Hver er staðan í hálfleik?

Líf Lárusdóttir

Í tilefni þess að nú styttist í hálfleik, þá er ágætt að hripa niður nokkur orð og fara yfir tölurnar, verkefnin og allt þar á milli. Þegar ég skrifa hálfleikur, þá á ég að sjálfsögðu við þá staðreynd að nú um miðjan maí eru liðin tvö ár síðan kjörtímabilið hófst og þar með verður það hálfnað. Ég að vísu tek þessum hálfleik af meiri alvöru en aðrir bæjarfulltrúar, þar sem mér hefur borið gæfa til þess að ganga með mitt þriðja barn sem er væntanlegt í heiminn nú í maí. Ég mun því skila inn treyjunni í nokkra mánuði, fá inn öflugan varamann og mæta svo aftur klár í slaginn. Inn á mætir vanur maður, Þórður Guðjónsson, sem hefur síðastliðinn ár gegnt hlutverki bæjarfulltrúa og varabæjarfulltrúa svo við erum að tala um reynslu. Ég kvíði engu með gott fólk í brúnni en ég skal samt alveg viðurkenna að það er erfitt að stíga til hliðar.

Fjölbreytt og krefjandi verkefni

Árið í fyrra og árið í ár verða stærstu framkvæmdaár í sögu Akurnesinga. Vel hefur gengið að hefja gatnagerð í nýskipulögðum hverfum og sem betur fer er áhugi byggingaraðila til staðar og í sameiningu höldum við áfram að fjölga hér heimilum og samfélagið stækkar. Þessar nýframkvæmdir í gatnagerð á árinu 2023 tryggja verulegt lóðaframboð á næstu árum og Akraneskaupstaður verður í góðum færum til að svara eftirspurn eftir byggingarlóðum og fjölgun íbúða- og atvinnuhúsnæðis.

Við höfum síðastliðin tvö ár staðið í meiriháttar endurbótum, bæði í skipulögðum verkefnum en eins ófyrirséðum verkefnum eins og einu stykki íþróttamannvirki sem við neyddumst til að loka síðastliðið haust vegna loftgæðavandamála. Endurbætur á Brekkubæjarskóla eru í fullum gangi, þar sem fyrsta hæð skólans verður að mestu leyti endurnýjuð. Þá standa einnig yfir framkvæmdir við endurbætur á C álmu Grundaskóla. Samhliða þessum endurbótum á báðum okkar grunnskólastofnunum rís glænýtt íþróttamannvirki óðum við Jaðarsbakka en nú er uppsteypu lokið og nú er í gangi innri frágangur og lóðaframkvæmdir, ásamt undirbúningi að kaupum á lausum búnaði.

Á þessu ári ætlum við að bjóða út byggingarrétt á Dalbraut 8. Í húsinu er reiknað með að verði 43 íbúðir fyrir ofan fyrstu hæð þess. Á fyrstu hæðinni er reiknað með Samfélagsmiðstöð sem mun hýsa starfsemi Fjöliðjunnar (hæfingarhluti), Þorpsins og Hver Starfsendurhæfingarmiðstöðvar. Það er okkar einlæga trú að uppbygging Samfélagsmiðstöðvar verði til framtíðar framfaraspor í þjónustu Akraneskaupstaðar sem og fyrir samfélagið í heild sinni þar sem hugsjónin um samfélag fyrir öll verði að veruleika. Þá mun uppbygging á nýjum íbúðakjarna með 6 íbúðum einnig hefjast á árinu.

Gatnaviðgerðir eru fyrirhugaðar við Kalmansvelli ásamt því sem stefnt er að klára hönnun vegna breytinga á Kirkjubraut (milli Stillholts og Merkigerðis). Ný gatnagerð verður fram haldið í Flóahverfi og Skógarhverfi auk þess sem byrjað verður á frekari gatnagerð við Sementsreit. Nýframkvæmdir vegna gangstétta munu halda áfram í Skógahverfi í takt við uppbyggingu hverfisins.

