Innsýn í hjúkrunarfræðinám erlendis

Kristín Edda Búadóttir

Í ár eru 100 ár liðin frá stofnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Af því tilefni stendur stjórn deildar hjúkrunarfræðinga á Akranesi og nágrenni fyrir því á afmælisárinu að birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga hér í Skessuhorni. Greinarnar eru birtar jafnt og þétt yfir afmælisárið og í þeim hafa lesendur fengið innsýn í þau fjölbreyttu störf og áskoranir sem hjúkrunarfræðingar fást við. Að þessu sinni kynnir sig til leiks Kristín Edda Búadóttir hjúkrunarfræðingur á Bráða- og slysadeild Landspítalans í Fossvogi og kennari í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Ég heiti Kristín Edda og er ákaflega stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur. Ég er fædd og uppalin á Akranesi, gift Ellerti Jóni og saman eigum við Önnu Magný 15 ára, Huldu Þórunni 11 ára og Styrmi Jóhann 10 ára. Ég starfa sem hjúkrunarfræðingur á Bráða- og slysadeild Landspítalans í Fossvogi ásamt því að kenna íslensku og hjúkrunarfræði við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Fór til Danmerkur í nám

Á árunum 2007 til 2015 bjuggum við fjölskyldan í Árósum í Danmörku þar sem við meðal annars lögðum stund á nám. Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá háskólanum þar í bæ og starfaði bæði á bráðabæklunardeild við Aarhus Universitets hospital og við heimahjúkrun langveikra barna hjá einkareknu hjúkrunarfyrirtæki. Það sem heillaði mig við námið á sínum tíma var hversu fjölbreytt það er ásamt því að atvinnumöguleikar að námi loknu eru yfirleitt mjög góðir víðast hvar. Námið er krefjandi en skemmtilegt og við skólann í Árósum er mikið lagt upp úr verklega hlutanum, sem vegur 40% af náminu.

Önnunum var skipt í tvö svokölluð modul sem spanna hvert um sig hér um bil 12 vikur. Skólaárið er því nokkuð langt eða frá ágúst fram í janúar og frá janúar út júní í 3,5 ár. Á fyrsta ári fara 11 vikur í starfsnám á annað hvort hand- eða lyflækningadeild. Á öðru ári fara 16 vikur í starfsnám sem dreift er á geðdeild, heimahjúkrun og ungbarnaeftirlit. Á þriðja ári fara 23 vikur í starfsnám þar sem helmingurinn fer í hand- eða lyflækningadeild (það fer eftir því hvað þú tókst á fyrsta ári) og helmingurinn á bráða- eða líknardeild. Fjórða árið fer í rannsóknarvinnu og BS-verkefni sem nemendur þurfa í lokin að verja til að útskrifast.

Mest munnleg lokapróf

Öll lokapróf sem lögð voru fyrir úr bóklega hlutanum í skólanum voru munnleg að undanskildu einu skriflegu í lyfjaútreikningum. Próf í lok verknáms voru með þeim hætti að fyrri part vaktar var manni fylgt eftir af klínískum leiðbeinanda sem skráði niður allt sem á daginn dreif og lagði mat á hvernig það var framkvæmt. Þetta voru ýmis hjúkrunarverk eins og samtöl og samskipti við sjúklinga og aðstandendur, sárameðferð, lífsmarkamæling, setja upp æðalegg, hengja upp vökva, setja upp þvaglegg, blanda lyf, undirbúa sjúkling fyrir aðgerð, taka á móti sjúklingi af vöknun, taka á móti sjúkrabíl, stofugangur, taka blóðprufur, gefa blóð og svona mætti lengi telja, og alltaf með hliðsjón af reglum um sýkingavarnir og mikil áhersla var lögð á almennt hreinlæti, rétta handhreinsun og hrein/steríl vinnubrögð. Ef maður stóðst þennan verklega hluta prófdagsins fékk maður klukkutíma til að undirbúa sig fyrir munnlegt próf þar sem kennari úr skólanum ásamt klínískum leiðbeinanda spurði út í verkefni morgunsins þar sem komið var inn á allt mögulegt úr bóklega náminu, til að mynda hjúkrunarkenningar, lyfjafræði, líffæra-og lífeðlisfræði, sjúkdómafræði o.s.frv..

Mæli með að fara erlendis í nám

Ég mæli eindregið með náminu og þreytist ekki á því að hvetja fólk til að sækja nám eða starfsreynslu, þótt ekki væri nema að hluta til í eina eða tvær annir, erlendis. Maður kemur svo sannarlega reynslunni ríkari heim. Flestir útlendingar sem vilja stunda nám í hjúkrunarfræði í Danmörku sækja um í svokölluðum kvóta 2 en þá eru ýmis önnur atriði tekin til greina heldur en einungis stúdentsprófið. Þar á meðal vegur lífsreynsla eins og hjálparstarf erlendis þungt, en einnig reynsla af störfum innan heilbrigðisgeirans.

Hjúkrunarstarfið er fjölbreytt eins og áhugasamir lesendur Skessuhorns hafa fengið að kynnast undanfarið og fá áfram að kynnast á næstu vikum og ég vil líka nefna að framhaldsnám innan fagsins býður upp á ýmsa spennandi möguleika í sérhæfingu og frekari rannsóknarvinnu hafi maður áhuga á því. Bæði hér heima sem og erlendis. Til dæmis hér: https://www.finduddannelse.dk/artikler/guides/videreuddannelse-sygeplejerske-11452

 

Kristín Edda Búadóttir

Fleiri aðsendar greinar