Hvað verður um Bifröst?

Björn Bjarki Þorsteinsson

Framtíð Bifrastar í Norðurárdal sem skólastaðar virðist ekki vera til staðar. Skólinn, sem byggir í dag nánast eingöngu á fjarnámi, og er reyndar mjög  öflugur á því sviði, er í sameiningarviðræðum við Háskólann á Akureyri og samkvæmt stöðuskýrslu sem unnin hefur verið þá er lagt til að höfuðstöðvar sameinaðs skóla verði á Akureyri og mögulega starfsstöðvar í Borgarnesi og Reykjavík, Bifröst er því ekki inni í þeirri breytu.

Gott og vel, en hvað er í dæminu öllu fyrir Borgarfjörðinn og í raun Vesturland allt sem notið hefur góðs af nálægð og tengingu við Háskólann á Bifröst og það frábæra starfsfólk sem þar starfar og hefur starfað í gegnum tíðina?

Mér hefur fundist skorta á að sú umræða ætti sér stað, af hálfu heimamanna og annarra á Vesturlandi, og því vil ég sem einn af fyrrverandi stjórnarmönnum Háskólans á Bifröst og áhugamaður um öflugt samfélag á Vesturlandi, leyfa mér að grennslast fyrir um hvort að því hafi verið spurt hvað mögulega fáist í staðinn inn á svæðið í staðinn fyrir Háskólann á Bifröst, þ.e.a.s. fást önnur eða sambærileg opinber störf inn á Vesturland og einnig hvað verði um Bifröst og allar þær fasteignir sem þar eru til staðar.

Bifröst í Norðurárdal í Borgarbyggð er einstakur staður m.t.t. náttúru og innviða. Heitt og kalt vatn í umhverfinu er nægt og rafmagn, ljósleiðari og í raun allir aðrir innviðir eru traustir. Það er töluvert húsrými til staðar en ljóst að fara þarf í endurbætur á skólahúsnæðinu en magn íbúða og annars gistirýmis er töluvert og því allar forsendur fyrir að allt að 250 manns geti dvalið á staðnum hverju sinni og spurning á hvaða vettvangi, þ.e. á þarna að verða almenn íbúðabyggð, ferðaþjónusta eða er tækifæri til staðar varðandi uppbyggingu heilsuþorps á Bifröst í heilnæmu umhverfi Borgarfjarðar og Vesturlands?

Sem áhugamaður um heilbrigðismál þá finnst mér það a.m.k. umhugsunarinnar virði að „máta“ þá hugmynd að Bifröst verði í raun „heilsuþorp“ eins og fyrr sagði og myndi njóta þeirrar einstöku staðsetningar sem um ræðir í Norðurárdal. Í næsta nágrenni er t.a.m. Grábrók, fossinn Glanni, Paradísarlaut, golfvöllur, Jafnaskarðsskógur, Hreðavatn, Vikrafell og áfram mætti lengi telja. Heilsuþorpið gæti í raun bæði boðið upp á fasta búsetu og/eða heilsuþorp þar sem fólk alls staðar að úr heiminum gæti komið og dvalið í skemmri eða lengri tíma. