Hvenær kemur að minni götu?

Haraldur Már Stefánsson

Ég heiti Haraldur Már Stefánsson og skipa 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Einn góður frambjóðandi í góðu bæjarfélagi gaf það eitt sinn út sem kosningaloforð að hann skyldi berjast fyrir því að gera aðalgötu bæjarins jeppafæra eigi síðar en fyrir næstu jól. Góður.

Það má öllum íbúum Borgarbyggðar vera ljóst að mikil viðhaldsþörf er komin á götur og gangstéttar í i þéttbýliskjörnum okkar. Við Sjálfstæðisfólk munum fara í markvissa vinnu á þessu sviði til að bæta og fegra umhverfi okkar. Við viljum koma á samráðshópi þar sem sitja fulltrúar íbúa, fyrirtækja og sveitarfélagsins. Þessi hópur myndi til að mynda koma að markmiðasetningu og stefnumótun varðandi opin svæði með tilliti til áherslna á heilsueflandi samfélag sem Borgarbyggð er.

Hópurinn myndi einnig koma að skipulagningu varðandi viðhald gatna og gangstétta í þéttbýli Borgarbyggðar og útbúa framkvæmdaáætlun. Hún mun síðan verða öllum íbúum Borgarbyggðar aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins. Þannig munt þú vita hvenær kemur að þinni götu.

Einnig væri hægt að nýta hópinn til að kortleggja betur hjóla og göngustíga í sveitarfélaginu og hvernig er hægt að tengja þá betur saman.

Þá viljum við einnig fara í úrbætur á skólalóðum grunn- og leikskóla sveitarfélagsins.

Til að fegra umhverfið okkar og bæta ásýnd Borgarbyggðar myndum við vilja koma á hvatakerfi. Það væri þá í boði fyrir þann sem vill að sækja um greiðslur í sjóð til þess að fegra og byggja upp ákveðin opin svæði út frá þeirri stefnu sem væri sett um svæðin. Til að bæta ásýnd sveitabæja væri hægt að skoða leiðir í samstarfi við félög bænda.

Borgarbyggð er heimili okkar og þar þarf okkur að líða vel í fallegu og snyrtilegu umhverfi

Gerum lífið betra!

X-D 26. maí.

 

Haraldur Már Stefánsson.

Höf. skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð.