Hvað vita börnin og séra Hallgrímur Pétursson um tóbak?

Geir Konráð Theódórsson

Tóbakið hreint,

fæ gjörla greint,

gjörir höfðinu létta,

skerpir vel sýn,

svefnbót er fín,

sorg hugarins dvín,

sannprófað hef eg þetta.

Svona yrkir presturinn og sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson um tóbakið þegar hann er orðinn Vestlendingur á Saurbæ í Hvalfirði. Tóbakið hefur fylgt okkur Íslendingum lengi, hundruðum árum lengur en blessaða kaffið. Við vitum þó flest í dag að tóbakið er bölvaður óþverri en það er ekki svo langt síðan að til dæmis Lukku-Láki reykti eins og strompur í barnaefninu. Sum ykkar eigið kannski minningar um að hafa fundist þetta spennandi og jafnvel prufað að reykja njóla til að vera eins og kúrekinn – með viðeigandi minningum um hóstaköst, ógleði og svima. Já, margar eru minningarnar en blessunarlega hef ég sjálfur að mestu sloppið frá því að glíma við nikótíndjöfulinn. Einhverja alvöru vindla reykti ég þó þegar ég bjó um tíma í Nígaragúa og hjálpaði til í vindlaverksmiðju, það var ósköp ljúft að púa þá og sötra romm í hengirúmi þarna suður frá, en ég fann að fíknin var að ná tökum á mér. Það var mér til happs að verða allt of góðu vanur þarna úti og eiga síðan ómögulega efni á að kaupa heimsins bestu vindla þegar ég var kominn heim til Íslands. Ég prófaði að taka íslenskt í nefið eða vörina með félögum hér heima í kuldanum, en það var bara gjörsamlega hræðileg upplifun í samanburði við vindlareykingar á karabískri strönd. Ég er því feginn að hafa sloppið frá því að ánetjast þessu, og sérstaklega þegar ég hef séð fjölskyldu og vini berjast við að venja sig af tóbakinu.

Oft hef ég rætt þessi mál við vini mína og haft gaman af sögum þar sem löngunin í tóbakið er svo sterk að úr verður einhver fáránleg hegðun hjá annars fullkomlega eðlilegum einstaklingi. Við þekkjum líklegast öll einhvern sem hefur verið að laumast við að reykja og gengið misvel að fela þau atvik frá maka, foreldri eða jafnvel barni. En svo er það hegðunin sem kemur hjá fólki sem allt í einu áttar sig á því að þeim vantar tóbak. Ég hef horft á eftir manni hlaupa út úr bústað, hoppa upp í bíl og bruna í gegnum snjóstorm í næsta bæjarfélag í von um að komast í verslun og kaupa neftóbaksdós fyrir lokun. Einn vinurinn sagði mér frá hve undrandi hann var þegar hann kom að sinni fyrrverandi kærustu í Noregi þar sem hún var með vinkonum sínum, allar með hárblásara að þurrka gamla munntóbakspoka til að nota þá aftur. Það ákveðna atvik þarf þó ekki að vera tóbakinu að kenna, eftir dvöl mína í Noregi veit ég vel að blessuðu frændur okkar í Noregi geta verið sparsamir út í öfgar.

Við Íslendingar ættum þó ekki að gera of mikið grín af Norðmönnum því þegar ég var að lesa mér til skemmtunar bókina Íslenzkir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson rakst ég eftirfarandi lýsingu á tóbaksvenjum hér á landi í gamla daga:

„Oft voru menn í vandræðum fyrir tóbaksleysi, og var þá drýgt með ýmsu, t.d. sortulyngslaufi. Tóbakskarlar tuggðu tjörukaðal og sótsnæri í vandræðum, og fólk tók mulinn fúa, sorfin skipshjól og allan óþvera í nefið. Til er saga um karl og kerlingu; karlinn tók upp í sig, en kerlingin reykti. Þegar karl var búinn að tyggja mesta kraftinn úr tuggunum, tók kerlingin þær og þurrkaði og reykti þær svo í stuttri jarnpípu. Svo tóku þau öskuna úr pípunni í nefið; varð varla lengra komizt í nýtninni.“

Á þessum tímum endurvinnslu myndu karl og kerling líklegast fá klapp á bakið, en að öllu gamni slepptu sést að ýmsir slæmir siðir fylgja tóbakinu. Blessunarlega er þetta betra í dag. Margir byrja aldrei á þessu og flest fólk er hætt, eða er að reyna að hætta, að nota tóbak og þeim siðum sem því fylgir. Ég er mjög feginn að ég hef aldrei séð neinn hér á landi tyggja tjörukaðal eða taka mulinn fúa í nefið – en það er þó einn ósiður hjá tóbaksfólki sem ég hef séð allt of oft og mér þykir allt of leiðinlegur. Það er helvítis sóðaskapurinn á almannafæri sem sumir notendur tóbaks leyfa sér. Þegar ég og litla frænka mín Kristbjörg Ragney fórum um Borgarnesið í vikunni að plokka rusl þá var það okkur augljóst að langmesta ruslið á götum og í grasi hérna í bænum voru sígarettustubbar og notaðir tóbakspokar. Litla frænka var alveg hneyksluð og sagði það sem mér þykir að skrítið að barn þurfi að segja á Íslandi árið 2020: „Fólk veit að það á ekki að kasta rusli en veit það ekki heldur að það á ekki að reykja!“

Þetta vita börnin í dag, en meira að segja í kringum árið 1650 vissi séra Hallgrímur Pétursson sitthvað um bölvaða tóbakið:

 

Tóbak róm ræmir,

remmu framkvæmir,

tungu vel tæmir,

tár af augum flæmir,

háls með hósta væmir,

heilann fordæmir

og andlit afskræmir.

 

Geir Konráð Theódórsson.

Fleiri aðsendar greinar