Jafnteflið og dauðinn

Kristján Gauti Karlsson

Nú kann það að hafa farið framhjá þér, lesandi góður, en Heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu hófst í Rússlandi í liðinni viku. Íslenska landsliðið er þar meðal þátttakenda í fyrsta skipti og sannkallað HM æði hefur gripið um sig hjá landi og þjóð. Síðastliðinn sunnudag fylkti fólk liði og gekk saman við trommuslátt og lúðratóna um stræti og torg. Börn voru máluð í fánalitunum og fólk hlýddi á HM konuna flytja ættjarðarljóð til að blása strákunum okkar og stuðningsmönnum þeirra byr í brjóst. Mikil HM stemning.

Dagurinn sem um ræðir er að sjálfsögðu 17. júní og ofangreindur texti er grín. Látið er sem leiðarahöfundur viti ekki að 17. júní er þjóðhátíðardagurinn og telji að landinn hafi safnast saman í HM æði. Nú má hlæja.

Oft hefur verið ritað á blað hvernig heimsmeistaramót af þessu tagi getur verið til þess fallið að þjappa þjóðinni saman með jákvæðri þjóðerniskennd. Síðan er mótið búið og lífið heldur áfram. En einstaka leiki mótsins má líka nýta til að leyfa tilfinningunum að heltaka sig stutta stund. Það getur verið gott. Flest höldum við ofboðslega mikið með Íslandi á mótinu og mörg okkar stukkum upp úr sófanum þegar jöfnunarmarkið kom á móti Argentínu á laugardaginn. Það er bara allt í lagi og mun skemmtilegra að njóta mótsins þannig. Það væri hægt að líta mótið sjálft öðrum augum: „Ísland gerir jafntefli við Argentínu og við munum öll deyja.“ Í stóra samhenginu er kannski ýmislegt til í því. Þetta er bara stuttur kappleikur og lífið heldur áfram. En kannski einmit þess vegna er kjörið að láta það eftir sér að setjast í tilfinningarússíbanann í stofusófanum og fara eina 90 mínútna salíbunu. Hlæja, gráta og naga neglurnar á meðan. Lúta höfði af sorg og öskra af gleði. Leyfa sér að vera því sannarlega munum við öll deyja, hvort sem Hannes ver vítaspyrnu frá Messi eður ei. Ef við á annað borð höfum gaman af því að horfa á íþróttir er um að gera að njóta til hins ýtrasta. Það gerum við með því að gleyma okkur í gleðinni og geðshræringunni.

Ég hef eftir fremsta megni reynt að tileinka mér þetta viðhorf, einkum þegar landsliðið á í hlut. Það er bara svo gaman. Ég horfði á leikinn á móti Argentínu með nokkrum góðum heima hjá vini mínum. Þegar tangódrengirnir komust yfir lutum við höfði strákarnir og andvörpuðum. Ég stóð upp og gekk álútur fram í eldhús og fékk mér kaffi. Merrilddrullu úr Senseovél. Ég var ekki fyrr sestur í sófann og búinn að taka fyrsta sopann en Alfreð Finnbogason jafnaði. Áður en ég vissi af hafði ég öskurfrussað kaffinu út um alla stofu hjá vini mínum. En honum var alveg sama. Strákarnir áttu innilega gleðistund saman þar sem þeir dönsuðu og sungu í stofunni. Þegar Hannes varði vítið frá Messi fórum við næstum að gráta. Mikið var það gott. Síðan var leikurinn búinn. Ísland gerði jafntefli við Argentínu og við munum öll deyja.

Með kveðju og þökk fyrir lesturinn,
Kristján Gauti Karlsson.

Greinin birtist fyrst sem leiðari í Skessuhorni sl. miðvikudag, 20. júní.

Fleiri aðsendar greinar