Hvernig tryggjum við gott gengi ferðaþjónustunnar á Vesturlandi?

Helga Árnadóttir og Grímur Sæmundsen

Við hjá Samtökum ferðaþjónustunnar höfum átt samtöl við sveitarstjórnarfólk og ferðaþjónustufólk að undanförnu, meðal annars á Vesturlandi. Ekki fer á milli mála að svæðið er komið á kortið sem valkostur í dagsferðum fyrir erlenda ferðamenn. Það má ekki síst þakka nýjum og gömlum valmöguleikum á borð við íshellinn í Langjökli, hótel á Húsafelli, Landnámssetrið í Borgarnesi, þjóðgarðinn á Snæfellsnesi og náttúrulaugar við Deildartunguhver. Um leið fjölgar gististöðum og veitingastöðum, ferðamenn eru fleiri en nokkru sinni fyrr og náttúrufegurðin, mannlífið og menningin stuðlar að jákvæðri upplifun þeirra.

 

Ætla stjórnmálin að sitja hjá?

En um leið er ástæða til að hafa áhyggjur af andvaraleysi ríkisvaldsins gagnvart uppbyggingu innviða og úrbætur á ferðamannastöðum. Þetta hefur neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna, en ekki síður heimamanna.  Fjölgun ferðamanna skapar álag sem opinberir aðilar þurfa að bregðast við. Það er ekki nóg að ferðaþjónustan standi sína plikt. Bæta þarf vegakerfið, fjölga bílastæðum, leggja göngustíga, fjölga salernum, auka öryggi, fjarlægja sorp og þar fram eftir götunum. Þetta eru aðgerðir í almannaþágu og því á höndum hins opinbera.

 

Kjördæmisfundur um stöðu ferðaþjónustunnar

Í aðdraganda alþingiskosninganna gefst einstakt tækifæri til að fá oddvita stjórnmálaflokkanna Norðvesturkjördæmi – kjördæmi Vesturlands – til mæta á fund sem Samtök ferðaþjónustunnar boða til. Ætlunin er að eiga samtal um leiðir til að tryggja eðlilegan vöxt og viðgang atvinnugreinarinnar.

Fundurinn verður haldinn í Menntaskóla Borgarbyggðar í Borgarnesi fimmtudaginn 13. október kl. 20.00. Allir eru velkomnir á fundinn, en sérstaklega hvetjum við fólk í ferðaþjónustu og sveitarstjórnarfólk til að láta sjá sig. Fundurinn verður í beinni útsendingu á netinu á vefsíðu SAF og sömuleiðis verður upptaka frá honum send út á sjónvarpsstöðinni N4.

 

Vítamínsprauta fyrir landsbyggðinga

Ferðaþjónustan eykur fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Hún heldur gjarnan í fólk sem annars væri á förum, dregur brottflutta heim og kallar á nýjar vinnufúsar hendur. Húsnæðismarkaðurinn fær vítamínsprautu, verslunin styrkir stoðir sínar og það glaðnar yfir mannlífinu. Mikið er í húfi að ferðaþjónustan fái að vaxa og dafna í sátt við land og þjóð, þannig allir geti notið góðs af.

 

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.