Hvenær springur bólan?

Vilhjálmur Egilsson

Við gleymum okkur gjarnan þegar vel gengur í efnahagslífinu og gerum þá ráð fyrir því að uppgangurinn muni halda áfram um fyrirsjáanlega framtíð. Sagan kennir okkur að svo er ekki.  Það með efnahagssveiflur eins og veðurfarið að lögmál meðaltalsins sigrar alltaf að lokum. Eftir uppgang kemur niðursveifla. Spurningin er bara hvenær og af hverju.

Í umræðu um efnahagsmál þessa dagana er mikið spáð í hvort bólumyndun sé í hagkerfinu. Fasteignaverð hefur hækkað mikið en verðvísitala fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 12% síðasta árið og rúmlega 60% frá árinu 2010.  Samt eru sérfræðingarnir að segja okkur að það sé ekki fasteignabóla.

Hin raunverulega bólumyndun í íslensku efnahagslífi nú er launabóla. Besti mælikvarðinn á hana er að ársbreyting launavísitölu hefur nú sex mánuði í röð verið í tveggja stafa tölu og horfur á því að þessi hækkunarferill haldi eitthvað áfram. Undanfarin ár hefur hinn mikli uppgangur ferðaþjónustunnar leitt hagvöxtinn og hann verið það sem kallað er útflutningsdrifinn. Nú eru tölurnar frá Hagstofunni farnar að snúast hratt við og öll merki farin að benda til þess að hagvöxturinn verði í síauknum mæli neysludrifinn.

Hversu lengi veislan endist í þetta skiptið er ekki gott að spá nákvæmlega fyrir um því að það byggir m.a. á því hvernig launabólan þróast. Það liggur þó fyrir að ekkert hagkerfi þolir viðvarandi tveggja stafa árshækkanir á launum án þess að eitthvað bresti.  Hagstofan segir okkur að í fyrra hafi verið 4,2% hagvöxtur. Hann gerðist í þokkalegu jafnvægi að því leyti að einkaneyslan jókst um 4,3%, útflutningur um 9,2% og innflutningur um 13,5%.  Svo virðist sem tekjuaukning heimilanna sem fólst m.a. í 7,2% hækkun launavísitölu milli ára og meiri atvinnu hafi fyrst og fremst verið notuð í að laga skuldastöðuna.

Hagstofan segir okkur líka að á þessu ári séu tölurnar að breytast. Hagvöxturinn á fyrri árshelmingi er 4,1% og drifinn áfram af 7,7% aukningu einkaneyslu og miklum fjárfestingum. Útflutningurinn jókst um 5,3% en innflutningurnn mun meira, eða um 16,2%.  Þetta segir okkur að nú eru heimilin að byrja að nota peningana sína.

Hagsaga okkar síðustu áratugina segir okkur ýmislegt um hvað gæti verið í vændum.  Í ársbyrjun 1983 lendi efnahagslífið í fullkomnu strandi eftir óðaverðbólgu þegar víxhækkanir launa og verðlags fóru úr böndum og verðbólgan mældist yfir 100% á fyrstu mánuðunum 1983.  Næsta stöðnunartímabil varði frá 1988 til 1993 þegar sjávarútvegurinn gekk illa og draga þurfti saman fiskveiðar. Nýr skellur kom 2002 þegar upplýsingatæknibólan sprakk en árunum þar á undann hafði hagvöxturinn einmitt færst út því að vera útflutningsdrifinn í að vera neysludrifinn. Uppgangurinn fyrir bankakreppuna 2008 varð sannarlega neysludrifinn þrátt fyrir að vöxtur bankakerfisins og tímabundin hækkun á eignaverði hefðu fært miklar tekjur inn í landið.

Nú þegar hagvöxturinn er farinn að verða neysludrifinn á nýjan leik og ekkert lát er á launahækkunum umfram það sem atvinnulífið í raun rís undir er hægt að byrja að telja niður í að bólan springi.  Verðhækkun á fasteignum er ein birtingarmyndin og það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig aðgerðir í húsnæðismálum sem auðvelda ungu fólki að fá fasteignalán sig munu koma fram í enn hærra fasteignaverði og aukinni skuldsetningu ungs fólks sem mun þá mynda næsta „leiðréttingarhóp“ þegar skellurinn kemur.

Uppgangurinn í ferðaþjónustunni hefur búið til ákveðið „nesti“ í þessari vegferð efnahagslífsins.  En hætt er við því að jafnvel ferðaþjónustufyrirtæki hafi ekki undan þegar kostnaðurinn hækkar sífellt á sama tíma og gengi krónunnar hækkar og Ísland verður dýrara fyrir erlenda ferðamenn. Þegar ég hugsa um þetta mál fyrir mig segi ég við sjálfan mig að líklega dugi „nestið“ frá ferðaþjónustunni næstu tvö árin en að við eigum eftir að sjá launabóluna springa með fyrirsjáanlegum afleiðingum innan fimm ára.

 

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst

Fleiri aðsendar greinar