International Play Iceland í leikskólanum Uglukletti Borgarnesi

Kristín Gísladóttir

Í Uglukletti er lögð mikil áhersla á útikennslu og er Ugluklettur orðinn hluti af hópi sem kallar sig International Play Iceland. Það eru óformleg samtök leikskólakennara og skólastjóra um allan heim sem vinna að því að að efla meðvitund um mikilvægi þess að börn á leikskólaaldri fái tækifæri til þess að læra á eigin forsendum í gegnum leik, hafi aðgengi að opnum efnivið og skapi tengsl við náttúruna. Kjarninn er að treysta barninu og gefa því tíma og rými.

Play Iceland hefur verið haldið sjö sinnum, sex sinnum hér á landi og einu sinni í Seattle í Bandaríkjunum. Viðburðurinn er fimm daga samvera þátttakenda þar sem hver og einn fær tækifæri til að taka þátt í daglegu leikskólastarfi. Umræður innan hópsins varðandi tækifæri barna, skólastarfið og hlutverk kennarans eru mikilvægur þáttur upplifunarinnar sem og innsýn inn í menningu þess staðar sem heimsóttur er. Lýkur svo samverunni með málþingi eða opnu samtali þeirra sem koma að.

Viðburðurinn er ferðalag þar sem einstaklingnum er gefið tækifæri til þess að þroskast sem manneskja og kennari. Þátttakendur hafa lýst ferð sinni sem einni bestu námsferð starfsferils síns. Ástæðan er sú þekking sem býr í alþjóðlegum hópi kennara með allskyns reynslu og innsýn í líf barna og það sjónarhorn sem hlotnast þegar kennari upplifir líðan og hegðun barna sem búa og leika í annars konar menningu og umhverfi en þeirra eigin. Síðastliðin ár hafa reynslumiklir ástralskir kennarar komið til Íslands og kynnst íslensku leikskólastarfi. Þeir munu taka höndum saman og bjóða upp á tveggja vikna, sambærilega lærdómsferð á næsta ári í Ástralíu.

Síðustu tvö ár hefur Ugluklettur verið svo heppin að fá að vera þátttakandi í þessum skemmtilega hópi.  Kennararnir koma snemma morguns og eru í leikskólanum fram eftir degi og fá að kynnast því starfi og þeim aðferðum sem leikskólinn notar. Í ár komu átta kennarar, allsstaðar að úr heiminum til okkar.  Þeir fóru með okkur í  fjöruferð þar sem þurfti að klifra í klettum og sulla í pollum, þau skrifuðu stafina sína í sandinn og flokkuðu hluti eftir stærð og lögun og margt fleira.  Það sem þeim fannst áhugaverðast er hvernig við notum náttúruna sem „kennslustofu“ og hvernig börnin fá tækifæri til þess að leika og læra í náttúrunni. Gestunum var tíðrætt um þá hæfileika sem börnin höfðu til þess að vera í náttúrunni og hversu gott innsæi þau og kennararnir höfðu gagnvart þeim áskorunum sem hún býður upp á. Gestir okkar ræddu einnig um það samspil sem þarf að vera milli kennarans og barnsins svo að barnið læri að treysta sjálfu sér og á þann hátt nýtt þá færni og þroska sem í því býr.

Það sem við í Uglukletti lærum af svona heimsókn er hversu dýrmætt það er að geta notið ósnortinnar náttúru og börnin fái tækifæri til að rækta með sér náttúrulæsi sem er ekki svo sjálfsagt alls staðar í heiminum.

Kristín Gísladóttir leikskólastjóri