Hvalfjarðargöng spöruðu ríkinu milljarða króna

Halla Signý Kristjánsdóttir

Nú í ár eru 20 ár liðin frá því að Hvalfjarðargöng voru opnuð. Þar var á ferðinni stórkostlegt mannvirki og með því stærsta í íslenskri vegagerð. Jarðgöng undir firði og þau einu sinnar tegundar hér á landi. Þessi samgöngubót var bylting fyrir nærliggjandi sveitarfélög og alla þá sem héldu út á hringveginn.

Nú þegar hillir undir það að ríkinu verði afhent þetta mannvirki er gott að líta yfir farinn veg og skoða gildi þessara ganga út frá öðrum sjónarhóli. Ég sendi fyrirspurn á núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um hver væri áætlaður sparnaður ríkisins af minni snjómokstri, viðhaldi vega og vegaframkvæmdum í Hvalfirði eftir opnun Hvalfjarðarganga og líka hver væri áætlaður sparnaður ríkisins af því að hætta siglingum Akraborgar eftir opnun Hvalfjarðarganga.

Það kom fram í svörum ráðherra að samanlagður sparnaður ríkisins gæti numið á fimmta milljarð króna. Þarna er verið að tala um sparnað af snjómokstri þar sem aukin umferð um Hvalfjörð hefði kallað á hærra þjónustustig. Sparnaðurinn vegna minna viðhalds eru allt að tveir milljarðar. Hann gæti vissulega verið hærri þar sem ljóst er að meiri umferðarþungi hefði kallað á mikla uppbyggingu á veginum fyrir fjörðinn. Sparnaðurinn af því að leggja niður Akraborgina er metinn á 2,5 milljarða.

Greinarhöfundur ætlar að annar ávinningur sé eldsneytissparnaður og sá milljarðasparnaður sem felst í hættuminni vegi sem vart verður metinn til fjár. Við skulum líka líta til þess ávinnings sem þetta skapaði fyrir þau sveitarfélög sem liggja nærri Hvalfjarðargöngum. Fjölgað hefur á Akranesi um 40% á þessum árum sem má örugglega rekja til þessara framfara í samgöngumálum.

Það er ljóst að ríkið hefur sparað mikla fjármuni með þessari framkvæmd. Það ætti að vera vatn á myllu þeirra sem vilja hraða framkvæmdum við uppbyggingu vegar um Kjalarnes sem er orðinn mjög hættulegur vegfarendum. Það er löngu orðið tímabært að efla öryggi þeirra sem þarna eiga leið um.

Þetta er líka staðfesting á gagnsemi jarðganga víða um landið. Mesti ávinningurinn er hættuminni og öruggari vegir, auk þess sem jarðgöng spara viðhald og þjónustu allt árið um kring.

 

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar