Íslenska ríkisstjórnin þakkar þér fyrir skattaframlagið þitt!

Geir Konráð Theódórsson

Er það ekki bara almenn kurteisi að segja takk þegar þú færð eitthvað gefins? Það eru að vísu sumir sem líkja skatti saman við þjófnað, en meira að segja sumir þjófar skilja eftir skilaboð þar sem þeir þakka fyrir sig.

Ég hef verið að velta þessu fyrir mér síðan ég rakst á þessa mynd af blaði sem einhver skattgreiðandi í Ástralíu fékk í pósti. Það var eitthvað við þessa mynd sem greip mig, og því meira sem ég skoðaði, las og hugsaði málið því meira fannst mér þetta vera eitthvað svo sjálfsagt. Auðvitað á hið opinbera að þakka fyrir framlagið okkar til rekstur ríkisins, og helst að útskýra hvað verður um þau verðmæti sem vinnan okkar skapaði og fara svo í skattinn.

Skoðum þetta blað aðeins betur. Ástralska ríkið byrjar á að þakka fyrir skattinn og svo sýna skuldastöðu ríkisins. Eftir það kemur litrík sundurliðun á því sem ríkið gerði við peningana sem frúin í Hamborg gaf því, það er að segja ef hún væri þessi ónefndi yfirstrikaði ástralski skattgreiðandi. Við sjáum að mest fer til velferðarmála og að þau eru sundurliðuð sérstaklega, svo koma heilbrigðismál, varnarmál, menntamál og svo framvegis. Fyrir aftan hvern lið er svo nákvæm tala á þeirri upphæð sem þessi ákveðni skattgreiðandi borgaði í það málefni. Svo að lokum er einhver vefslóð til að fá ítarlegri upplýsingar.

Mér þykir þetta alveg magnað og ég hugsaði með mér að hægt væri að eiga mun málefnalegra nöldur í heitu pottunum á Íslandi ef bara við fengum svona árlegan bleðil í pósti eða bara rafrænt á netið. Við getum að vísu nú þegar steytt hnefann og bölvað nákvæmlega yfir þeim 17.500 kr. sem fóru í útvarpsgjaldið, sem réttlætt er með rekstri á RÚV, en gjaldið fer svo auðvitað alls ekki beint í reksturinn á RÚV, heldur hverfur ofan í einhvert excelskjalshyldýpi hjá hinu opinbera. Við vitum nákvæmlegu töluna á þessum nefskatti sem leggst jafnt á alla, og eigum því auðveldara með að bölva vitleysunni því hún er hreinlega bara augljós.

Það er hinsvegar erfiðara að skilgreina og bölva öllu hinu sem á okkur er lagt. Mér verður hugsað til kjötlærisins sem píranafiskarnir átu í James Bond myndinni You Only Live Twice. Það sést illa hvað gerist en úr öllum áttum koma skattar og gjöld sem taka bita af hinum íslenska skattgreiðanda. Ástandið hérna er jafnvel verra en í bíómyndinni því stjórnmálamenn keppast svo við að setja fleiri píranafiska í tjörnina með okkur – bifreiðagjald var til dæmis bráðabirgðaskattur sem lagður var á þyngd bíla fyrir 30 árum til að staga upp í eitthvað fjárlagagat, en sá fiskur er enn að narta árvisst í okkur.

Ég væri líklegri til að sætta mig við þessi gjöld og skatta ef það væri bara komið fram við okkur skattgreiðendur af virðingu. Það er auðvelt fyrir stjórnmálafólk að lofa öllu fögru ef einhver annar á að borga kostnaðinn, og mig grunar að við kjósendur álpumst til að trúa þeim vegna þess að við sjáum í raun aldrei almennilega hvernig farið er með verðmætin okkar.

Íslensku upplýsingarnar eru þó til á ákveðnu formi og tæknilega séð aðgengilegar. Ef maður googlar og grefur sig áfram á netinu endar maður á undirsíðu stjórnarráðsins þar sem hægt er að finna kynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um fjárlög fyrir árið 2021. Því miður er þessi vefsíða ekkert sérstaklega stöðug og hefur oftar en einu sinni hrunið á meðan ég var að skoða hana, eða þá að myndrænu upplýsingarnar hurfu burt. Sömuleiðis eru þessar íslensku upplýsingar því miður ekki settar fram á eins auðskiljanlegan máta og hjá þeim í Ástralíu. Blessunarlega er ég þó kominn með lyf fyrir athyglisbrestinum mínum og ég náði að klóra mig í gegnum þetta og átta mig smá á grunnatriðunum.

Árið 2021 eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs 772 milljarðar króna, það er að segja verðmætin sem við gefum til hins opinbera með sköttum og gjöldum – en hinsvegar eru áætluð útgjöld hjá hinu opinbera því miður í kringum 1.119 milljarðar króna. Ég gat ekki auðveldlega séð skuldastöðu ríkisins, bara einhver hlutföll af vergri landsframleiðslu. Google poppaði þó upp með einhverja tölu og vísaði í Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, og samkvæmt þeim heimildum skuldar ríkið í kringum 900 milljarða króna eða í kringum 2,6 milljónir á hverja manneskju í landinu. Sá bömmer á líklegast bara eftir að verða enn meiri fyrir okkur miðað við hvernig efnahagsástandið er í dag.

En að lokum fann ég innan um allt í þessari kynningu svo loksins litla mynd sem eitthvað líkist ástralska blaðinu. Myndin er að vísu ekki eins vel sundurliðuð eða svona fallega litríkt, en þetta gefur okkur þó einhverja hugmynd um í hvað skattarnir okkar fara – og mögulega hjálpar þetta þeim sem ætla að nöldra almennilega yfir þessu öllu í heita pottinum. Tja, þegar sundlaugarnar opna aftur fyrir almenning.

Verst var þó að sama hvar ég leitaði á þessum vefsíðum hjá hinu opinbera, þá rakst ég því miður hvergi á eitt einasta orð sem gæfi til kynna þakklæti í garð íslenskra skattgreiðenda. Kannski sendi ég fyrirspurn á einhverja opinbera manneskju og hvet fólkið til að gera betur, það á við um ríkið sem og sveitarfélög um að miðla upplýsingum betur til okkar og þakka fyrir sig. Það er þó líklegra að ég nöldri bara um þetta næst þegar ég fer í heita pottinn.

Já, auðvitað er það síðan stóra málið að allir greiði sína skatta en ekki bara sumir, en það er svo önnur umræða. Æ, hvað ég sakna þess að fara í sund og heitan pott.

 

Geir Konráð Theódórsson.

Svona skiptast útgjöld ríkissjóðsins á Íslandi.

Kvittun og skýring sem ástralskur skattþegn fær sent frá þarlenda ríkinu, með þökkum!