Jafnrétti í verki

Gylfi Ólafsson

Eitt af stærstu kosningamálum Viðreisnar fyrir síðustu kosningar var að lögfesta jafnlaunavottun sem er tæki til að stuðla að því að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sömu störf. Þó stuttur tími hafi verið til stefnu tókst að ná þetta mál í gegn á vorþingi með atkvæðum allra flokka nema Pírata. Innleiðing í stærri stofnunum og fyrirtækjum hefst frá og með næsta ári. Ísland er fyrirmynd á erlendri grundu hvað þetta varðar og hlaut mikla og jákvæða athygli fyrir að standa fremst í baráttunni fyrir raunverulegu launajafnrétti. Þó kynjabilið sé hvergi minna en á Íslandi en í öllum öðrum OECD-ríkjum, er hins vegar margt óunnið.

Þannig er taka fæðingarorlofs enn mjög ójöfn. Konur eru því enn lengur fjarverandi af vinnumarkaði eftir barneignir, og staða þeirra á vinnumarkaði markast af því. Viðreisn er byrjuð að hækka hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði með markmiðið að ná 600 þúsundum í lok kjörtímabilsins.  Liður í því að báðir foreldrar fullnýti fæðingarorlofið er að hækka stuðning við foreldra í fæðingarorlofi.

 

Konur lenda í fátæktargildrum

Þá settu ráðherrar Viðreisnar í gang vinnu við að endurskoða bæði bótakerfi almannatrygginga og tekjuskattskerfið. Markmiðið er að fjárhagslegum stuðningi verði beint í ríkari mæli að lægri tekjuhópum. Þá á að líta á tekjur óháð uppruna þeirra. Þetta á að hamla gegn því að fólk lendi í fátæktargildru þar sem atvinnutekjur skerða bótagreiðslur svo mikið að það borgar sig ekki að vinna. Alltof algengt er að einstæðar mæður séu í slíkri stöðu.

 

Ofbeldi gegn konum þarf að linna

En peningar eru ekki allt og laun ekki eina mismununin milli kynja. Kynbyndið ofbeldi er sennilega skýrasta birtingarmynd þess að jafnrétti hefur ekki náðst. Þingmenn og ráðherrar Viðreisnar lögðu fram frumvarp um að endurskilgreina nauðgun, með því að setja aukna áherslu á samþykki. Staðreyndin er sú að konur eru í langstærstum hluti þolenda kynferðisbrota. Nútímaleg löggjöf um þessi brot er því réttarbót fyrir konur og á sama tíma samfélagið allt.  En við viljum líka horfa á viðhorf og forvarnir, hvernig við getum náð því fram að fækka og vonandi útrýma þessum brotum. Viðreisn vill halda áfram vinnu við gerð aðgerðaráætlun gegn ofbeldi. Auka þarf fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.

Viðreisn er stolt af því að flétta alla sína lista af kynjum og hafa jöfn hlutföll kynja í oddvitasætum hringinn í kringum landið. Við sýnum viljann í verki og höfum beint kastljósinu að mikilvægi jafnréttismála.

 

Gylfi Ólafsson.

Höf. er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar