með að stunda nám sem þau hafa áhuga á og metnað fyrir af þessum orsökum. Í mínum augum er lausnin mjög auðveld og það er að Háskóli Íslands innleiði fjarkennslu sem valmöguleika og sýni þeim nemendum skilning sem ekki geta stundað staðnám.

Ég bý við þau forréttindi að búa stutt frá höfuðborginni en það eru margir sem neyðast til að keyra lengri vegalengd. Bensínkostnaðurinn er gífurlega hár, sérstaklega á þessum tímum þar sem lítrinn er kominn yfir 300 kr. Menntasjóður námsmanna lánar þar að auki ekki fyrir auknum samgöngukostnaði þeirra sem þurfa að keyra til Reykjavíkur til að sækja kennslustundir. Það er fráleitt að nemendur sem búa í dreifbýli þurfi að sitja uppi með þennan aukna kostnað, fyrir utan tímann og orkuna sem fer í endalausar Reykjavíkurferðir.

Háskóli Íslands telur sig ekki vera stakk búinn til þess að bjóða upp á fjarnám og hafa margir nemendur sem stunda nám tjáð óánægju sína yfir því að fjarkennsla sé ekki í boði og skilja nemendur ekki hvers vegna háskóli sem hefur starfað svona lengi sé ekki ennþá kominn á þann stað árið 2022 að geta þjónustað nemendur út um allt land.

 

Covid varpaði ljósi á stöðuna

Á þessari önn fundum við samnemendur mínir hins vegar fyrir miklum breytingum þar sem okkur var óheimilt að mæta vegna samkomutakmarka. Því vil ég meina að Covid hafi í raun varpað ljósi á sannleikann, að fjarnám er víst möguleiki. Kennslustundir fóru fram í gegnum tölvur og gekk það mjög vel fyrir sig. Viðbrögðin við Covid sýndu að það er víst hægt að koma til móts við nemendur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég tel mikilvægt baráttumál landsbyggðarinnar að það sé fundinn farvegur til þess að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir. Þannig njóta allir góðs af háskólagöngu sinni, því háskólaárin eiga að vera skemmtilegur tími í lífi hvers og eins og allir eiga að fá tækifæri til þess að njóta sín og blómstra í námi.

 

Ísfold Rán Grétarsdóttir.

Höf. skipar 7. sæti á lista VG í Borgarbyggð