Hvað verður um sóknargjöldin?

Sr. Þráinn Haraldsson

Þegar líður að 1. desember ár hvert hefjast jafnan umræður og umfjöllun í fjölmiðlum um sóknargjöld sem renna til safnaða Þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Það er svo sem ekki að undra en greiðsla gjaldsins næstkomandi ár er miðuð við skráningar í trúfélög þann 1. desember.

Margt hefur verið sagt og skrifað um tilurð og eðli sóknargjaldsins og ætla ég mér ekki að leggja meira til þeirra mála að þessu sinni. Mig langar frekar að spyrja þeirrar spurningar í hvað þessir peningar fara?

Ég ætla fyrst að líta til Akranessafnaðar sem er einn af söfnuðum Garða- og Saurbæjarprestakalls. Þar ber fyrst að nefna rekstur og viðhald mannvirkja, sem eru Akraneskirkja og Safnaðarheimilið Vinaminni. Akraneskirkja var vígð árið 1896 og er því 126 ára. Akurnesingar hafa sótt þangað á stundum gleði og sorgar og sér til uppbyggingar í meira en öld. Sóknarnefnd kirkjunnar hefur lagt áherslu á að sinna viðhaldi kirkjunnar með sóma svo við Akurnesingar getum verið stolt af kirkjunni okkar. Kirkjan er enda fögur og setur mikinn svip á bæinn. Kirkjubyggingin er þannig menningarverðmæti sem mikilvægt er að standa vel að. Það er þó bara kirkjan sjálf, fjöldi viðburða af ýmsum toga fara fram í húsnæði safnaðarins í hverjum mánuði, allt árið um kring og útheimtir það mikla vinnu og alúð til að umgjörð slíkra viðburða sé slík að sómi sé að. Gestir skipta tugum þúsunda á ári hverju.

Sóknargjöldin standa einnig undir launakostnaði starfsmanna kirkjunnar, organista, kirkjuvarðar, umsjónarkonu safnaðarheimilisins og skrifstofustjóra. (Prestarnir eru ekki starfsmenn safnaðarins). Allt þetta góða fólk er nauðsynlegt fyrir starf kirkjunnar.

Þá er ótalið það mikla starf sem fram fer á vegum kirkjunnar. Guðsþjónustur, sunnudagaskóli, barna- og unglingastarf, fermingarfræðsla og opið hús fyrir eldri borgara og svo að sjálfsögðu kirkjukórinn sem hefur sett mikinn svip á menningarlíf bæjarins til fjölda ára. Það eru einnig fjölmargir sem leita til presta kirkjunnar í sálgæslu og eftir fjárhagsaðstoð.

Sóknargjöldin eru grunnstoð í rekstri safnaðarins, það væri söfnuðinum ómögulegt að standa undir hefðbundnu safnaðarstarfi og rekstri húsnæðis ef sóknargjaldanna nyti ekki við.

Í minni söfnuðum prestakallsins, Innra-Hólmssöfnuði, Leirársöfnuði og Saurbæjarsöfnuði, duga tekjur vart fyrir föstum útgjöldum og víða er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf og ekki eru til peningar til mæta henni. Góðar gjafir hafa staðið undir endurbótum á Innra – Hólmskirkju sem nú standa yfir. Söfnuðirnir standa fyrir líflegu helgihaldi og glæsilegur kór prýðir menningarlíf Hvalfjarðarsveitar við mörg tilefni. Einnig hefur verið barnastarf í Hvalfjarðarsveit og fyrir skömmu síðan var farið í dagsferð í Vatnaskóg.

Söfnuðir Þjóðkirkjunnar standa fyrir líflegu og mikilvægu starfi fyrir samfélagið og standa vörð um byggingar sem skipta okkur máli.

Með því einu að vera skráður í Þjóðkirkjuna leggur maður því mikið til.

 

Sr. Þráinn Haraldsson

Höf. er sóknarprestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli