Íbúar í Borgarbyggð eiga betra skilið en ónýta embættismenn – seinni hluti

Þorsteinn Máni

Vert er að skoða hvað varð til þess að húsum að Brákarbraut 25 og 27 var lokað nær fyrirvaralaust í febrúar 2021 af byggingafulltrúanum og seinna slökkviliðsstjóranum í Borgarbyggð.

Samkvæmt gögnum sem Borgarbyggð hefur afhent, var það 3. febrúar 2021, sem eldvarnafulltrúi slökkviliðsins í Borgarbyggð sendi umsjónarmanni fasteigna tölvupóst vegna Brákarbrautar 25 og 27, og segir hann þar: „1. feb. Síðastliðinn tók ég út aðstöðu Öldunnar við Brákarbraut 25 eins og þú veist og hefur líklega fengið að heyra af. Út frá þessari úttekt tel ég mjög nauðsynlegt að taka út restina af húsinu. Flóttaleiðir og eldvarnir eru í ólagi þarna og vatnsleki við rafmagnstöflur sem þarf að skoða. Hrunhætta er á svæðum sem auðveldlega er hægt að komast inn í og starfsemi þarna sem mér þætti gott að fá að sjá og kynna mér. Ég óska því eftir að þú komir með mér í þetta verkefni og við tökum stöðuna á öllu þessu húsnæði saman…“

Og umsjónamaðurinn svaraði: „Sælir, já hið besta mál að skoða húsið. Held að það væri gott að hafa… [slökkviliðsstjórann] með þar sem hann þekkir húsin manna best, eins fengum við hann alltaf á staðinn áður en leigusamningar voru lagðir fyrir byggðarráð til að koma með athugasemdir varðandi flóttaleiðir og þessháttar. Hef marg oft lagt fyrir byggðarráð um að fá ákvörðun um hvað á að gera fyrir húsið, rífa eða endurgera en ekki fengið niðurstöðu. Vonandi hjálpar það við að fá úr þessu skorið.“

Svar eldvarnarfulltúans knáa var svo eftirfarandi: „Já, sammála. Við erum að dansa sama dansinn varðandi þetta mál. Ég sé þetta hús sem gríðarlega slysagildru og við getum unnið þetta saman til betri vegar… Ég veit að byggingarfulltrúinn vill fá að skoða húsið einnig, þannig að það er spurning hvort það væri ekki ágætt?“

Ekki verður annað ráðið af samskiptunum hér að framan, en að embættismennirnir hafi gjörþekkt aðstæður og ætlunin hafi verið að skapa usla og knýja sveitarstjórn til svara varðandi framtíð húsanna. Af þessum gögnum og fleirum voru eldvarnir aukatriði í aðförinni sem fyrir dyrum stóð. Enda kættist eldvarnafulltrúinn þegar hann áttaði sig á að allir vildu „dansa sama dansinn“.

Úttektarhersingu Borgarbyggðar 5. febrúar skipuðu; verkstjóri áhaldahúss, umsjónarmaður hússins, slökkviliðsstjórinn, eldvarnafulltrúinn, byggingarfulltrúinn og aðstoðarmaður hans.

Það var svo 9. febrúar sem eldvafulltúinn skilaði niðurstöðu varðandi úttektina, fátt var þar um eldvarnir annað en um að laga þyrfti neyðarútganga og betri reyklosun, sumt af því og margt annað var rakalaust og kom eldvörnum ekkert við. Ef úttektin hefur verið rétt var hún og er alvarlegur áfellisdómur yfir störfum og úttektum slökkviliðsstjórans árin þar á undan. Flest bendir til að í fyrstu hafi hann ekki fengist til að loka húsnæðinu, því byggingafulltrúinn tók það að sér.

Byggði byggingafulltrúinn lokunartilskipun sína á, að skipulag innan húss væri ekki í samræmi við raunveruleikann sem og notkunarheiti. – Í allri veröldinni hlýtur að vera vandfundinn byggingafulltrúi, sem dottið hefur í huga að lokað húsbyggingum fyrirvaralaust og af eins ómerkilegri ástæðu. Þegar hann átti ekki annan kost en að horfast í augu við eigið rugl, reyndi hann að beita því fyrir sig, að hann hafi lokað vegna fyrirmæla frá eldvarnafulltúa og að honum hafi borið að hjálpa slökkviliðsstjóranum, (sem virtist sem jörðin hafi þá gleypt).

Til að fullkomna alla óhæfuna sendi byggingafulltrúinn eiganda húsanna, sveitarfélaginu, bréf í orðastað slökkviliðsstjóra og krafðist þess að „…sett verði öryggisvakt við húsið í samræmi við tillögu Eldvarnaeftirlitsins þess efnis.“ Gerði byggingafulltrúinn þetta þótt í lögum stæði, að það væri slökkviliðsstjórans að fyrirskipa slíka vakt – ekki eigandans. Ætlunin var að blása málið upp og láta líta svo út sem um stórkostlega hættu væri að ræða – tíminn síðan þá hefur leitt í ljós að allt var þetta leikur og tómt bull, tilgangnum var ætlað að helga meðalið.

Lokun húsa á Brákarbraut 25 og 27 þann 12. febrúar var bæði óþörf og samræmdist ekki lögum, og frá þeim tíma liðu 39 dagar þar til slökkviliðsstjóranum hafði safnast nægur kjarkur til fyrirskipa lokun 23. mars 2021.  Hvað varð um alla hættuna frá úttekt og þar til lokað var?

Hvernig getur það sem að framan er lýst fengið að viðgangast, þar sem æðstu yfirmenn er menntaðir í lögum og eiga að hafa þekkingu á hvernig stjórnsýsla virkar og hvað er boðlegt í samskiptum við íbúana?

Ekki er niðurstaðan heldur slökkviliðinu í Borgarbyggð í vil, þegar vinnubrögð þess eru borin saman við Slökkvilið höfuborgarsvæðisins, sem nýverið skoðaði vegna eldvarna mikinn fjölda atvinnueigna þar sem fólk býr. Slökkviliðsstjórinn á höfuborgarsvæðinu sagði í viðtali 22. apríl, sl. að því tilefni, að hans menn myndu skoða 50 af húsunum aftur, hús þar sem fólk byggi við hættulegar aðstæður, ætlunin væri að leggja til úrbætur til að tryggja öryggi fólksins. – Þarf frekar vitnana við?

 

Þorsteinn Máni