Fyrirhuguð er áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu í samstarfi við þróunarfélögin á Breið og Grundartanga í formi frekari styrkingar rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi sem félögin styðja þétt við. Jafnframt er fyrirhuguð uppbygging græns iðngarðs með hringrásarhugsun á Grundartanga, en Þróunarfélagið á Grundartanga og fyrirtæki á svæðinu hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis. Verið er að skipuleggja Jaðarsbakkasvæðið þar sem stefnan er að rísi hótel, baðlón og heilsulind, en þetta verkefni hefur verið unnið í samstarfi við ÍA, KFÍA og Ísold Fasteignafélag ehf. Stefnt er að því að stofna miðlæga einingu fyrir Græna iðngarða í Flóahverfi, t.d. í formi klasafélags, sem mun leiða verkefni sem tengjast sameiginlegum rekstri fyrirtækja í iðngörðunum.

Kjarasamningar og fjölskylduvænt samfélag

Bæjarstjórn gaf það út rétt eftir síðustu jól að Akraneskaupstaður myndi ekki láta sitt eftir liggja ef samið yrði á grundvelli þjóðarsáttar sem kom svo á daginn. Þetta raungerði bæjarstjórn á þarsíðasta fundi sínum með lækkun tiltekinna gjaldskráa vegna barnafjölskyldna og tekur sú lækkun gildi 1. maí næstkomandi. Þá blasir við okkur verkefni í haust að raungera gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólunum okkar. Við erum meðvituð um hversu miklu máli það skiptir okkur að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hefur hart niður á sveitarfélögum, heimilum og fyrirtækjum. Það verður samt að nefna að undangengin ár hefur bæjarstjórn Akraness lagt áherslu á að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf, enda hafa gjaldskrár bæjarins hlutfallslega lækkað og hækkuðu t.d. ekki í fyrra barnafjölskyldum til heilla.

Talandi um barnafjölskyldur þá hefur áhersla okkar verið á að hér sé gott að ala upp börn og eigum við þar mikið að þakka leikskólunum okkar og grunnskólunum þar sem fram fer gífurlega faglegt og gott starf sem við megum öll vera stolt af. Um miðjan mars fór fram innritun í leikskóla á Akranesi fyrir starfsárið 2024-2025. Foreldrum barna fædd til og með 30. júní 2023 gafst færi á að sækja um fyrir börn sín og hefur þeim nú verið úthlutað leikskólaplássi fyrir næsta skólaár. Fyrirséð er umtalsverð og áframhaldandi fjölgun íbúa í bæjarfélaginu. 107 börn útskrifast úr leikskólum Akraneskaupstaðar í vor og miðað við uppgefin innritunaraldur má áætla að um 127 börn fái leikskólapláss í haust.

Til að mæta fjölgun leikskólabarna hefur bæjarráð fallist á að ráðist verði í byggingu tveggja lausra leikskóladeilda. Er það mat skóla- og frístundaráðs eftir samráð við leikskólastjóra að heppilegast sé að fjölga deildum við leikskólann Teigasel. Þannig tekst að jafna fjölda leikskólaplássa í leikskólum bæjarins og koma betur til móts við óskir foreldra. Teigasel verður þá 5 deilda leikskóli, sem gefur aukin tækifæri í skipulagi og samsetningu barnahópa leikskólanna.

Við tókum einnig upp svokallaða skráningardaga, til að koma til móts við betri vinnutíma starfsmanna leikskólanna. Það gerðum við með því að eyrnamerkja ákveðna daga í kringum vetrarfrí, jólafrí, páskafrí og aðra rauða daga sem skráningardaga en ef foreldrar leikskólabarna voru tilbúin að skuldbinda sig til að hafa börnin í fríi þessa daga þá varð desembermánuður gjaldfrjáls. Það sem er lykilatriði hér er að fyrir foreldra sem ekki áttu kost á að nýta skráningardaga þá skertist þjónustan ekkert. Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í þetta en rétt tæplega 70% foreldra leikskólabarna skráðu barnið sitt í frí á skráningardögum.

