
Hví grátið þið lungu Breiðafjarðar
Stefán Skafti Steinólfsson
Ágætu lesendur! Lungu Breiðafjarðar sæta árásum, mörgum duldar. Það eru nokkur atriði er varða verndun og varðveislu fjarða, stranda og ásýnd þessarar náttúruperlu sem ég vil impra á í erindi þessu og hvetja þá er unna Breiðafirði til að láta í sér heyra.
Þau snúa flest að vegagerð, aðferðum við vegagerð og óafturkræfum aðgerðum á svæði sem nýtur sérstakrar verndar. Einnig vaxandi ágangur og umferð á viðkvæmum árstíma og til lengdar. Mér þykir verndunin vera í skötulíki það sem af er og segja má að margir innfirðir séu skemmdir varanlega þar sem breytingar á mörgum vistkerfum koma ekki fram nema á nokkrum mannsöldrum, þó sumar komi harkalega fram strax.
Líkja má innfjörðunum og Breiðafirði sem lungum myndrænt og það er búið að skerða allmikla prósentu af lungunum sem hefur svo áhrif á alla lungnastarfsemina (sjá mynd).

Það er í raun mikill skaði að þröngir firðir hafi ekki verið heilbrúaðir. Það er áhyggjuefni að ekki séu settar lengri brýr og fleiri t.d. í Kolgrafafjörð og Gilsfjörð. Minna má á þrautagöngu heimamanna er vildu hlífa fjörðunum með gangnagerð og heilbrúunum, en hlutu þöggun og lítilsvirðingu í staðinn og ekki síst frá löggjafanum Alþingi. Því spyr ég; höfum við sáð krabbameini í lungu Breiðafjarðar?
Gilsfjörður er sérstakt áhyggjuefni því vatnaskifti eru þar svo lítil að það hefur varanleg áhrif til ills á allt lífríki og umhverfi fjarðarins. Ef fram sem horfið breytist hann í ísaltan drullupoll á næstu áratugum. Viðkomandi stofnanir ættu að beita sér fyrir umræðu og aðgerðum um þá nauðsyn að sett verði önnur brú á Gilsfjörð til að tryggja vatnaskifti. Því er von mín að allar nefndir og hópar sem svæðið snerta, skoði vel það sem nú hefur þegar verið framkvæmt, með þeirri aðstoð og sérfræðiþekkingu sem best er völ á. Og gæti síðan vel að þeim svæðum sem fyrirhugað er að gripa inn í með óafturkræfum framkvæmdum.
Vænta má þess að fram komi hugmyndir um þverun Álftafjarðar á Skógarstrandarvegi og enn er sótt að botni Vatnsfjarðar svo eitthvað sé nefnt. Álftafjörð ætti skilyrðislaust að heilbrúa án grjótfyllinga. Tími grjótfyllinga ætti að vera liðinn fyrir löngu, mikill er skaðinn af þeim nú þegar. Kjörbúsvæði minksins, þessa mikla vágestar í Breiðafirði, eru í grjótfyllingum. Ástæða er til að óttast hugmyndir um vegtengingar við Klofning svo sem Dagverðarnes, Langeyjarnes, Efri og Fremri Langey ásamt Arney svo horft sé langt fram í tímann.
Ásókn og umferð um viðkvæm svæði Breiðafjarðar er sívaxandi vandamál, ekki síst á viðkvæmum varptíma og sótt er að lífríkinu á margan hátt með fyrirhugaðri nýtingu á sjávarfangi ýmiskonar. Það verður að stíga verulega varlega til jarðar og tryggja að náttúran njóti vafans um ókomna tíð. Nýlega var hrundið áætlunum um að stækka gríðarlega hótel í Flatey með tilheyrandi inngripi og álagi á viðkvæmt svæði. Flatey ætti að njóta griða og þar ætti að stýra fjölda ferðamanna og gistingu frá degi til dags. Landvörður ætti skilyrðislaust að vera staðsettur í Flatey. Rímar vel við að styðja brothættar byggðir.
Ásókn í lífmassa Breiðafjarðar á aðeins eftir að aukast. Brýnt er að huga ætíð að vernd lífríkisins, að verja svæðið fyrir græðgi skammtímasjónarmiða. Harkalegar framkvæmdir mega ekki þrengja að fuglalífi né lífríki á neinn hátt. Síðast en ekki síst þarf að hlusta og hlúa að þeim sem lifa og hrærast við Breiðaförð, um eyjar og annes. Varðmenn íslenskrar náttúru sem vilja skila hinu einstaka lífríki jafngóðu eða betra til komandi kynslóða. Hagvöxtur, sem byggir á óafturkræfum framkvæmdum á náttúrunni, er ekki hagvöxtur, heldur gúmmítékki sem afkomendur okkar þurfa að greiða dýru verði.
Verndum lungu Breiðafjarðar.
Um veturnætur 2025,
Stefán Skafti Steinólfsson, Breiðfirðingur