Íbúar í Borgarbyggð eiga betra skilið en ónýta embættismenn – fyrri hluti

Þorsteinn Máni

Stjórnsýsla skipulags- og byggingarmála í Borgarbyggð hefur undanfarna mánuði verið undir sérstöku eftirliti ráðherra vegna fjölda mála sem upp hafa komið. Þekktast þeirra er Húsafellsmálið. Vegna afglapa embættismanna í því máli greiddi sveitarfélagið málsaðilum tugmilljóna í bætur. Annað mál snýr að Slökkviliðinu og starfsháttum þess.

Eldvarnarsvið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gerði sumarið 2021 úttekt og alvarlegar athugasemdir í mörgum liðum við starfshætti og ástand mála hjá Slökkviliði Borgarbyggðar. Kom þar m.a. fram, að brunahólfun væri ekki fyrir hendi í slökkvistöðvum þess og að engin brunarvarnaráætlun væri í gildi fyrir sveitarfélagið, sem þó á að vera lögum samkvæmt.

Í viðauka við, úr gildi fallna Brunavarnaráætlun 2014-2019, er að finna skrá yfir allt skoðunarskylt húsnæði í Borgarbyggð.  Það vekur sérstaka athygli að í brunavarnaráætluninni er hvergi getið um Brákarbraut 25 og 27 í Brákarey, húsin sem lokað var fyrirvaralaust í febrúar 2021, að sagt var vegna ónógra brunavarna.

Í fundargerð byggðarráðs Borgarbyggðar frá 21. janúar 2021 er að finna skrá yfir mannvirki sem Slökkviliðið ætlaði að skoða það ár. Húsin eða starfsemin á Brákarbraut 25 og 27 voru þar ekki á meðal. Kom það ekki í veg fyrir úttekt, sem gerð var hálfum mánuði seinna, og með ófyrirséðum afleiðingum nú einu og hálfu ári síðar!

Því liggur það nú fyrir, að slökkviliðsstjórinn í Borgarbyggð taldi árum saman enga ástæðu til að hafa umrætt atvinnuhúsnæði í Brákarey, 7.400 fermetrar að stærð, með margháttaðri starfsemi í Brunarvarnaráætlun, vel að merkja, meðan honum þóknaðist að hafa slíka áætlun yfir sér. Engar skýrslur um úttektir á húsnæðinu er heldur að finna í skjalasafni Slökkviliðsins í Borgarbyggð.

Getur það verið, að slökkviliðsstjórinn í Borgarbyggð hafi árum saman talið að enga brunahættu hafa stafað af húsum og starfsemi í Brákarbraut 25 og 27, og skráningu í brunavarnaráætlun og úttektir hennar vegna því með öllu óþarfar? – Eða var vítaverðri vanrækslu slökkviliðsstjórans um að kenna?

Slökkviliðsstjórinn í Borgarbyggð gerði þó sínar úttektir á húsnæðinu í Brákarey þótt í smáu væri, það sannar bréf hans til stjórnsýslusviðs Borgarbyggðar 11. febrúar 2021 og eins tölvupóstur frá umsjónarmanni fasteigna hjá Borgarbyggð 3. febrúar 2021,

„…Held að það væri gott að hafa… [slökkviliðsstjórann] með þar sem hann þekkir húsið manna best, eins fengum við hann alltaf á staðinn áður en leigusamningar voru lagðir fyrir byggðarráð….“

„…Hann þekkir húsin manna best…“ og gerði úttektir og þekkti til allra hluta í Brákarbraut 25 og 27, það sem þar var og gerðist árum saman var með fullri vitund og blessun slökkviliðsstjórans í Borgarbyggð. Enda fékk hann sig í fyrstu ekki til þess að beita valdi og loka með haldlausa úttektarskýrslu eldvarnarfulltrúans í höndum. Byggingarfulltrúinn tók að sér og sendi frá sér bréf með þessum skilaboðum:

„…Eldvarnareftirlit Slökkviliðs Borgarbyggðar setti fram kröfu þess efnis við embætti byggingarfulltrúa að notkun mannvirkjanna Brákarbraut 25 og 27 verði bönnuð og að þeim verði lokað, sbr. 3. tl. 29. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir. Telur byggingarfulltrúi að embætti hans sé skylt að aðstoða slökkviliðsstjóra við það að knýja eiganda mannvirkis til úrbóta…“

Meira að segja forstöðumaður stjórnsýslusviðs Borgarbyggðar HRL-inn, áttaði sig um síðir á að þessi flétta þeirra væri lögleysa. Upp var runnin hin stóra stund slökkviliðsstjórans, að velja sér hlutskipti, að vera barinn þræll eða þjónn valdsins.

Niðurstaða slökkviliðsstjórans er ljós, hann lét innsigla húsnæðið, en segir embætti sitt enga ábyrgð bera á sínum gjörðum eða hundruð milljóna verðmætum sem lokuðust þar með inni, og alls er óljóst um ástand á nú einu og hálfu ári seinna.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar 2018-2022 ber sína ábyrgð, hefur svikið gerða samninga, og valdið mörgum aðilum tjóni með ákvörðunum sínum og ráðleysi. Frambjóðendur til sveitarstjórnar 2022-2026 verða að sýna á spilin áður en kosið verður.

 

Þorsteinn Máni