Jaðarsbakkasvæðið

Hallbera Fríður Jóhannesdóttir

Opið bréf til bæjarfulltrúa Akraneskaupstaðar og annarra bæjarbúa

Komið þið sæl!

Sem íbúi á Akranesi, áhugamanneskja um íþróttir og fastagestur í Jaðarsbakkalaug get ég ekki lengur orða bundist varðandi fyrirhugaða uppbyggingu á Jaðarsbakkasvæðinu. Einhverjir kunna sjálfsagt að spyrja sig hvað 67 ára kona sé að vilja upp á dekk og ég hef vissulega spurt mig að því sjálf. Af hverju er mér ekki sama um þetta svæði og treysti því að bæjarstjórnin og íþróttaforystan viti hvað hún er að gera? Af hverju tek ég því ekki fagnandi að þarna eigi að byggja upp svo um munar?

Núverandi ásýnd Jaðarsbakka

Ég hjóla eða geng um þetta svæði daglega, stundum oft á dag og hef gert í mörg ár. Ég er ekki ein um það því þarna fer um á hverjum degi allan ársins hring fjöldi manns, jafnt ungir sem aldnir, heimafólk og ferðalangar. Þarna er yndislegt að vera, en vissulega má ýmislegt bæta. Stígurinn með Langasandi stendur fyrir sínu en þarfnast endurnýjunar. Akraneshöllin sem var vígð árið 2006 virðist lúta þeirri ákvörðun að ekki taki því að mála þakið á henni því ryðliturinn breiðir úr sér jafnt og þétt. Sama á við þakið á íþróttahúsinu, en það hefur fengið að ryðga í friði í mörg ár. Við þetta má bæta að undirstöður áhorfendastúkunnar fá einnig að ryðga í friði og ekki sé ég betur en að hinna frábæru hreystitækja bíði sömu örlög. Aggapallur stendur fyrir sínu en ef ég ætti þennan pall myndi ég bera viðarvörn á hann oftar. Frá því í desember 2018 hefur svo Guðlaug sómt sér vel í varnargarðinum og vonandi verður vel hugsað um hana. Það er frábært að byggja upp en það þarf einnig að halda við því sem byggt er, ekki síst svo nálægt sjó sem fyrrgreind mannvirki eru.

Kannanir og hugmyndasamkeppni

Í desember árið 2020 tók ég þátt í íbúakönnun um Langasandssvæðið. Nú skyldi haft samráð við bæjarbúa, svæðið lagað og fegrað í þeim tilgangi að laða að því enn fleira fólk, jafnvel ferðamenn. Í framhaldi af könnunni var efnt til hugmyndasamkeppni, verðlaun veitt, og sett upp skilti með þremur bestu tillögunum en þær voru unnar með niðurstöðu íbúakönnunarinnar í huga. Í könnuninni kom m.a. eftirfarandi fram:

,,Svarendum fannst ýmislegt vanta á Langasandi, meðal annars meira skjól, fleiri staðir til að setjast og borða, og að það mætti bæta búningsklefaaðstöðuna við Guðlaugu. …Heilt yfir voru svarendur jákvæðir fyrir að fá veitingastað eða kaffihús, leigu og geymslu á sjósportsbúnaði, sjávarfræðslusetur, fleiri útsýnispalla og heilsutengda ferðaþjónustu á Langasand. Hins vegar var viðhorfið neikvæðara gagnvart hótelbyggingu, íbúðum eða minjagripaverslun… Annað sem kom fram var að fólk var frekar neikvætt fyrir að breyta grasæfingasvæði fótboltans, færa fótboltavöllinn eða stækka Akraneshöll.“

(Heimasíða Akraneskaupstaðar Íbúasamráð vegna hugmyndasamkeppni um Langasand – niðurstöður úr könnun 15.07.2021 Hugmyndasamkeppni)

Síðan þetta var hefur ekkert breyst ofan við Langasand. Hins vegar birtist eftirfarandi frétt þann 7. mars 2023:

„Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand. Í henni felst að byggt verði hótel, baðlón og heilsulind á svæðinu. Jafnframt er lýst yfir samstarfi aðila um stefnumörkun í ferðaþjónustu á Akranesi. Þá er einnig áformuð uppbygging á svæði ÍA þar sem m.a. verða nýir knattspyrnuvellir og stórbætt aðstaða fyrir iðkendur og íbúa…. Mikil áhersla verður lögð á samráð og samtal við bæjarbúa og hagsmunaaðila.“  (Heimasíða Akraneskaupstaðar)

Auk þessa átti að úthluta verktakanum lóðum fyrir byggingu 90-120 íbúða.

