Í sannleika sagt

Frambjóðendur Framsóknar og frjálsra

Við frambjóðendur Framsóknar og frjálsra á Akranesi fögnum innilega jákvæðri umfjöllun um fjárhagsstöðu bæjarsjóðs varðandi ársreikningana 2017. Það sem gjarnan mætti þó minnast á er að staðan sýnist góð vegna margra samverkandi þátta og því miður vegna þess að margar framkvæmdir hafa dregist á kjörtímabilinu sem nú er að enda.

Á tímabilinu hafa ýmsar framkvæmdir verið gerðar en hefðu vissulega mátt vera fleiri. Það sem verra er, er að mikilvæg viðhaldsverkefni hafa mörg dregist úr hófi fram. Góð undantekning er þó að aðstaða við sundlaugina á Jaðarsbökkum með komu nýrra heitra potta hefur stórlega verið bætt. Einnig verður að minnast á að mörg af þeim verkefnum sem eru í góðri vinnslu núna hafa komið snögglega upp og stokkið fram fyrir önnur verk sem þegar voru áætluð.

En hvað er í pípunum? Þær eru fullar og þær framkvæmdir sem eru ýmist að hefjast eða eru í gangi munu greiðast síðar á þessu ári eða á þeim næstu.

 

Þessi verkefni eru:

–           Niðurrif á sementi er hafið. Kostnaður fellur á þetta ár.

–           Fimleikahúsið er í útboði.

–           Golfskálinn (Frístundamiðstöðin) er í framkvæmd.

–           Þjónustumiðstöð við Dalbraut er í ferli.

–           Guðlaug með tilheyrandi aðstöðu er í vinnslu.

–           Ný reiðhöll Dreyra.

–           Það þarf ekki að minna ykkur á götur og gangstéttar bæjarins.

 

Áætlaður kostnaður þessa brýnu verkefna hleypur á milljörðum. Hér er þó ekki minnst á uppbyggingu íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum sem innan tíðar þarf að taka ákvörðun um.

Undirbúningur á byggingu búsetukjarna fyrir fólk með sérþarfir er enn á vinnslustigi.

Skólarnir okkar sem eru löngu farnir að kalla á bættar vinnuaðstæður hafa setið á hakanum. Við gleðjumst þó yfir því sem verið er að vinna að í Brekkubæjarskóla þessa dagana. En við eigum líka eftir að greiða þá framkvæmd.

Góð umfjöllun styrkir sjálfstraust Skagamanna en við verðum líka að vera raunsæ og með á nótunum.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Ragnar Sæmundsson

Liv Ase Skarstad

Höf. eru frambjóðendur Framsóknar og frjálsra á Akranesi.