Hvert stefnir íslenskur landbúnaður?

Högni Elfar Gylfason

Atvinnumálin er eitt af gleymdu málum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, en þar hefur verið látið reka á reiðanum sem hefur gert ástandið óþolandi. Það er dapurleg staðreynd að þessi sama ríkisstjórn hefur beinlínis unnið gegn framleiðslu matvæla hér á landi og þannig stefnt landbúnaði og afleiddum greinum í stórhættu. Ástandið er svo erfitt að utanaðkomandi gera sér ekki grein fyrir því. Þessi atlaga birtist með ýmsum hætti og má þar nefna stóraukinn innflutning matvara frá meginlandi Evrópu án þess að gerð hafi verið minnsta tilraun fyrirfram til að meta þörfina fyrir slíkt. Kemur enda í ljós að hingað er flutt miklu meira magn miðað við höfðatölu en til dæmis gert er í Noregi þar sem gangskör hefur verið gerð að því að vernda innlenda framleiðslu norskra bænda.

Á sama tíma virðast ríkisstjórnarflokkarnir hér á landi leggja alla áherslu á að bæta hag stórkaupmanna og innflytjenda. Þannig hefur utanríkisráðherra til að mynda gert nýjan tollasamning við Bretland eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Þar bætir hann við nú þegar alltof mikinn innflutning frá ESB án þess að minnka þann samning að minnsta kosti samsvarandi. Skömmu síðar kynnir sami ráðherra að hann muni framvegis hafa Félag atvinnurekenda með í ráðum við gerð milliríkjasamninga. Þar með eru innflytjendur og stórkaupmenn settir við stjórnvölinn á meðan hagsmunasamtökum bænda eru algerlega sniðgengin. Hvernig geta stjórnvöld varið svona ákvörðun?

Atlaga ráðherra að landbúnaði

Margir undrast að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skuli hafa sameinast um að skipa mann í ráðuneyti landbúnaðarmála sem ekki virðist bera nokkurt skynbragð á málefni og þarfir landbúnaðarins, né heldur hafa á því áhuga.  Enda hefur hann gert mikinn óskunda síðan hann tók við ráðuneytinu.  Til að mynda kom hann ráðuneytinu haganlega fyrir í neðstu skúffu í kjallara atvinnuvegaráðuneytisins sem sýnir skilningsleysi ráðherra á mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir þjóðina. Bændur og landsbyggðin öll hljóta að sameinast um að landbúnaðarráðuneytið verði endurreist þar sem skilningur sé á mikilvægi greinarinnar og tengsl við atvinnu og menningu landsins.

Til að bíta höfuðið af skömminni kom landbúnaðarráðherra í veg fyrir tímabundinn niðurskurð innflutnings landbúnaðarvara sem var eina rétta í stöðunni þegar ferðamenn hurfu en tilvist þeirra var einmitt réttlæting fyrir innflutningnum. Það gera allir sér grein fyrir því hvaða áhrif slík ákvörðun hefur á kjör bænda og fjölskyldna þeirra og þar með á öll þau afleiddu störf sem eru í landinu, aðallega í dreifbýli og smærri byggðalögum.  Ekki hefur enn verið bitið úr nálinni vegna þessa þar sem innflytjendur eiga væntanlega stóran lager af þessum vörum eftir alltof mikinn innflutning og þar sem það eru að miklu leyti sömu aðilar að baki innflutningi og smásöluverslun, fara vörur í forgang í búðum þeirra. Engum ætti að dyljast hvaða áhrif það hefur á innlenda framleiðslu.

Stjórnlaus innflutningur

Fyrir fáeinum árum kröfðust stórkaupmenn þess að fá að stórauka innflutning nautakjöts vegna „skorts “ á því í landinu.  Í kjölfarið hefur mikil aukning orðið á þeim innflutningi ásamt því að margir bændur ýmist juku framleiðslu eða byrjuðu frá grunni vegna hvatninga um slíkt. Staðan í dag er orðin sú að löng bið er eftir slátrun nautgripa vegna of mikils innflutnings og ítrekað er búið að lækka afurðaverð til bænda af sömu ástæðu.  Bið frá fjórum og upp í sjö mánuði vegna of lítillar eftirspurnar hefur ásamt afurðaverði sem dekkar ekki framleiðslukostnað orðið til þess að bændur eru að hætta í nautgriparækt.

Landbúnaðurinn er varla rekstrarhæfur

Hvernig má það vera að ríkisstjórnarflokkarnir búi íslenskum landbúnaði slík skilyrði að búin séu ekki rekstrarhæf? Hvernig má það vera að Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur, sem allir hafa að einhverju leyti verið taldir hliðhollir íslenskum landbúnaði, eru nú orðnir afhuga sveitum landsins og hafa meiri áhuga á hag stórfyrirtækja í innflutningi og sölu landbúnaðarafurða?  Hvernig má það vera að þessir sömu flokkar stíma nú korter í kosningar allir á sömu mið og með fagurgala og sjálfsupphafningu leitast eftir atkvæðum bænda og dreifbýlis sem lifir og deyr með íslenskri matvælaframleiðslu úr íslenskri sveit?

Miðflokkurinn lagði fram þingsályktunartillögu á síðasta þingi um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggs og fyrirsjáanlegs rekstrarumhverfis landbúnaðar. Við lestur tillögunnar kemur berlega í ljós að Miðflokkurinn er sá flokkur sem mest og best hugsar um hag íslenskrar sveitar og dreifbýlis.  Það ætti ekki að koma á óvart enda Miðflokkurinn sá flokkur sem stendur við stóru orðin og þar skemmst að minnast leiðréttingar stökkbreyttra íbúðalána almennings eftir fjármálahrunið ásamt hundraða milljarða heimtur íslenska ríkisins úr klóm hrægammasjóðanna sem áttu kröfur í þrotabú íslensku bankanna.  Þar stóð formaður flokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í stafni.

Ég óska eftir stuðningi ykkar í komandi alþingiskosningum. Atkvæði greitt Miðflokknum er stuðningur við blómlegar sveitir, öflugra dreifbýli og landsbyggðina í heild sinni.

 

Högni Elfar Gylfason

Höfundur skipar 5. sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.