Hvernig á ekki að hlaupa maraþon?

Axel Freyr Eiríksson

Þegar ég sit hér og hugsa um hvað í ósköpunum ég ætti að skrifa um í stað faraldursins þá flýgur margt í gegnum huga minn. Ætti ég að skrifa um einangrunagildi steinullar, veiði, orkunotkun, orkupakka, mismunandi hárstíla George Michael yfir tíðina (blessuð sé minning hans), yfirvaraskegg eða lokaða flöskugarðinn minn? Ég veit ekki.

Þegar ég fletti skjölunum í hugarfylgsni mínu kemur eitt skjal oftar upp en önnur, fyrsta maraþonið mitt. Ég áttaði mig á því að ég hef ekki fest þá upplifun á skjal og svei mér þá ef tilefnið er ekki einmitt nú.

Þetta byrjaði allt með hugmynd, hugmynd um að einn daginn væri geggjað að hlaupa maraþon. Þessi hugmynd hagaði sér líkt og vírus, heltók mig. Þegar ég var á lokaskrefunum að klára umsókn mína í Reykjavíkurmaraþonið þá var þetta líkt og þegar maður er kominn úr heita pottinum og röltir í átt að kalda karinu í Borgarnessundlauginni, það er öruggt að þetta yrði ekki þægilegt en rosalega gott þegar maður væri búinn.  Ef ég bara hefði vitað það sem ég veit núna.

Undirbúningurinn gekk þokkalega, ég hljóp daglega mismunandi vegalengdir en hafði svo sem ekkert plan nema að hlaupa á því sem næst hverjum degi, klára og verða „finisher“. Ég byrjaði að hlaupa í febrúar og þar sem maraþonið á sér stað í ágústmánuði sá ég fram á að verða kominn í fínt form á þeim tíma. En það kom júnímánuður, ég fór í veiðileiðsögn ásamt vaktavinnu minni í Norðuráli og fjölskyldustúss. Ég ætlaði alltaf að hlaupa „á morgun“. Síðasta skráning mín í Strava-inn fyrir maraþonið var minnir mig þann 20. júní, þægilegir 2,3 kílómetrar kl. 14:24. Svo liðu tveir mánuðir, fjölskylduferð á Akureyri og veiðileiðsögn og vaktavinna svo fann ég allt í einu sjálfan mig reima Brooks skóna á mig í íbúð bróður míns á Neshaga þann 24. ágúst kl. 07:20 hugsandi: „Þetta er eins og ég sagði við Elísabet, alveg eins og að ganga á rjúpu, nema á malbiki.“ Ég hitti vin minn Bjarka Jens og frænda Davíð Minnar. Þeir hristu hausinn yfir mér þegar þeir áttuðu sig á því að ég hafði ekkert haft meðferðis nema skóna mína og ákvörðunina um að hlaupa, ekkert orkugel né salt. Frændi gaf mér tvö orkugel og Bjarki sagði mér hvenær ég ætti að taka þau. Fyrsta kílómeterinn líklega týndist annað orkugelið, það hlaut að hafa dottið úr vasanum.

Eins og ég sagði áðan, ef ég bara vissi það sem ég veit núna.

Fyrstu 10 km liðuðust áfram og stemningin var bara nokkuð góð, bjöllur og tónlist, eiginlega var þetta frábært. Mér leið bara nokkuð vel en svo eftir að hafa hlaupið upp og niður lengstu brekku í heimi sem kallast Sæbrautin þá tók ég beygjuna sem á stóð „Maraþon 42,2“, hristi hausinn yfir sjálfum mér, spurði starfsfólkið; „Maraþon þarna? hehe“.

