Íþróttabærinn Akranes

Gísli, Gunnar og Jón

Á árinu 2021 eru 70 ár frá því að Skagamenn urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu. Það afrek vakti athygli um allt land og markaði upphafið að einstakri sigurgöngu á knattspyrnunnar á Akranesi og þeirrar menningar og ímyndar Akraness sem henni hefur fylgt. Þessi merkilega saga tekur bæði til kvenna og karlaliðanna, sem eiga sínar goðsagnir, afreksfólk, eftirminnilegar sigurstundir og viðburði. Þá er á árinu einnig 35 ár liðin frá því að Knattspyrnufélag ÍA var stofnað, en stofnun félagsins var nauðsynleg skipulagsbreyting frá því fyrirkomulagi sem áður hafði verið um áratugi með knattspyrnuráði á vegum Íþróttabandalags Akraness þar sem KA og Kári tefldu fram sameiginlegu liði. Auk knattspyrnunnar hefur Akranes á að skipa áhugaverðri sögu afreka í öðrum íþróttagreinum m.a. sundi og golfi en innan íþróttabandalagsins eru nú alls 19 félög og ætla má að minnsta kosti 30% bæjarbúa séu iðkendur og félagar í þessum félögum og hlutfallið mun hærra ef með er tekið allt það fólk sem leggur íþróttahreyfingunni lið með sjálfboðastarfi. Það eru því mikil verðmæti fólgin í íþróttastarfinu á Akranesi.

Þó svo að áhugi okkar undirritaðra beinist einna helst að knattspyrnunni er verðugt að íhuga hver hlutur íþróttamála er í samfélaginu á Akranesi og hvernig hlúð er að íþróttafólki. Í því sambandi skiptir máli að skoða hvernig staðið er að afreksstarfinu, sem í dag er í raun stærsta forsenda fjármögnunar félags eins og knattspyrnufélagsins og þar með fjölbreyttrar starfsemi.  Akraneskaupstaður hefur í gegnum árin staðið að uppbyggingu íþróttamannvirkja, en síðustu árin hefur áherslan verið á golf, hestamennsku og fimleika en lengi hafa verið í bígerð framkvæmdir á Jaðarsbakkasvæðinu, sem löngu eru tímabærar þó svo að þær bæti ekki aðstöðu knattspyrnunnar nema að takmörkuðu leyti.

Í samantekt sem Jón Þór Þórðarsonar tók saman fyrir nokkru um framlög bæjarfélaga til íþróttafélaga kemur í ljós að Akranes er talsvert á eftir sveitarfélögunum víða á landinu þrátt fyrir viðbót á síðasta ári.  Í skipuriti Akraneskaupstaðar tilheyra íþróttamálin skóla- og frístundasviði, sem er býsna víðtækt svið og fer með liðlega helming útgjalda bæjarfélagsins. Ekki hefur orðið vart við mikla umfjöllun um stefnumál íþrótta innan sviðsins í fundargerðum annað en hefðbundin rekstrarmál.  Hins vegar má benda á að í allflestum sveitarfélögum sem eru sambærileg við Akranes eru skipaðar sérstakar íþróttanefndir sem er rökrétt ef bæjarfélög vilja leggja sérstaka áherslu á þann málaflokk. Þetta er til umhugsunar fyrir samfélag sem vill kenna sig við íþróttabæ í fremstu röð.  Það er skoðun okkar að vægi íþrótta og tengsl íþróttahreyfingarinnar við bæjarfélagið ættu vera markvissari og traustari ef Akranes á að halda stöðu sinni í breyttum heimi íþróttahreyfingarinnar. Samtal bæjar og íþróttahreyfingarinnar er slitrótt og ÍA á í raun enga formælendur innan nefnda bæjarins.  Þessu þarf að breyta.

Þá má nefna að í nýlegri könnun um skipulagshugmyndir á svæðinu við Jaðarsbakka og Langasand er m.a. spurt hvort byggja eigi íbúðir á æfingasvæðinu og hvort jafnvel eigi að flytja íþróttasvæðið „eitthvað annað“.  Þær spurningar vekja ekki gleði í brjóstum okkar m.a. þegar horft er til einstakrar staðsetningar íþróttasvæðisins, bæjar- og íþróttasögulegra viðburða, sérstöðu svæðisins og möguleika þess til frekari þróunar í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs. Í þessari könnun hefði því farið betur á því að spyrja hvað þyrfti til að styrkja enn frekar innviði Akraneskaupstaðar á sviði íþrótta á Jaðarsbökkum.  Eitt er víst að það verður ekki gert með íbúðabyggð á svæðinu.

Í heimi knattspyrnunnar hefur margt breyst m.a. aðgengi að fjármunum til að reka það starf sem þar er unnið. Rekstrargrundvöllur félaganna verður því sífellt þyngri sem á endanum bitnar á gæðum starfsins – sem þó eru gerðar síauknar kröfur til. Íþróttasvæðið á Jaðarsbökkum, sem vissulega er umfangsmikið nýtur þeirrar breytingar þegar Akraneshöllin var reist.  En aðrir þættir hafa síðustu árin orðið útundan svo sem búningsklefar og aðstaða starfsfólks og þjálfara félagsins, sem hefur nánast verið á hrakhólum. Þá hefur sífellt verið þrengt að nauðsynlegri félagsaðstöðu á svæðinu með bráðabirgðareddingum. KFÍA hefur á síðustu árum lagt metnað í að ráða til starfa vel menntaða þjálfar og lagt áherslu á faglegt starf enda sífellt gerðar ríkari kröfur um að félagið standist bestu mælikvarða þegar kemur að æskulýðs- og íþróttastarfi. Það sama á eflaust við um önnur félög á Akranesi – en minna hefur farið fyrir því hvernig standa skuli að málum og styðja afreksstarfið, sem er gríðarlega mikilvægur þáttur til þess að viðhalda stöðu knattspyrnunnar á meðal bestu félaga á Íslandi.

Því miður gera sér of fáir grein fyrir því hversu íþróttir á Akranesi eru mikilvægur þáttur í æskulýðsstarfi, afreksstarfi og bæjarsálinni. Við megum ekki með nokkru móti glata stöðu okkar, sögu, hefð og sérstöðu, sem hefur áunnist frá því að sigursælt Íslandsmeistaralið árið 1951 markaði sporin í magnaðri íþróttasögu bæjarins. Því hvetjum við til þess að hafinn verði ný sókn til frekari afreka, sem verði ungum sem eldri, konum og körlum til sóma um lengri framtíð.

 

Gísli Gíslason

Gunnar Sigurðsson

Jón Gunnlaugsson