Þá var glænýtt verkefni prófað í fyrra, undir yfirskriftinni Okkar Akranes um „opin græn svæði“ þar sem íbúum gafst kostur á að kjósa um verkefni fyrir bæinn að ráðast í og hlaut hugmyndin Ævintýragarður á Merkurtúni – hönnun, flest atkvæði í kosningu íbúa. Framkvæmdaáætlunin var þannig að Ævintýragarður á Merkurtúni var settur í hönnun. Fengnar voru þrjár frambærilegar hönnunarstofur til að setja fram tillögur og eða frumhönnun. Allar fengu þær sömu punkta sem upplag fyrir verkefnið. Til stendur nú að útbúa fjölnota leikvöll og sameina um leið nokkrar tillögur sem bárust, eins og leiksvæði fyrir allan aldur, leiktæki með aðgengi fyrir alla, ungbarnasvæði, sparkvöll og þúfnahopp. Uppsetning og frágangur verður framkvæmdur á næstu tveimur árum.

Fyrsta íþróttasveitarfélagið og bær sem virkar fyrir fólkið

Við undirrituðum í desember viljayfirlýsingu þess efnis að bærinn verði fyrsta íþróttasveitarfélagið á landinu. Með yfirlýsingunni vorum við fyrst og fremst að lýsa yfir vilja til að halda áfram að byggja ofan á þær styrku stoðir sem fyrir eru í bæjarfélaginu og setja íþróttir barna- og ungmenna og uppbyggingu þeirra ásamt afreksíþróttum á oddinn. Við erum þegar frumkvöðlasveitarfélag í innleiðingu á lögum um farsæld barna og inn í þá vinnu tengir sveitarfélagið íþróttir og er viljayfirlýsingin ákveðið framhald á þeirri vinnu. Samhliða þessu tókum við í gildi nýtt stöðugildi í desember og vinnum að nýju verkefni sem heitir Farsæl frístund. Það verkefni byggir á því að öll börn með stuðning fá líka þann stuðning sem þau þurfa í frístundir með áherslu á hreyfingu.

Fyrir kosningarnar 2022 skrifaði ég grein um bæ fyrir fólkið, en mér fannst mikilvægt að í öllum ákvörðunum höfum við í huga hvað hentar okkar íbúum, á hvaða tíma vilja þau nýta þjónustu sveitarfélagins og svo framvegis. Hér er brot úr þeirri grein:

„Hvernig getum við heimfært þessa hugmyndafræði (um bæ sem virkar fyrir fólkið) hér? Tökum eitt dæmi; sundlaugarnar okkar. Þær eru í eigu sveitarfélagins og notendur þeirra eru íbúar bæjarins, sem og ferðamenn auðvitað líka. Þegar kemur að því að ákveða hvenær þær eiga að vera opnar, er ekki eðlilegt að við byggjum slíkar ákvarðanir á samtali við notendur? Bjarnalaug, sem dæmi – upphituð innilaug sem í dag er opin yfir vetrartímann í örfáar klukkustundir fyrir almenning. Annað dæmi sem ég er viss um að margir tengja við er opnunartími endurvinnslustöðvarinnar. Hér á Akranesi sækja margir sína atvinnu út fyrir bæjarmörkin og ég hef átt ófá samtöl við fólk sem þarf hreinlega að taka sér frí í vinnu til að geta farið með hluti sem falla til meðal annars við framkvæmdir eða tiltekt. Þar er einnig lokað á rauðum dögum. En það að auka þjónustuna, þýðir það ekki bara aukinn kostnaður? Ég verð seint talsmaður þess að auka kostnað hins opinbera en það að aðlaga þjónustuna að þörfum íbúa þarf ekki endilega að þýða hærri útgjöld af hálfu bæjarins. Okkar hlutverk ætti nefnilega að vera það að vera með þjónustuna til staðar þegar íbúarnir okkar, notendurnir vilja nýta þjónustuna. Þannig virkar bær fyrir fólk, en ekki öfugt.“

