Hvers virði er saga bæjarins?
Stjórnarfólk í Miðbæjarsamtökunum Akratorgi.
Á undanförnum árum hefur verið rekin ákveðin niðurrifsstefna hjá bæjaryfirvöldum á Akranesi. Á lokuðum nefndarfundum skipulags- og umhverfisráðs bæjarins eru nær árlega samþykkt niðurrif einhverra eigna Akraness. Umræðan í kringum þessi niðurrif er oftast af skornum skammti. Skagamenn ranka við sér þegar vélarnar eru ræstar og skyndilega er búið að jafna Fóló við jörðu. Margir spyrja: Af hverju gerið þið þetta? Og bæjaryfirvöld svara þá: Gamli sorrí Gráni er feyskinn og fúinn og farinn og lúinn og brotinn og búinn að vera.
Það sem bæjaryfirvöld ættu þó að huga að er að Gamli sorrí Gráni er gagnslaus og smáður, gisinn og snjáður meðferð illri af. Það þarf að hlúa að eldri húsum bæjarins ef þau eiga ekki að grotna niður svo yfirvöld geti loks úrskurðað þau látin með góðri samvisku. Það er þó ekki aðeins meðferð bæjaryfirvalda á húsunum sem er ámælisverð. Bænum ætti að bera skylda til þess að kynna bæjarbúum áform sín vel og vandlega áður en múrbrjóturinn fer af stað. Í vikunni setti skipulags- og umhverfisráð fimm ný hús á svarta listann. Ef ekki væri fyrir óháða fjölmiðla vissu bæjarbúar sennilega ekki af þessum áformum því ekki virðast bæjaryfirvöld vilja fara hátt með þau.
Hægt er að hafa ýmsar skoðanir á þeirri vegferð sem bæjaryfirvöld eru á. Tvö hús sem eru nú á svarta listanum standa við Suðurgötu. Nú á að jafna húsin við Suðurgötu 108 og 124 við jörðu og margir velta fyrir sér hvort Suðurgata 120 (Bakkabúð), 122 (Vindás) og 114 (Leirdalur) séu næst á dagskrá. Fari svo er gamla götumynd Suðurgötu horfin og réttast væri að finna nýtt nafn á nýja götu. En það er ekki Suðurgatan sem veldur mestu hugarangri í því niðurrifi sem menn horfa nú til. Í fundargerð skipulags- og umhverfisráðs segir: „Ennfremur samþykkir ráðið rif á Vesturgötu 62, svo framarlega að samkomulag náist við ríkið um rif á því húsi.“
Eitt sögufrægasta hús Akraness
Vesturgata 62 er ekki hvaða hús sem er á Akranesi. Það hefur sjaldnast verið kennt við þetta heimilisfang. Húsið við Vesturgötu 62 var byggt sem íþróttahús og var því áður fyrr kallað leikfimishúsið við Vesturgötu. Húsið er stórmerkilegt í sögu bæjarins, sennilega eitt það merkilegasta, því það var fyrsta íþróttamannvirkið sem Akurnesingar reistu og höfðu mikið fyrir því.
Sögu hússins má rekja til baka um ein 100 ár. Íþróttafélagið Hörður Hólmverji starfaði á Akranesi á árunum 1919-1926. Félagið hafði metnað til þess að auðga íþróttalíf bæjarins og auka fjölbreytni þeirra íþróttagreina sem ungu fólki stóð til boða að æfa. Um tíma fóru fram fimleikaæfingar á vegum félagsins. Aðstaða fyrir slíkar æfingar voru afar frumstæðar og æft var í Báruhúsinu sem var samkomuhús bæjarins. Hörður Hólmverji hafði áform um að kaupa áhöld fyrir leikfimiæfingar árið 1922 og koma upp í Báruhúsinu. Mönnum varð þó ljóst að ætluðu Skagamenn sér að taka einhverjum framförum á íþróttasviðinu þyrfti bæjarfélagið að eignast íþróttahús, því Báruhúsið myndi duga skammt. Hörður Hólmverji og Ungmennafélag Akraness tóku því höndum saman og stofnuðu sjóð þar sem safna átti fyrir íþróttahúsi. Félögin stóðu fyrir fjáröflun með hlutaveltu, skemmtunum og öðru slíku til að safna fyrir húsinu. Eftir að Hörður Hólmverji lagðist af árið 1926 hélt Ungmennafélag Akraness áfram að safna fyrir húsinu.
