Hvers vegna þurfum við reiðskemmu í Æðarodda?

Ari Jóhannesson

Á sjötugasta afmælisári hestamannnafélagsins Dreyra gefst forráðamönnum Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar einstakt tækifæri til að styðja við mikilvægt og vaxandi tómstunda- og íþróttastarf á svæðinu með því að fjármagna byggingu reiðskemmu í Æðarodda. Rökin fyrir því eru öllum hestamönnum ljós og eflaust einnig forráðamönnum sveitarfélaga, að vel athuguðu máli.

 

Veigamestu ástæðurnar eru þessar:

Hestamennska er líklega þriðja vinsælasta íþrótta- og tómstundagrein Íslendinga, á eftir knattspyrnu og golfi. Aldursbil iðkenda spannar ein 70 ár sem á sér vart hliðstæðu nema e.t.v. í sundi og golfi. Þá má benda á það, í ljósi vaxandi jafnréttisumræðu í íþróttum, að hestamennska er að líkindum eina íþróttagreinin þar sem konur standa körlum að minnsta kosti jafnfætis og keppni er ekki kynjaskipt.

Ekkert jafnfjölmennt hestamannafélag og Dreyri býr við þá bagalegu fátækt að hafa ekki reiðskemmu til afnota og að baki flestra slíkra mannvirkja á landinu eru langtum færri íbúar.

Á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit leggur mikill fjöldi einstaklinga á öllum aldri stund á hestamennsku að jafnaði. Dreyrafélagar eru u.þ.b. 250 en þess utan iðka allmargir utanfélagsmenn hestamennsku á svæðinu.

Útreiðar hafa um árabil verið og verða áfram uppistaðan í reiðmennsku sem tómstundaiðkun. Hjá flestum er mikil virkni í útreiðum fyrstu fimm mánuði ársins, á tíma sem einkennist iðulega af óblíðu viðmóti náttúrunnar, ekki síst á suðvesturhorni landsins. Frost og snjór eru ekki tiltökumál en það eru rok og svellbunkar sannarlega. Ófá slys hafa orðið við þær aðstæður en algengara er þó að hestafólk bíði slíka ótíð af sér, oft svo dögum eða vikum skiptir.

Um land allt hafa reiðskemmur og reiðhallir reynst vera helsti vaxtarbroddur hestamennskunnar og hefur tilkoma þeirra bætt reiðmennsku á öllum stigum. Keppnisknapinn fær þar langþráða aðstöðu til að þjálfa hest sinn, byrjendum vex færni og áræði við öruggar aðstæður og sjóaðir en kannski ekki ýkja skólaðir reiðmenn fá þar kærkomið tækifæri til að byrja upp á nýtt ef svo má segja. Öllum fer fram, hestum jafnt sem knöpum.  Og öryggi eykst, því losa má um spennu í hrossi inni við áður en riðið er út og áður er minnst á slysahættu sem stafar af ótryggu reiðfæri úti við.

Námskeiðahald fer nú í flestum hestamannafélögum að miklu leyti fram innanhúss og hefur það sérstaklega rennt stoðum undir mikilvægt vetrarstarf fyrir börn og unglinga. Keppnisreiðmennsku vex líka fiskur um hrygg en mestu máli skiptir þó að reiðskemmur henta öllum hestamönnum.

Nútíma hestamennska á sér vart hliðstæðu í því að í henni sameinast arfur menningar- og atvinnusögu annars vegar og almennings- og keppnisíþrótt hins vegar. Í því, ásamt ótalmörgu öðru, er fegurð hestamennsku fólgin.

 

Ari Jóhannesson

Höf. er læknir og hestamaður.