Fyrsta hugsun mín þegar ég las þessa yfirlýsingu var, hvernig ætla þeir að koma þessu fyrir? Þurfum við baðlón þegar við höfum sjóinn, Langasand og Guðlaugu? Ætlar verktakinn að fjármagna uppbygginguna og á hann að taka þátt í að móta ferðaþjónustu á Akranesi? Á að byggja íbúðir á æfingasvæðinu? Hvað varð um íbúakönnunina 2020 og verðlaunuðu tillögurnar?

Eftir að undirritun viljayfirlýsingarinnar fór fram hefur vinna bæjaryfirvalda haldið áfram í þessa átt. Öll bæjarstjórnin hefur verið samstíga í þessu verkefni og engar efasemdaraddir heyrst. Eitthvað var dregið í land með mótun ferðaþjónustunnar og dregið var úr því að til stæði að byggja á æfingasvæðinu. Íbúar gátu sent inn athugasemdir og það leiddi m.a. til þess að lesa mátti á heimasíðu bæjarins 29. ágúst sl.: Engar íbúðir á Jaðarsbökkum – breyting frá skipulagslýsingu.

Var sem sagt búið að lofa verktakanum lóðum á æfingasvæðinu? Spyr sú sem ekki veit. Honum hefur nú verið úthlutað lóðum á Sementsreitnum.

Næsta skref bæjaryfirvalda var að fá þrjár hönnunarstofur til að hefja vinnu við frumhönnun svæðisins og þann 23. október var komið að því að hafa samráð við bæjarbúa og kynna þeim tillögurnar.

Kynningarfundur

Ég mætti á kynningarfund bæjarstjórnarinnar í Bíóhöllinni. Fundurinn byrjaði á hálftíma erindi háskólaprófessors um hugtakið samfélag. Ágætis erindi en spurning hvað kom það málinu við? Var tilgangurinn kannski að segja okkur að vera jákvæð því þannig búum við til gott samfélag? Ekki vera með neitt röfl.

Þessu næst sté á stokk formaður nefndarinnar sem skipuð var í kringum verkefnið. Nefndin samanstóð af tveimur fulltrúum verktakans (m.a. formaðurinn), tveimur bæjarfulltrúum og einum fulltrúa frá ÍA og öðrum frá knattspyrnufélaginu. Ljóst á framsögu formannsins að nefndin vann hratt og vel og var fundarmönnum sýndur fjöldi þétt skrifaðra glæra. Á þeim mátti m.a. sjá upptalningu á kostum Akraness en jafnframt að einhverjum þætti leiðinlegt að búa hérna. Þá var komið að kynningu hönnunarstofanna og upp á tjaldið runnu teikningar, hver annarri glæsilegri. Það á að byggja hótel, baðlón, snúa knattspyrnuvellinum, setja upp flóðljós, byggja nýja stúku, rífa þá gömlu, rífa íþróttahúsið, byggja nýja innilaug, gera tvo nýja fótboltavelli austan megin við Akraneshöllina, laga göngustíginn og aðstöðu við Guðlaugu, jafnvel byggja brú. Einhvers staðar verða víst bílarnir/rúturnar að komast svo auðvitað eru bílastæði og jafnvel bílakjallari.  Reyndar dálítið vandræði með þennan lið því umferðin á að fara frá Garðabrautinni og Innnesveginum en nú þegar er aðgengið að svæðinu afskaplega þröngt. Vonandi verður öryggi barn á leið í Grundaskóla og íþróttir ekki skert.

Að þessari ,,flugeldasýningu“ lokinni var komið að fyrirspurnum utan úr sal. Sumir höfðu mætt á fundinn með þá von í brjósti að nú gætu þeir fengið að ræða við bæjarfulltrúana um þetta gríðarstóra og fjárfreka verkefni þar sem eitt fallegasta og fjölsóttasta svæðið á Akranesi er undir. Sú var ekki raunin. Einungis var hægt að ræða við fulltrúa hönnunarstofanna og gera athugasemdir við hugmyndir þeirra, en þeim hafði fram að þessu verið haldið vandlega leyndum. Eitthvað kostar þetta, en við erum svo heppin að það er verktaki sem er tilbúinn til þess að koma með peninga inn í uppbyggingu á svæðinu.

Einhverjir fundarmenn efuðust, gerðu athugasemdir og minnt var á gildi sögunnar og verk sjálfboðaliðanna á þessu svæði. En svo flott var þetta í augum sumra að þeir stóðu upp og sögðu áfram Skagamenn og byrjum strax á morgun.

