Hvers vegna ætti gamla Landsbankahúsið við Akratorg ekki að vera ráðhús Akurnesinga?

Miðbæjarsamtökin Akratorg

Við í miðbæjarsamtökunum sem heita einmitt Akratorg – höfum oft velt fyrir okkur þeirri hugmynd og ekki fundið nein haldbær rök gegn því önnur en; Afþvíbara! Það hefur nefnilega ekki verið skoðað eða rætt fyrir alvöru hvort hugmyndin sé mjög góð eða alveg ómöguleg.

Glæðum miðbæinn lífi!

Þeir sem aka eða ganga um miðbæinn á Akranesi á góðum degi vita að þar er ekki mikið að frétta. Þar er alla jafnan ekki margt um manninn þrátt fyrir að ennþá sé þar að finna nokkrar rótgrónar sérverslanir og þjónustufyrirtæki. Ennþá segjum við, því það er staðreynd að fyrirtækjum í miðbænum fækkar ár frá ári.

Hvernig getum við snúið þessu við og reynt að efla miðbæinn, færa í hann líf, sækja fólk og fleiri fyrirtæki í miðbæinn okkar allra? Að skapa kjarna sem ætti að vera fastur viðkomustaður sem flestra bæjarbúa – helst oft í viku.

Í hjarta bæjarins

Við teljum að stærsta, ódýrasta, einfaldasta og áhrifamesta aðgerðin í uppbyggingu miðbæjarins sé að gamla Landsbankahúsið sem við bæjarbúar eigum öll saman, verði lagað og gert að ráðhúsi Akurnesinga. Þessi bygging í hjarta bæjarins, yrði þá ca. 50 manna vinnustaður og það eitt og sér teljum við að hefði allskyns jákvæð áhrif, beint og óbeint.

Vinnufundur – vinafundur

Fyrstu merkin – sjónræn áhrif. Við viljum að húsið verði endurreist til fyrri fegurðar og glæsileika. Við viljum sjá ljós í gluggum og pottaplöntur, merki um mannlíf. Fána kaupstaðarins blakta fyrir utan.

Næst – aukið mannlíf. Við sjáum fyrir okkur fólk á ferð, fólk að fara í og úr vinnu, bæjarstjóri, bæjarstjórn og annað fólk að sinna erindum í ráðhúsinu, fólkið sem tekur ákvarðanir um framtíð bæjarins að mæta á fundi. Fleira fólk á ferð í miðbænum.

…og svo. Við sjáum líka fyrir okkur veitingahús/kaffihús í hluta byggingarinnar sem væri mötuneyti starfsfólks en einnig opið almenningi. Svo að þó þú ætlir bara á vinafund eða á prívat stefnumót við kökusneið – þá áttu erindi í Ráðhúsið. Þennan rekstur mætti og ætti auðvitað að bjóða út.

Mögulega væri hægt að koma upp rými fyrir listsýningar, bókasafnið gæti verið með lítið útibú, fundaaðstaða fyrir minni og stærri fundi eða viðburði. Þarna gæti líka verið upplýsingamiðstöð ferðafólks. Möguleikarnir eru margir.

Ráðhús við Akratorg myndi hafa jákvæð áhrif á miðbæinn um leið og ákvörðunin væri tekin og í framhaldinu virka eins og segull fyrir aðra starfsemi.

Hver er staðan?

Bæjarskrifstofan þurfti að flýja fyrra húsnæði við Stillholt vegna loftgæðavandamála fyrir tveimur árum og lagði þá undir sig stóran hluta af nýju húsnæði aldraðra við Dalbraut 4 og er þar enn í miklum þrengslum. Við vitum að það er áhugi hjá bæjaryfirvöldum að koma starfsfólki bæjarins í framtíðarhúsnæði. Við vitum líka að áhuginn er mestur á að byggja nýtt ráðhús við Sementsreit, þar sem gamla skrifstofubygging Sementsverksmiðjunnar stendur í dag. En áður en nýtt er byggt þarf að rífa það gamla og niðurrif og förgun kostar talsvert. Nýtt ráðhús við Sementsreit gæti auðveldlega kostað 2 til 3 milljarða sem við Akurnesingar eigum ekki til.

