Hvers vegna ættum við að kjósa Samfylkinguna?

Benedikt Júlíus Steingrímsson

Í bæjarstjórnarkosningum á Akranesi getur fólk nú kosið á milli þriggja flokka; Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Hvers vegna ætti fólk að kjósa Samfylkinguna en ekki Framsókn eða Sjálfstæðisflokk? Ef við förum yfir söguna skýrist það. Sem ungur maður í okkar bæjarfélagi sé ég að ýmis mál mættu betur fara.

Húsnæðisvandi

Fólk sem býr að sterkum fjárhagslegum bakgrunni eða hefur náð að tryggja sér öruggt húsnæði þarf engar áhyggjur að hafa. Hvað verður um hina? Hvað með vinnandi fólk sem fæðist ekki með silfurskeið í munni og þarf að hafa fyrir hlutunum? Mín reynsla er nefnilega sú að ekki séu allir jafnir í okkar samfélagi. Fólk á mínum aldri heldur kannski að þetta sé raunverulega land tækifæranna. Er það virkilega svo? Fólk þarf í mörgum tilfellum að vera í tveimur störfum til þess eins að eiga fyrir mat. Hvernig á ungt fólk að geta sinnt sínu námi ef húsnæðiskostnaður krefur fólk um að vera í fullri vinnu á sama tíma? Ég tala nú ekki um fólk sem vill eignast börn en leggur ekki í það vegna hættu á að þurfa að hætta námi eða missa úr vinnu. Samfylking mun og hefur lagt áherslu á að ýta undir stofnun og starf óhagnaðardrifinna leigufélaga til þess að mæta þessum vanda, í stað þess að skreyta lélegt ástand með flottum slagorðum um í hvers konar himnalagi allt sé.

Mætum raunveruleikanum

Sú stefna sem mótframbjóðendur Samfylkingar í bæjarstjórnarkosningu á Akranesi 2022 kynna á Alþingi er vægast sagt léleg. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur fara sífellt gegn vilja þjóðarinnar í ákvarðanatöku. Viljum við virkilega að þeir flokkar verði þá líka við völd í okkar bæjarfélagi? Allt bendir til þess að hugmyndafræði beggja flokka sé að hrynja svo búast má við að vinstri hugmyndafræði taki við. Í ljósi þessa spyr ég: Er ekki bara best kjósa Samfylkinguna?

Setjum X við S til þess að koma í veg fyrir spillingu, til að lækka húsnæðisverð, til þess að byggja hér upp betra samfélag!

xS – Að Sjálfsögðu!

 

Benedikt Júlíus Steingrímsson

Höf. skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi