Hver er orginal?

Axel Freyr Eiríksson

Komandi sveitarstjórnarkosningar í Borgarbyggð marka nokkur tímamót hjá lista Sjálfstæðisflokksins. Nýtt fólk skipar efstu sæti og því má segja að um einskonar kynslóðaskipti sé að ræða. Sjálfur skipa ég 4. sætið á listanum og er mjög spenntur fyrir þeirri vinnu sem komandi kosningar hafa í för með sér. Ég kem frá Akranesi en hef búið í Borgafirðinum síðastliðin 10 árin ásamt Elísabet Fjeldsted og eigum við saman tvo stráka. Ég starfa hjá Norðuráli og hef gert það samhliða námi mínu til grunnskólakennara við Háskóla Íslands. Ég hlakka til að heyra hvað fólk hefur að segja og taka það með mér út í komandi baráttu.

En hvað á ég við með orginal? Borgarbyggð varð til við sameiningu 13 sveitarfélaga í Borgarfjarðar-, Mýra- og Hnappadalssýslu. Þá vaknar með mér sú spurning; hvað er það sem gerir fólk að Borgfirðingi? Líkt og ég spyr í titlinum og Sálin söng einu sinni um, hver er orginal?  Ég var kallaður flóttamaður þar sem ég flutti í Borgarnes á sínum tíma frá Akranesi. Ekki veit ég hvað ég kallast núna þar sem ég fluttist úr Borgarnesi í Ferjukot, þar sem áður hét Borgarhreppur, en ég kýs að kalla mig Borgfirðing. Ég skrifaði reyndar pistil sem fjallar lauslega um þetta efni og ber heitið „Borgarnes – Akranes, hver er munurinn?“. Ræddi þar aðeins um þá mismunandi skoðun sem Borgnesingar og Skagamenn virðast hafa á gangstéttnagerð í íbúðahverfum. Hef flutt hann stöku sinnum, síðast fyrir kvenfélagi Lions hér í Borgarnesi og ræddi aðeins um mismunandi áherslur þarna neðra. Ég get reyndar rakið móðurætt mína upp Borgarfjörð, langafi minn hann Hallgrímur Guðmundsson bílstjóri fæddist á bænum Sleggjulæk í Borgarfirði og afi minn Jóhann Þorsteinsson hestamaður fæddist í Efstabæ í Skorradal. Ég tel það þó ekki vera megingrundvöll þess að geta kallað mig Borgfirðing heldur er það sú ákvörðun að flytja til að búa í Borgarfirði til framtíðar sem gerir mig að Borgfirðingi. Byggðalög þrífast best í jarðvegi framþróunar og með nýju fólki breytast aðstæður og ný sjónarmið koma fram. Að mínu mati fæst besta niðurstaðan þar sem sjónarmið sem flestra fá að heyrast og móta þá stefnu sem farin er til að bæta samfélagið sem við búum í.

Ég býð mig fram til að geta hjálpað til við að gera Borgarbyggð að enn betri stað til að búa á.

 

Axel Freyr Eiríksson, Borgfirðingur, Ferjukoti.

Höf. skipar fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fleiri aðsendar greinar