Hvert er samráðið án samtals?

Foreldrar barna á Garðaseli

Hagsmunir barnanna okkar eru eitt það dýrmætasta og mikilvægasta sem foreldrar vilja tryggja. Eru börnin okkar óhult fyrir hagsmunum pólitíkurinnar á Akranesi?

Akraneskaupstaður hóf framkvæmdir við nýjan leikskóla sem staðsettur er í Skógarhverfi árið 2020. Ráðgert var að leikskólinn myndi opna í ágúst 2022. Tímaáætlun framkvæmdarinnar gerði ráð fyrir að frágangur innanhúss myndi hefjast í janúar 2022 og áætlaður verktími þess verkþáttar væri sjö mánuðir. En frágangur innanhúss hófst ekki fyrr en í júní. Fimm mánuðum á eftir tímaáætlun.

Á fundi skóla- og frístundaráðs Akraneskaupstaðar þann 22. mars var samþykkt að taka inn leikskólabörn sem fædd voru út júlímánuð 2021.Þar með var gert ráð fyrir að 37 börn myndu hefja leikskólagöngu sína í Garðaseli í ágúst 2022. Útskriftarhópur Garðasels vorið 2022 taldi 12 börn og því 25 börnum fleiri að koma inn en fara út. Þrátt fyrir ráðleggingar stjórnanda Garðasels að ekki væri fyrirséð að geta tekið á móti þessum fjölda barna vegna óvissu um að nýr leikskóli yrði tilbúinn á tilsettum tíma. Engu að síður bókar skóla- og frístundaráð í fundargerð þann 22. mars, vitandi að frágangur innanhúss er ekki hafinn, eftirfarandi:

,,Ef frekari tafir verða á byggingu leikskólans við Asparskóga er búið að tryggja leikskólastarfinu annað hentugt húsnæði þar til leikskólinn verður tekinn í notkun.”

Hvort búið var að tryggja annað húsnæði á þessum tímapunkti skal ósagt látið. Engu að síður var fyrirséð að bygging nýs leikskólahúsnæðis í Skógarhverfi yrði ekki klár í ágúst þegar bókun skóla- og frístundaráðs er skráð þvert á ráðleggingar.

Foreldrar og umsjónaraðilar barna í Garðaseli fengu sent bréf í tölvupósti þann 3. júní, föstudegi fyrir hvítasunnuhelgi klukkan 17:37. Bréfið var frá bæjarstjóra og sviðsstjóra mennta- og menningarsviðs Akraneskaupstaðar. Þar er foreldrum barna fædd árið 2017 tilkynnt að aðstaða barna þeirra skólaveturinn 2022-2023, frá ágúst til desember, verði á Þekjunni sem staðsett er í íþróttahúsinu á Vesturgötu. Svo vitnað sé í bréfið sem sent var 3. júní: „Þegar líða fór á framkvæmdatímann kom í ljós að ekki næðist að fullklára bygginguna fyrir þann tíma. Þá voru gerðar áætlanir um að hægt væri að opna tvær deildir í ágúst nk. og þangað færi elstu börn leikskólans Garðasels og á þeim forsendum var inntaka nýrra barna á leikskólana fyrir komandi starfsár.“

Í framhaldi af móttöku bréfsins boðuðu foreldrar barna fædd 2017 til fundar þann 7. júní vegna óánægju með þá stöðu sem börn þeirra eru í og þá ákvörðun að taka inn þann fjölda barna fæddum 2021 á leikskólann með þeim afleiðingum að elstu börn leikskólans þurfa að víkja úr leikskólanum og fara í bráðabirgðahúsnæði. Á fundinn var nefndarmönnum (skóla- og frístundaráðs sem tóku þessa ákvörðun) boðaðir til að útskýra ákvörðun sína, en enginn þeirra hafði áhuga á að mæta og gáfu það svar að þau væru hætt í ráðinu. Formaður ráðsins sagðist ekki hafa vitað af þessari seinkun með leikskólann fyrr en bréfið barst til allra foreldra á Garðaseli sem verður að teljast undarlegt. Á fundinn mættu ásamt foreldrum, bæjarstjóri og sviðsstjóri mennta- og frístundasviðs. Á fundinum var tíðrætt um samstarf með foreldrum og að virða samtalið.