Hvert er þá vandamálið, af hverju er ég ekki í skýjunum yfir þessu frábæra plani?

Snúningur knattspyrnuvallarins

Þegar maður fer að rýna í hugmyndir hönnunarstofanna er ýmislegt sem vekur upp spurningar. Tvær af hugmyndunum ganga út frá því að knattspyrnuvellinum sé snúið um níutíu gráður, stúka byggð upp við Akraneshöllina og hinum megin við völlinn komi baðlón og hótel sem reyndar snúa ekki út að sjó nema að litlu leiti. Áhorfendur eru komnir mjög nálægt vellinum, (gestir hótelsins líka) komin n.k. ,,gryfja“ sem ómögulegt er að stækka en sem vissulega verður erfitt fyrir önnur lið að mæta í. Fullyrt var á fundinum að hægt sé að snúa vellinum en það er forsenda þess að baðlónið og hótelbyggingin komist fyrir. Eftir skoðun á teikningunum efast ég stórlega um að þetta sé hægt. Í báðum þessum tillögum nær völlurinn svo að segja að göngustígnum, flóðljós virka eins og hornfánar og afar takmarkað pláss er fyrir aftan mörkin. Teiknuð er létt girðing á annarri tillögunni og lágvaxinn trjágróður á hinni sem lítið veita skjól fyrir hafáttinni. Þá er ég hrædd um að boltarnir eigi greiða leið út í sjó eða höfuð þeirra sem eiga leið um stíginn verði þetta svona. Og hvaða leið eiga vinnutæki og sjúkrabíll að fara?

Ekki ætla ég að fara nánar út í þessar hugmyndir en ítreka að við nánari skoðun er ýmislegt sem vekur furðu.  Og nú heyrast þær raddir að ef knattspyrnuvellinum verður ekki snúð þá fáum við ekkert hótel.

Hægt er að skoða teikningarnar á heimasíðu bæjarins undir fyrirsögninni: „Uppbygging á Jaðarsbökkum: Upptaka og kynningar frá opnum kynningarfundi 23. október 2023.“

Ábyrgð bæjarfulltrúa og bæjarbúa

Þegar teikningar hönnunarstofanna birtast manni í fyrsta sinn er ekki ólíklegt að viðbrögðin verði: ,,Vá hvað þetta er glæsilegt. Eftir hverju er verið að bíða? Okkur vantar hótel. Gerum þetta strax. Lofum verktakanum að ráða hvar hann byggir því hann ætlar að koma með fullt af peningum inn í samfélagið okkar.“ Þannig virðist þið ágætu bæjarfulltrúar, hvar í flokki sem þið eruð, hafa brugðist við. Ég vil hins vegar benda ykkur á að þið eruð að leggja undir einn dýrmætasta stað bæjarins og það án þess að spyrja okkur sem byggjum þennan bæ. Þið eruð búin að hringla fram og til baka með tillögur að þessu svæði og borga fyrir þær tugi milljóna. Haldið ykkur við skipulagið sem búið var að gera um svæðið og bætið við hugmyndum úr þeim flottu tillögum sem þið eruð búin að verðlauna. Lagið knattspyrnuvöllinn og stúkuna en látið þið stallana vera í friði. Hótel er mikilvægt og verðugt verkefni, en finnið þið því annan stað en þarna.

Við ykkur bæjarbúa vil ég segja þetta: Ekki vera sama um það sem til stendur að gera á Jaðarsbakkasvæðinu. Kynnið ykkur málið vandlega og myndið ykkur skoðun. Upplýsingar til okkar hafa verið í skötulíki og kynningarfundurinn í Bíóhöllinni í október var mjög sérstakur. Ágætur fyrirlestur, flottar myndir sem fundarmenn voru hins vegar að sjá í fyrsta sinn og höfðu því engar forsendur til þess að ræða eða spyrja út í. Ekkert var minnst á kostnað við verkefnið eða hvernig hann skiptist. Þeir sem bera ábyrgðina og taka ákvarðanirnar létu ekki ná af sér en sátu á fremsta bekk í klappliðinu. Ég geri mér grein fyrir því að ekki eru allir bæjarbúar sammála um þessa fyrirætlan. Einmitt þess vegna fer ég fram á boðað verði til opins fundar þar sem allir bæjarfulltrúar mæti, veiti okkur meiri upplýsingar og standi fyrir sínu máli.

 

Akranesi í nóvember 2023

Með bestu kveðju,

Hallbera Fríður Jóhannesdóttir

Höf. er íbúi á Akranesi

PS: Hvað er að frétta af Sementsreitnum?