Það er reglulega gaman að segja frá því að frá árinu 2022 höfum við stóraukið opnunartíma í sundlaugunum okkar, sér í lagi Bjarnalaug sem er nú opin á laugardögum og sunnudögum yfir vetrartímann frá 10:00-15:00, þá lengdum við nýverið opnunartímann í Jaðarsbakkalaug til klukkan 22:00 á kvöldin í stað 21:00. Mín tilfinning þegar ég byrjaði að starfa fyrir bæjarbúa var smávegis sú að opnunartími Guðlaugar væri alls ekki nógu fyrirsjáanlegur eða reglulegur og kom það á daginn í samtali við aðila sem sérhæfa sig í skipulagningu á þjónustu fyrir ferðamenn. Þá hlakka ég til að kynna fyrir bæjarbúum hvernig opnunartími í endurvinnslustöðinni okkar Gámu verður eftir nýafstaðið útboð. Þá var opnunartíma Byggðasafnsins breytt með þeim hætti að nú er opið á laugardögum frá kl. 13-17 yfir vetrartímann í kjölfar opnunar nýrrar grunnsýningar en opnað fyrir hópa eftir samkomulagi á öðrum tímum. En hvernig gerum við þetta? Aukum við bara kostnað sveitarfélagsins? Nei, það er einnig gaman að segja frá því að þetta er gert með hagræðingu. Það vakti mikla athygli í byrjun árs þegar við hækkuðum gjaldskrána í Guðlaugu svo um munaði. Í upphafi var frítt í laugina og svo var tekinn fimmhundruðkall fyrir skiptið í nokkur ár. Svo líður tíminn og það eru gerðar meiri kröfur um alls konar, svo verður að vera eftirlit og ýmis annar kostnaður fellur til. Þegar rekstrarkostnaður er 33 milljónir og innkoman er 8,9 milljónir þá töldum við einfaldlega rétt að stoppa þennan leka. Við vorum einfaldlega á þeim stað að gestir Guðlaugar undanfarin ár voru að greiða 250 krónur af hverjum 1.000 krónum sem það kostar sveitarfélagið að reka laugina. Það einfaldlega gengur ekki að greiða svo mikið með lauginni, sem að sjálfsögðu fellur ekki undir grunnþjónustu sveitarfélagsins. Samhliða gjaldskrárbreytingunni er nú innifalið í miðaverði aðgangur að laugum bæjarins þar sem eru böð og heitir pottar og sána og allt slíkt. Þannig að þetta er líka veruleg þjónustubreyting.

Í staðinn hefur okkur tekist að hafa Guðlaugu meira og minna opna upp á hvern einasta dag og ég mæli með að áhugasamir kynni sér Páskaopnun lauganna okkar þriggja í ár samanborið við fyrri ár. Þarna hefur átt sér stað töluverð breyting í takti við hugmyndafræðina um bæ sem virkar fyrir fólkið, en ekki öfugt. Ef við horfum svo á fyrstu þrjá mánuði ársins eftir að breytingin tók gildi þá sjáum við að ásókn í laugina hefur aukist töluvert eða um 24%. Hér eru sóknarfæri á fleiri stöðum svo það sé sagt.

Heildarstefna Akraneskaupstaðar og ný stefna í öldrunarþjónustu

Við kláruðum fyrr á þessu ári heildarstefnu Akraneskaupstaðar fyrir árin 2024 til 2030 sem er ætlað að auka farsæld íbúa og fyrirtækja á Akranesi í víðum skilningi, styðja við betri árangur í rekstri sveitarfélagsins og miðla skýrri framtíðarsýn sveitarfélagsins yfir tímabilið til íbúa, starfsmanna og annarra hlutaðeigandi. Heildarstefna Akraneskaupstaðar er yfirstefna sveitarfélagsins og hún er svo nánar tilgreind í sértækum stefnum, eins og menntastefnu, velferðarstefnu og svo frv. Aðrar stefnur Akraneskaupstaðar skulu byggja á efni hennar og vera í samræmi við þá framtíðarsýn og markmið sem sett eru þar fram. Tilgangur heildarstefnunnar er meðal annars að samstilla ákvarðanir og aðgerðir til að ná ákveðnum markmiðum. Þegar öll leggjast á eitt þá eru meiri líkur á að þau markmið sem sett eru í heildarstefnunni náist og íbúar, fyrirtæki, starfsfólk og aðrir njóti afrakstursins. Með stefnunni er sveitarfélagið að setja fram stefnuáherslur fyrir valda málaflokka sem leggja skal áherslu á frá árinu 2024 til ársins 2030. Undir hverjum málaflokk eru sett fram markmið sem stefnt skal að. Heildarstefna Akraneskaupstaðar horfir m.a. til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og fjárhagslegra markmiða sveitarfélagsins.

