Í útivist upplifum við náttúruna í fjölbreytileika sínum

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Í samkomubanni því sem nú stendur yfir af völdum Covid 19 veirunnar hafa miklar takmarkanir orðið á öllu íþrótta- og félagsstarfi.  Frá upphafi þessara aðgerða hefur almenningur verið hvattur til að stunda útivist og leggja sig fram um að halda daglegum hreyfivenjum eins og kostur er, þó færa þurfi í nýjan búning.  Í mínu bæjarfélagi hef ég orðið vör við, að æ fleiri nýta sér náttúruna og sitt nánasta umhverfi til hreyfingar og andlegrar upplyftingar.  Fleiri eru á ferli utandyra og hlýtur það að teljast jákvæð hliðarverkun annars hamlandi en nauðsynlegra aðgerða.  Margir þeirra sem nú vafra um víðan völl hafa stundað reglubundna útivist til margra ára og haft hana sem órjúfanlegan hluta af sínum lífsstíl.  Hinsvegar er stór hópur sem fram að þessu hefur að mestu stundað sína hreyfingu og líkamsrækt innan veggja íþróttamannvirkja sveitarfélagsins.  Sá hópur hefur brugðið á ýmis ráð til að halda dampi og margir sjá sér þann kost vænstan að drífa sig út, ýmist í eigin félagsskap eða með fjölskyldu sér við hlið, gangandi, hjólandi eða hlaupandi.  Svo eru enn aðrir, sem ekki hafa stundað markvissa útivist áður né aðra hreyfingu, sem gripið hafa boltann á lofti og tekið hvatningu um aukna hreyfivirkni.  Það er ánægjulegt að verða vitni af þessari þróun og get ég varla orðað það hversu fegin ég er að ekki hafi verið settar hömlur á möguleika almennings til útivistar, umfram þær fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk sem gilt hafa í varnarbaráttunni við veiruna.

Ég hef til margra ára sótt minn lífskraft í náttúruna og hafa göngutúrar og styttri fjallgöngur verið mín aðal líkamsrækt um langt skeið.  Tilgangur minn með útivistinni er margþættur en nefna mætti viðleitni til að viðhalda ákveðinni líkamsvirkni, auka þol og styrk, losa um líkamlega jafnt sem andlega spennu, stunda heilsusamlega afþreyingu og síðast en ekki síst auka tengsl við umhverfið og sjálfa mig.  Þrátt fyrir að ég dragist jafn mikið að náttúrunni og raun ber vitni er ekki hægt að segja að ég sé ofurfróð um allt sem fyrir augu ber.  Örnefni hef ég sjaldan lagt mig eftir að læra og lengi vel var ég algjör rati að þekkja fugla.  Það hefur þó breyst töluvert og hef ég smitast af fuglaáhuga mannsins míns og þekki nú algengustu fuglana.  Ég er ágætlega vel að mér í íslensku flórunni, eftir nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, þó ég megi alveg hefjast handa við að dusta rykið af þeirri vitneskju.  Ég hef ekki næmasta augað til að taka eftir fuglinum sem flýgur hjá í jaðri sjónsviðsins.  Þar af leiðandi er sérstaklega lofsvert að mínu mati þegar ég tek eftir erninum sem sveimar yfir Seleyrinni eða músarindlinum sem skoppar á milli greina í skógarjaðrinum.  Upplifun mín í útivistinni er margvísleg en liggur þó ekki síst í skynjun minni á hinu lítt áþreifanlega í náttúrunni eins og lykt, birtu, ljósbroti, veðurfari, hitastigi og jafnvel hljóðum.  Þetta eru upplifanir sem stundum vekja hjá mér minningar og hrífa mig með sér til liðinna tíma.  Sem dæmi getur ákveðinn ferskleiki í andvaranum á mildum apríldegi kallað fram áratuga gamla minningu.  Minningu þar sem lítil hnáta stendur á bæjarhlaðinu heima hjá sér og skynjar hvernig vorið bíður þess að grípa andann á lofti.  Hún skynjar deigan jarðveginn undir fótunum, þar sem frostið er við það að láta undan hlýnandi veðurfarinu.  Hún horfir til norðurs og dreymin virðir hún fyrir sér litbrigði skýjanna.  Auk minninga koma til mín upplifanir sem kalla fram einhverskonar sögusvið fortíðar og tilfinningu fyrir tilvist löngu genginna forfeðra.  Til að mynda þegar kennsl eru borin á gamlar mannvistarleyfar eða slóðir sem gengnar hafa verið öldum saman kviknar þörf fyrir ákveðna samsömun.  Ég set mig í spor og upplifi í kringumstæðunum orku sem tilheyrði öðrum tíma.  Ofan á þessar upplifanir getur svo bæst við þakklæti yfir því að taka eftir frábrugðna steininum sem stingur sér upp úr frostlyftum melnum, glitrandi stráinu í moldarbarðinu eða smágerða lækjartaumnum sem seitlar niður klöppina.

Upplifun fólks á náttúrunni í sinni útivist kann að vera margvísleg og af misjöfnum toga.  Aðal málið í mínum huga er að sem flestir átti sig á þeim forréttindum sem við búum við að geta notið náttúrunnar í okkar nærumhverfi.  Það er að mínu mati fátt sem kemur í staðinn fyrir að anda að sér fersku loftinu í mátulega mikilli líkamlegri virkni.  Að arka út og láta ekki veðrið stoppa sig er mannbætandi áskorun og að taka á móti storminum, vel klæddur, er hin mesta heilsubót.  Ég hef kynnst því á eigin skinni að veðurfar er oftast hugarfar með tilliti til hreyfingar utandyra og broslegt hvað það er oft miklu verra inni í stofu en þegar út er komið.  Án efa hlakka flestir til að venjubundin starfsemi íþróttamannvirkja hefjist, að æfingar hverskonar komist í eðlilegt horf og að félagslíf fái að blómstra á nýjan leik.  Ég tilheyri svo sannarlega þeim hópi, þó líkur séu á að eitthvað þurfi að bíða enn.  Með þessum pistli mínum vil ég hvetja fólk til að láta ekki deigan síga.  Vor er í lofti og fuglasöngur farinn að óma um grundir og fátt meira nærandi en að anda að sér árstíðinni.  Haldið áfram að njóta útivistar, samhliða skrefunum sem stigin verða til gamla vanans.

 

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Borgarnesi