Hvað viltu vinna við þegar þú ert orðin stór?

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Við þurfum fleiri atvinnutækifæri í Borgarbyggð bæði til þess að laða að nýja íbúa en einnig til þess að efla sveitarfélagið og skapa tækifæri fyrir þá íbúa sem nú þegar eru búsettir í sveitarfélaginu. Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf í takt við nútímann. Það dugar ekki að sitja við símann og bíða eftir að fyrirtæki hringi í okkur, við þurfum að vinna að settu marki alla daga. Atvinnumál eru verkefni sem þarf að taka vel utan um og hugsa um eins og blóma í eggi. Því leggjum við í Framsókn til að stofnað verði sérstakt stuðningsnet fyrir atvinnulífið og viljum hafa sérstakan atvinnumálafulltrúa á vegum sveitarfélagsins.

Afsláttur af gatnagerðargjöldum atvinnulóða

Við eigum nóg af lóðum til þess að bjóða fyrirtækjum í Borgarbyggð, en þær þurfa að vera aðgengilegar og aðlaðandi. Til þess að laða að ný fyrirtæki og flýta fyrir uppbyggingu leggjum við í Framsókn til 75% afslátt af gatnagerðargjöldum atvinnulóða. Um leið og fyrirtækin fara að starfa koma þau með auknar tekjur inn til sveitarfélagsins. Tekjur sveitarfélagsins eru grunnforsenda þess að við getum byggt upp og bætt þjónustu fyrir alla íbúa.

Nýsköpun og grænir iðngarðar

Við þurfum að laða að okkur sprotafyrirtæki og nýsköpun, þá sérstaklega græn fyrirtæki. Við eigum t.d. nóg af heitu vatni í sveitarfélaginu á tilteknum stöðum í sveitarfélaginu og höfum alla möguleika til þess að byggja upp öflug fyrirtæki á sviði nýsköpunar í matvælaframleiðslu. Til þess að flýta undirbúningi, sem oft og tíðum er allt of tímafrekur, sjáum við fyrir okkur að setja upp græna iðngarða, en þeir geta flýtt flóknu ferli. Um er að ræða samhæft átak stjórnvalda, sveitarfélaga, fjárfesta og fyrirtækja. Grænir iðngarðar eru staðbundið hringrásarhagkerfi þar sem úrgangur eins er auðlind annars. Tækifærin eru til staðar en það sem þarf er drífandi sveitarstjórn sem rífur verkefnin áfram.

Efla vettvang fyrir þá sem stunda fjarvinnu

Eitt af því sem heimsfaraldur Covid skildi eftir er gjörbreytt landslag í atvinnumálum. Sífellt fleiri fyrirtæki hafa áttað sig á kostum fjarvinnu og einstaklingur í dag getur búið í Borgarbyggð en unnið í Osló. Í dag búa í sveitarfélaginu einstaklingar sem vinna sína vinnu að hluta eða að öllu leyti í gegnum fjarvinnu. Því vill Framsókn koma upp öflugum fjarvinnuslustöðvum í sveitarfélaginu, þar sem fólk sem sinnir ólíkri vinnu getur nýtt aðstöðu. Það er hagur sveitarfélagsins að þar búi fólk með ólíka þekkingu og færni. Með fjarvinnslustöðvum getum veitt fólki raunverulegt val um hvar þar býr og hvar þar starfar. Þá er það stefna ríkisins að fjölga opinberum störfum út á landi, en 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum eiga að vera án staðsetningar árið 2024. Þar er lagt til að slík störf verði unnin á starfsstöð (þ.e. í húsnæði þar sem fyrir er önnur starfsemi). Borgarbyggð þarf að vera tilbúin til þess að taka á móti einstaklingum sem vinna með þessum hætti.

Þá eigum við öflug ferðarþjónustufyrirtæki og fyrirtæki sem hafa verið burðarásar í atvinnulífi sveitarfélagsins til fjölda ára. Við þurfum að huga að þeim líkt og nýjum tækifærum. Þannig náum við að vaxa og dafna. Það þarf nýja Framsókn í atvinnumálum.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Höf. skipar 1. sæti Framsóknar í Borgarbyggð.