Hvernig stjórnvöld fara með okkur

Ragnheiður Jósefsdóttir

Eftirfarandi bréf sendi ég til Tryggingastofnunar fyrir nokkrum dögum. Ég vil gjarnan að sem flestir fái að sjá efni þess og sendi það því til birtingar í Skessuhorni:

Tilefni þessa bréfs er vegna bréfs dagsett 11. júní sl. sem ég fékk frá ykkur. Þar kemur fram að ég skuldi Tryggingastofnun 145.836 kr, vegna ofgreiðslna. Ég hugsaði bara, hver fjandinn er í gangi, og ég varð alveg sjóðandi ill.

Svo kom í ljós að þetta var vegna greiðslna úr lífeyrissjóði mannsins míns, en hann lést 31. januar síðastliðinn. Og ekki nóg með það, heldur minnkuðu greiðslur til mín frá Tryggingastofnun um u.þ.b. 30.000 kr á mánuði, og á ég þá við útborgað. Við hverju má búast næst? Hvers vegna má maður ekki hafa þetta í friði? Ég veit að ég er ekki ein um að lenda í þessu og ég segi fyrir hönd allra sem verða fyrir þessu, þetta er þjófnaður! Lögverndaður þjófnaður. Þið passið upp á það eins og sjáöldur augna ykkar að við fáum ekki einni krónu meira en það sem okkur er skammtað, eins og skítur úr hnefa.

Ég spurðist fyrir um hvernig það væri með 100 þúsundin sem var sagt að við mættum þéna á mánuði án þess að það myndi skerða bætur. Jú, svörin voru þau að það væri vegna vinnu, ekki lífeyrissjóðsgreiðslna. En af hverju eru þá lífeyrissjóðsgreiðslurnar kallaðar laun? Hvernig fyndist ykkur ef þið tækjuð að ykkur aukavinnu og þau laun yrðu dregin af ykkar föstu launum? Þið mynduð að öllum líkindum svara að það væri allt annað mál. Nei! Það er ekki allt annað mál, það er alveg það sama og verið er að gera okkur.

Þegar maki fellur frá þá minnka tekjur heimilisins um 50% eða jafnvel meira. En rekstur heimilisins minnkar ekkert. Fasteignagjöld verða þau sömu. Upphitunarkostnaður, rafmagn, viðhald á húsi, rekstur á bíl og margt margt fleira er það sama. Það eina sem minnkar örlítið er matarkostnaður en þó ekki teljandi. Mér virðist að þið sem stjórnið þessu, gerið ykkur ekki grein fyrir þessu, ekki skilja eða viljið ekki skilja þetta.

Er ekki kominn tími til að það sé farið að hugsa um að við ellilífeyrisþegar og öryrkjar erum fólk alveg eins og þið og við viljum lifa mannsæmandi lífi? Ég vil nefna svona hinsegin að nú er komið að miklum endurbótum og viðhaldi á húsinu mínu sem gæti kostað einhverjar milljónir og ég þurfti í vor að fá mér heyrnartæki sem kostuðu 500.000 krónur. Þið takið kannski tillit til svona mála? HAHAHA…bjartsýn ég!

Fyrir hönd allra sem í þessu lenda, er mál að linni. Hvernig stjórnvöld fara með okkur! Ég mun einnig birta þetta bréf í fjölmiðlum til þess að alþjóð sjái hversu svívirðilega er farið með okkur og hvers þeir mega vænta sem eiga eftir að ganga í gegnum það að verða eldri borgarar eða öryrkjar. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hvernig er farið með okkur. Svo þegar öryrki verður eldri borgari þá minnka bæturnar, sennilega vegna þess að hann er ekki öryrki lengur, heldur eldri borgari.

Ég segi enn og aftur, það er mál að linni árásum á eldri borgara og öryrkja.

 

Virðingarfyllst,

Ragnheiður Jósefsdóttir

Strandgötu 5 Tálknafirði

Fleiri aðsendar greinar