Fyrsti krampinn kom í Húsdýragarðinum, þá voru ekki nema 18 km eftir. Ég hitti fyrir tvær vinalegar konur sem sáu aumur á mér og gáfu mér salt. Þegar ég var búinn að hakka mig í gegnum Bryggjuhverfið þá átti ég eftir að hlaupa í gegnum Kópavog og flugvöllinn í Vatnsmýrinni, ekkert mál. Það eina sem veitti mér huggun þegar ég krassaði alveg var það var einungis ég og bara ég sem ákvað þrátt fyrir tvo mánuði af hreyfingarleysi að hlaupa yfir Reykjavík. Ég get meira að segja sagt ykkur hvar og hvenær ég krassaði alveg, það var rétt hjá bílasölu Ingvars Helgasonar. Sársaukinn sem hafði andsetið lappirnar síðustu 10 kílómetrana blómgaðist um allan líkamann minn, ég gat ekki hlaupið nema stutta stund í einu, ca 100 metra í einu þegar sköflungurinn og ristin gaf upp öndina. Þá þurfti ég að ganga, ég gekk hægt en fór þó áfram. Aldrei á ævinni hefur mér liðið jafn illa í líkamanum, allsstaðar frá toppi til táar. Það er það sem gerist í líkamanum þegar heili manns fær þá frábæru hugmynd að hlaupa 42 km án þjálfunar og nær að ljúga að sjálfum sér að þetta sé ekkert mál. Til að koma sjálfum mér af stað í hlaup þurfti ég að rykkja mér upp og niður, líkt og um satanískt tvist væri um að ræða. Svona gekk þetta næstu 2-3 tímana. Ég hitti margar útgáfur af sjálfum mér þennan dag; vælarann, harðjaxlinn, syrgjarann (ég jú hélt að líkami minn yrði aldrei eins eftir þetta), læknirinn (sjálfgreining á ofnotuðu iljum og lærvöðvum skilar litlu) og „hvað sem það kostar-Axel“. En það var bara einn sannleikur sem sveif skýrt yfir mér þennan laugardag og hann var hrottalega einfaldur, annaðhvort myndi ég klára þetta hlaup eða vera sóttur af sjúkrabíl einhversstaðar við Valsheimilið.

Þegar ég var upp á mitt versta hitti ég einn af þeim bestu, þá var ég að kraftganga upp með Öskjuhlíðinni með Skerjafjörðinn í allri sinni dýrð mér á vinstri hönd. Ég sá fyrst móta fyrir honum talsvert á undan mér og nálgaðist hann óðfluga, ég þekkti hann ekki strax en svo þegar hann flaug framhjá mér sá ég það; fullkomið hlaupaform, fullkominn stíll og fullkomið eintak af hlaupara. Þetta var Kári Steinn Karlsson, Ólympíufari og Íslandsmeistari. Þegar hann fer framhjá gaf hann mér þumalinn upp og sagði „góður“. Ég gerði mitt besta að líta betur út og þakkaði hvatninguna. Þarna á stígnum mættust hreinar andstæður; Frábært form vs. Ekkert form. Ég í ljósbláum stuttbuxum og hlýrabol, hann lúkkandi eins og milljón dollarar í stílhreinum svörtum hlaupafatnaði.

En jú, ég náði að skríða yfir erfiðasta hjallinn og einhversstaðar við Bergstaðarstrætið tók Ingi bróðir mig undir sinn verndarvæng, kom á móti mér og spurði „hvar ertu búinn að vera?“ Ég gat engu svarað, ég gat eiginlega ekki talað.  Þegar ég skrifa þetta núna átta ég mig á því hversu áhrifaríkt móment þetta er fyrir mig. Það sem mig langaði að gera var að klára hlaupið hlaupandi, klára það sterkt eins og Kaninn segir.

Svo þegar við erum að koma að beygjunni inn á Lækjargötu þurfti Ingi frá að hverfa vegna reglna í hlaupinu og ég hélt áfram, sú tilfinning að sjá marklínuna með öllu fólkinu, tónlistinni og vissunni um að nú væri þetta að verða búið er eiginlega ólýsanleg. Ég fékk rörsýn, sá bara malbikið fyrir framan mig og heyrði bara í hlaupaskónum slást við götuna. Ég náði að gefa Sigga Guðmunds vini mínum high-five en annars man ég ekki eftir miklu nema þegar ég heyrði fyrra pípið í tímatökutækinu og svo þegar seinna pípið hljóðaði og Ingi bróðir öskrar á mig: „ÞARNA!“ vissi ég að ég hefði klárað og ég fór að gráta. Svona flóð af tilfinningum grátur. Stúlka kemur með verðlaunapening og setur utan um hálsinn minn, óskar mér til hamingju með mig grenjandi eins og barn, hún spyr hvort það sé ekki í lagi með mig. Ég svara játandi.

 

Kveðja,

Axel Freyr Eiríksson