Frá fundinum þann 7. júní hafa samskipti við foreldra verið eftirfarandi.

  • Foreldrum í foreldraráði Garðasels boðið á kynningarfund þann 21. júní um stöðu byggingarframkvæmda nýs leikskóla.
  • Einnig 29. júní með skóla- og frístundaráði þar sem sama kynning um stöðu byggingarframkvæmda nýs leikskóla var haldin.
  • Þann 4. júlí var foreldrum boðið að koma og sjá byggingu nýs leikskóla þar sem áætlað er að opnuð verði deild 1. október fyrir börnin sem verða á Þekjunni og að leikskólinn verði síðan allur opnaður 1. janúar 2023.

Vegna ákvörðunar kjörinna fulltrúa, sem sátu í síðustu bæjarstjórn og þurftu að standa við kosningaloforð sitt sem gefið var 4 árum áður stöndum við frammi fyrir því að börnunum okkar er vísað  úr sínum leikskóla, úr sínu nærumhverfi sem þau þekkja svo vel og búa í. Standa því foreldrar þessara barna eftir óupplýst um annað en að barnið þeirra skuli vera á Þekjunni, íþróttahúsinu á Vesturgötu, frá upphafi skólaárs fram til 1. október að minnsta kosti. Húsnæði sem hefur verið í undirbúningi fyrir börn Brekkubæjarskóla sem skráð eru þar í frístund. Stendur eftir annar hópur foreldra án upplýsinga ?

Í öllu þessu ferli hefur upplýsingagjöf verið gríðarlega takmörkuð og verulega ábótavant. Samtalið hefur ekki verið virt og samráðið lítið sem ekkert. Þrátt fyrir fullyrðingar sviðsstjóra mennta- og frístundasviðs að Þekjan væri eini möguleikinn, þá vitum við að fleiri lausnir eru í boði í nær umhverfi Garðasels eða t.d. hægt að útvega lausar kennslustofur eins og víða er gert og þá geta börnin dvalið í sínu umhverfi.

Fyrst og fremst vantar þó samtalið, til að hægt sé að hafa samráðið. Milli stjórnenda hjá Akraneskaupstað og foreldra þeirra barna sem eiga í hlut. Óskað er eftir að samtalið sé virt og haft sé samráð við foreldra barna bæði nú sem áður. Þannig að sátt sé um þá stöðu sem komin er upp og unnið úr í samráði.

Niðurstaða málsins er engu að síður sú að um er að ræða börnin okkar sem síðastliðin ár hafa notið góðs af umhyggju og alúðar starfsfólks á Garðaseli. Verða börnin nú í byrjun hausts í leikskóla sem er víðsfjarri þeirra nærumhverfi. Lóðin sem þau eiga að leika á er skólalóð Brekkubæjarskóla, ógirt og umferðargötur nærri. Á einhverjum tímapunkti í vetur verða þau svo flutt í nýjan leikskóla sem enn verður í byggingu þegar leikskólaganga þeirra hefst þar.

Sama hversu oft er lesið í gegnum reglugerð um starfsumhverfi leikskóla (655/2009) er eflaust lesandinn undrandi á að Akraneskaupstað sé stætt á ákvörðun sinni og þeirri ákvörðun að hafa ekki ígrundað ákvörðun sína í samráði við foreldra og þvert á tilmæli stjórnenda Garðasels.

Börnin eru lifandi manneskjur, en ekki einhverjir hlutir sem sjálfsagt er að henda til og frá bara til þess að valdamenn geti staðið við kosningarloforð sín.

 

Anna María Þórðardóttir

Magnús Karl Gylfason

Jón Orri Kristjánsson

Unnur María Þorvarðardóttir

Stefanía Sunna Róbertsdóttir

Þórður Jóhann Sigurðsson

Bertha María Vilhjálmsdóttir

Hekla Karen Steinarsdóttir

Ívar Þór Erlendsson

Cherry Candrejo-Sigurðsson

Hafdís Búadóttir

Þórður Þ Þórðarson

Brynja María Brynjólfsdóttir

Hilmir Hjaltason

Margrét Davíðsdóttir