Sögu hússins væri hægt að rekja í löngu máli hér því hún er bæði fróðleg og skemmtileg. Jónas Jónsson frá Hriflu blandaði sér meðal annars í umræðuna um húsið en sú saga getur beðið betri tíma. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið og skilaði uppdrætti til Akurnesinga í október 1933. Hreppsnefnd Ytri-Akraneshrepps setti saman leikfimishússnefnd árið 1934 til að hafa yfirumsjón með verkinu og var Svafa Þorleifsdóttir, skólastjóri Barnaskóla Akraness, formaður nefndarinnar. Það var eðlilegt þar sem húsið var fyrst og fremst hugsað fyrir leikfimikennslu skólabarna. Skagamenn unnu mikla sjálfboðavinnu til að koma húsinu upp og tók þar þátt m.a. fólk úr knattspyrnufélögunum Kára og KA, Iðnaðarmannafélagi Akraness og fleiri.
Hafist var handa við bygginguna árið 1936. Gekk sú vinna hægt um tíma vegna féleysis en húsið var loks tekið í notkun 1942. Það gjörbreytti öllu íþróttalífi bæjarins og var ein stærsta byltingin í íþróttasögu Akraness. Það varð fljótt fullsetið og hvatti það menn til að byggja annað íþróttahús. Knattspyrnufélögin Kári og KA hófust handa tveimur árum síðar við að koma upp íþróttahúsinu við Laugarbraut sem tekið var í notkun 1945. Það var að mestu byggt í sjálfboðavinnu, var lengi notað sem samkomuhús og undir dansleiki en var loks rifið árið 1996. Húsið var víst orðið fúið, lúið og ljótt.
Hvað vilja íbúar?
Í þeirri vegferð sem bæjaryfirvöld hafa verið á, er varðar niðurrif á húsum, hafa bæjarbúar sjálfir lítið komið að málum. Í flestum tilfellum er þó verið að sýsla með sögu og ásýnd bæjarins. Þessi mál eru ekki rædd í aðdraganda kosninga. Þau virðast ekki vera pólitísk deilumál, né virðist vera nein áþreifanleg stefna í málaflokknum. Aldrei heyrist múkk í nokkrum bæjarfulltrúa þegar niðurrif á húsum eru rædd. Róa allir í sömu átt í þessu? Er eðlilegt að þessi mál séu ekki rædd? Skipta þau engu máli? Er niðurrif á leikfimishúsinu við Vesturgötu aðeins skipulagsmál en ekki hluti af stærra samhengi? Er ekki kominn sá tímapunktur að Skagamenn fari að ræða þessi mál af alvöru. Hvað viljum við? Er okkur sama um söguna? Er hægt að afgreiða öll mál gamalla og sögufrægra húsa með því að segja að Gamli sorrí Gráni sé feyskinn og fúinn?
Akraneskaupstaður hefur gjarnan hampað sér fyrir að vera íþróttabær. Þessi sami bær ætlar nú samt sem áður að sjá til þess að elsti minnisvarði um samtakamátt íþróttahreyfingarinnar, bæjarbúa og bæjarfélagsins í heild sé nú jafnaður við jörðu. Og fyrir hvað? Er saga bæjarfélagsins einskis virði?
Ólafur Páll Gunnarsson
Bjarnheiður Hallsdóttir
Anna Guðrún Ahlbrecht
Guðni Hannesson
Höf. eru stjórnarfólk í Miðbæjarsamtökunum Akratorgi.