Framtíðarsýn Akraneskaupstaðar er að hafa sjálfbærni að leiðarljósi til að tryggja samfélagslega velsæld, stöðugan rekstur og uppbyggingu sveitarfélagsins til framtíðar. Heildarstefna Akraneskaupstaðar byggir á þessari framtíðarsýn en stendur jafnframt á eftirfarandi fimm meginstoðum sem nefnast stefnuáherslur:

  • Fjölbreytt atvinnulíf
  • Umhverfissátt
  • Farsælt samfélag
  • Auðgandi mannlíf og menning
  • Traustir innviðir og skilvirk þjónusta

Þá var einnig samþykkt ný stefna nú í mars í öldrunarþjónustu en með öflugri og samþættri þjónustu ætlar Akraneskaupstaður að tryggja að þörfum eldra fólks á Akranesi sé mætt hvort sem er á heimili fólks eða í öðrum búsetuúrræðum. Hugmyndafræðin sem unnið er eftir er sú að mæta fólki þar sem það er statt, svokölluð „Þjónandi leiðsögn“. Markmiðið er að veita fólki þjónustu eftir þörf hvers og eins. Að fólk hafi val um að fá þjónustu heim eða nýta sér þau úrræði sem í boði eru í sveitarfélaginu. Fjölgun í hópi eldra fólks hjá Akraneskaupstað, sem og á landsvísu, kallar á margvíslegar lausnir á öllum sviðum og betri samþættingu í þjónustu. Ný tækifæri eru svo sem í velferðartækni, tengt farsæld og velferð, sem og í þéttari samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Það er stefna Akraneskaupstaðar að þjónusta eldra fólk sem lengst í heimahúsum og bjóða upp á velferðartækni til að styðja við þá stefnu. Með velferðartækni er einstaklingum hjálpað við að bæta lífsgæði sín með því að nýta sér margreyndar lausnir sem allar hafa það markmið að veita aukin tækifæri til þátttöku í samfélaginu.

Hálfleikstölur

Nýbirtur ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2023 endurspeglar traustan rekstur sveitafélagsins og er viðsnúningur í A hluta hálfur milljarður í plús. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 319,2 millj. kr., en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 475,2 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 9.795 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 10.050,6 millj. kr. Skuldir sveitafélagsins aukast á milli ára, enda miklar og umfangsmiklar viðhalds- og nýframkvæmdir á árinu. Skuldastaða sveitafélagsins er samt sem áður enn vel innan allra viðmiðunarmarka og er skuldahlutfall um 80%.

Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er mjög krefjandi nú á tímum og sveitarfélag í miklum fjárfestingum í hávaxtaumhverfi og verðbólgu, verður að halda vel utan um rekstur sinn. Því mun á árinu áfram verða unnið að ítarlegri greiningu á rekstri bæjarfélagsins og setningu fjárhagsmarkmiða til lengri tíma. Það er eina leiðin til að verja sterka stöðu Akraneskaupstaðar til lengri tíma, til að veita áfram öfluga þjónustu og hafa grunnstoðir okkar sterkar, sem eru velferðarþjónusta og menntun með áherslu á menningu og betra mannlíf. Það væri auðvelt að hafa greinina lengri og af nægu er að taka, en einhvers staðar þarf að setja punktinn.

Að lokum vil ég á persónulegri nótum þakka fyrir fyrri hálfleik. Þakka kollegum mínum í bæjarstjórn, starfsfólki Akraneskaupstaðar og að ógleymdum íbúum bæjarins. Það eru ekkert sérstaklega auðveld eða einföld spor að stíga inn í jafn krefjandi hlutverk og starf bæjarfulltrúa svo ekki sé minnst á formennsku í bæjarráði. Fyrir þessi tækifæri er ég afar þakklát en á sama tíma er ég þakklát fyrir að búa í samfélagi þar sem fæðingarorlof þykir sjálfsagt og það finnst mér dýrmætt og ætla að nýta það vel. Ég mun svo koma til baka í mín hlutverk sem ég hef gefið mig alla í og ég hlakka til þess einnig.

Takk fyrir mig.

 

Líf Lárusdóttir

Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi