Hvernig ertu í mannlífinu?

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Íbúakönnun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Íbúar og mikilvægi búsetuskilyrða á Vesturlandi, var birt í janúar. Margar áhugaverðar og gagnlegar upplýsingar koma þar fram um viðhorf íbúa til sinna sveitarfélaga. Eitt af því sem kemur fram í könnuninni og snýr að sameiginlegri ábyrgð okkar er sá þáttur sem lítur að góðu mannlífi. En samkvæmt könnuninni þykir okkur íbúum í Borgarbyggð mannlífið hér ekki vera nægilega gott.

Gott mannlíf er einn mikilvægasti þátturinn í því að okkur líði vel í samfélaginu okkar og er nátengt ánægju og vellíðan okkar í lífi og starfi. En hvernig má skapa samfélag sem einkennist af góðu mannlífi? Menning samfélagsins segir til um hvernig samskiptum er háttað, hvert viðhorf okkar, einkenni og hegðun er.

Hvað getum við íbúar gert til þess að vinna að því að börnin okkar vaxi og dafni í samfélagi þar sem mannlífið er gott og nærandi?

Það er sameiginlegt verkefni á ábyrgð okkar allra sem komum að uppeldi og umhverfi barna á einn eða annan hátt að vinna að því að þeim líði vel í sínu samfélagi og dafni sem ábyrgir og jákvæðir einstaklingar. Sýni þrautseigju í daglegum verkefnum og temji sér umburðarlyndi og virðingu gagnvart umhverfinu og öðrum.

Hluttekning og vingjarnlegheit

Hluttekning, vingjarnlegheit og vilji til þess að mynda jákvæð tengsl eru gríðarlega mikilvægir þættir í samskiptum á milli okkar sem búum í samfélaginu. Það eru lykilþættir og grundvöllur að góðu mannlífi.

Ímynd er sú upplifun sem við sjálf og aðrir hafa á okkar samfélag, hún verður m.a. til í huga okkar. Eftirsóknarverðir staðir byggja á ímynd og orðstír á ánægju íbúa. Þegar hugrenningartengsl við samfélagið og íbúa verður jákvætt aukast líkurnar á því að okkur þyki mannlífið gott og hefur áhrif á það hvað við gerum og hvernig við hugsum.

Ræktum með okkur jákvæð gildi og eiginleika sem leiða af sér jákvæð samskipti á milli ólíkra einstaklinga og hópa. Virkjum aðra og ræktum okkur sjálf. Það er okkar sameiginlega ábyrgð að skapa gott mannlíf, það gerir það enginn fyrir okkur.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir.

Höf. er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Fleiri aðsendar greinar