Íslenskt mál

Sigrún Hjartardóttir

Ég hef undanfarna mánuði verið í hópi fólks sem vinnur að gjaldfrjálsri ensk-íslenskri orðabók sem verður á netinu. Hingað til hefur slík orðabók ekki verið til.  Við vinnum öll heiman frá okkur, fáum send verkefni, og við hvert orð eru yfirleitt tillögur að þýðingu, eitthvað sem tölvan fann upp hjá sér sjálf. Margt skondið hefur birst, til dæmis stakk tölvan uppá nafninu Lovísa fyrir „promise“ (loforð), „underline“ (að undirstrika) var húsasmiðjan og síðast en ekki síst var „cane“ (stafur) Millubakkaskóli. Hverning í ósköpunum þessar túlkanir á orðunum finnast, veit ég ekki.

En við það að grufla svona mikið í málinu þá horfi ég oft á íslensku orðin í orðabókinni og hugsa“ af hverju?  Orðið vanfær, sem sagt að vera með barni, eða ólétt. Vanfær um hvað? Þetta orð var notað á árum áður og þá voru formæður okkar oftar en ekki óléttar, með barn á handlegg, annað við pilsfaldinn og þær voru að strita bæði inni og úti. Þær þættu frekar færar en vanfærar, nú til dags. Og hvers vegna heitir vinstri síða skips eða báts bakborði?  Leggjast fley ætíð með hægri hlið að bryggju þannig að sú vinstri er bakatil?  Ætti þetta ekki frekar bara að vera vinstri hlið?

Svo er orðabókin mín þykka frá árinu 1984 og í hana vantar öll tölvutengd orð.  Hún á engar íslenskar skýringar á að tagga einhvern, trolla einhvern, hakka sig inn í eitthvað eða þegar bufferinn er fullur í tækinu. Svo beilum við á einhvern ef við mætum ekki á stefnumót. Við höfum einfaldlega tamið okkur ensku orðin, stundum bara bætt greini við og voila! Íslenska nútímans.

Meðal-Jón þekkir og notar u.þ.b. 20-35.000 orð. Shakespeare notaði 31.534 orð í verk sín og er talinn hafa kunnað önnur 35.000 orð.  Við sem vinnum að orðabókinni vorum að ná 20.000 orða markinu og hlökkum til að geta upphalað þau til notkunar fljótlega. Öll þessi vinna er gerð í sjálfboðavinnu. Sumir eyða korteri á dag í þýðingar, aðrir klukkutíma, sumir klukkustund á viku. Öll vinna er vel þegið. Ef einhver hefur áhuga á að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni þá er best að kíkja á facebook síðuna okkar, Orðabæklingar, og hafa samband í gegnum hana. Enginn okkar er sérfræðingur, hvorki í ensku né íslensku, en saman getum við allt.

 

Sigrún Hjartardóttir Hátúni í Borgarfirði.