Fjárhagslega frábær hugmynd?

Samkvæmt okkar bestu upplýsingum mun það kosta um 200-300 milljónir að taka gamla Landsbankahúsið í gegn þannig að sómi væri að. Vissulega eru það talsverðir peningar, en það kostar líka að leigja húsnæði undir starfsemi bæjarskrifstofu og hagkvæmt húsnæði hefur ekki sýnt sig. Eða hvað?

Ef núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir að bæjarskrifstofurnar fari að hluta í leiguhúsnæði sem greiða þarf fyrir ca. eina milljón á mánuði að viðbættu framlagi vegna endurbóta (húsnæði við Krónutorg þar sem Íslandsbanki var til húsa) þá teljum við það mun skynsamlegri og hagkvæmari leið að nota 200 milljónir eða jafnvel 300 og mynda eign sem mætti jafnvel selja síðar í góðu lagi. Aðgengi fyrir alla er gott og það er góð lyfta í húsinu, bílastæði eru færri en við Krónutorgið en úr því má bæta, nýta stæði víðar í miðbænum auk þess sem ganga er holl og góð hreyfing. Síðar mætti byggja við Suðurgötu 62-66 eins og staðið hefur til í nokkurn tíma og eins fyrir aftan Landsbankahúsið. Tækifærin eru nefnilega víða ef við viljum sjá þau.

Við Akurnesingar eigum hús á besta mögulega stað og sú upphæð sem verja þarf til að breyta því í Ráðhús borgar sig upp á skemmri tíma en maður myndi ætla.

Hvað segir þú? Viltu að bæjarsjóður greiði 200-300 milljónir til að lagfæra okkar eigið húsnæði eða borgi 2000-3000 milljónir til að byggja nýtt?

Við í miðbæjarsamtökunum Akratorgi teljum að það sé fjárhagslega frábær hugmynd að gera Landsbankahúsið að Ráðhúsinu við Akratorg.

Þegar hagkvæm framkvæmd skapar um leið auðugra mannlíf, blómlegri miðbæ og styður auk þess við samfélagslega uppbyggingu á bæjarbrag, þá hlýtur þetta að vera eins og maðurinn sagði: Tær snilld! Ertu sammála?

Arkitekt frá Akranesi

Akurnesingar hafa aldrei átt hús sem þeir kalla ráðhús. Við eigum þetta hús saman og það er eitt merkilegasta hús Akraness og minnisvarði um Skagamanninn og arkitektinn Ormar Þór Guðmundsson. Hann teiknaði Landsbankahúsið árið 1966 þegar hann var að ljúka námi við Harvard háskólann í Cambridge. Lágmyndirnar sem má sjá bæði utan- og innanhúss eru eftir listamanninn Svein Snorra Sturluson.

Hjartahnoð – Vekjum miðbæinn til lífs að nýju

Við teljum okkur vera með ágætlega útfærða hugmynd og mörg rök fyrir því að Landsbankinn verði ráðhús. Við sjáum þá aðgerð fyrir okkur eins og hjartahnoð og fyrstu hjálp fyrir líflegri miðbæ. Standsetning Landsbankahússins er fjárhagslega hagkvæm lausn og við viljum hefjast handa strax.

Ef þú er sammála okkur þá hvetjum við þig til að skrifa undir áskorunina til bæjaryfirvalda á https://island.is/undirskriftalistar.
Virkjum íbúalýðræði. Það er í takt við tímann, eins og að endurhanna og endurnýta gamalt.

Stjórn miðbæjarsamtakanna Akratorg:

Ólafur Páll Gunnarson
Anna Guðrún Ahlbrecht
Guðni Hannesson
Bjarnheiður Hallsdóttir
Tinna Steindórsdóttir
Aldís Petra Sigurðardóttir
Ole Jakob Volden