
Hver á lífeyrissjóðinn?
Guðsteinn Einarsson
Almennu lífeyrissjóðirnir voru afrakstur samninga á almenna vinnumarkaðinum. Hluti af þeim samningum var stjórnun þeirra. Helmingur stjórnarmanna er tilnefndur af viðkomandi verkalýðsfélögunum sem eiga aðild af þeim og helmingur er tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Þessir stjórnarmenn eru háðir því regluverki sem landslög og samþykktir sjóðanna segja til um.
Lífeyrissjóðirnir eiga ekkert. Þeir eru rekstrarfélög yfir og um eignir sjóðfélaga, innborganir þeirra, hvort sem það eru iðgjöld sjóðsfélaga sjálfra eða þeirra vinnuveitenda, í þeirra nafni.
Eina hlutverk lífeyrissjóðanna er að ávaxta það fé sem til þeirra er greitt. Þeir eiga ekkert, en sjóðsfélagar eiga skilyrt réttindi í viðkomandi sjóðum, réttindi sem byggjast alfarið af innborgun viðkomandi í sjóðina og ávöxtun þess fjár sem þeir varðveita.
Undanfarið hafa verkalýðsleiðtogar og fleiri skammast yfir því að lífeyrissjóðirnir vilji ekki taka þátt í ýmsum óarðbærum framkvæmdum og eða gefa eftir eignaréttindi eins og afborganir og vexti af lánum Grindvíkinga. En það er ekki stjórnar eða starfsmanna lífeyrissjóðanna að gefa eignir núverandi eða væntanlegra lífeyrisþega.
Lifeyrissjóðirnir hvorki græða né tapa á vaxtatekjum eða afsláttum af vöxtum og afborgunum lána, það gera einstakir sjóðfélagar, núverandi eða væntanlegir.
Það er sjálfsagt að styðja við bakið á góðum málum, en það er eðlilegast að það geri hver og einn eigandi réttinda í lífeyrissjóðum beint, hver og einn eftir sinni getu og vilja.
Borgarnesi, 15. desember 2023
Guðsteinn Einarsson
Höf. er lífeyrisþegi í Borgarnesi.