Hversu heppin er ég?

Lilja Sigurðardóttir

Síðastliðið vor sat ég full af kvíða, söknuði og gremju og skrifaði pistil um hversu heppin ég væri. Auðvitað snerist pistillinn ekki bara um heppni mína, heldur snerist hann um það hvernig aðstæður eru hjá fólki sem býr úti á landi og þarf að ferðast langar leiðir til að eignast börn. Ef ég tek sjálfa mig sem dæmi þá er ég heppin að eiga systkini í Reykjavík sem geta lánað mér herbergi og veitt mér húsaskjól. Það eru ekki allir svo heppnir. Reykjavík er í u.þ.b. 5 klst akstursfjarlægð frá Patreksfirði og þarf ólétt kona samkvæmt læknisráði að vera komin nálægt fæðingadeild a.m.k. tveimur vikum fyrir settan dag. Í bæði skiptin sem ég hef fætt barn hef ég þurft að vera fjarri heimili mínu í rúmar fjórar vikur en unnusti minn var hjá mér í rúmar tvær vikur í hvort skiptið. Hann gat ekki verið með mér allan tímann þar sem réttur til fæðingarorlofs hefst ekki fyrr en í þeim mánuði sem barn á að fæðast. Við ákváðum að raska ekki rútínu tæplega 2ja ára dóttur okkar með því að flytja hana með okkur, heldur varð hún eftir heima í umsjá tengdamóður og foreldra minna sem búa öll í sama þorpi og við, sem betur fer.

Það eru ekki allir jafn heppnir og við að vera í þeim aðstæðum. Fyrir utan röskun á heimilislífi þá þarf að halda úti tveimur heimilum og í flestum tilfellum getur hvorugur aðili stundað vinnu á meðan beðið er. Eini kostnaðurinn sem er greiddur á meðan þessu stendur er ferðakostnaður frá heimili að fæðingadeild og til baka. Ástæðan sem okkur er gefin er sú að við veljum sjálf að búa á stað fjarri fæðingadeild og því er þetta á okkar kostnað. Er þetta jafnræði íbúa þessa lands?

Í ályktun sem samþykkt var á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins kemur fram tillaga um að foreldrar sem þurfi að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingarorlofssjóði svo að fæðingarorlof sé hægt að nýta að fullu eftir fæðingu barns. Að mínu mati er þetta engin spurning það er ekki  sanngjarnt að hafa þessar aðstæður árið 2016.

 

Lilja Sigurðardóttir.

Höf. er í 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Einnig starfar hún sem gæðastjóri hjá Arnarlaxi hf á Bíldudal.

Fleiri aðsendar greinar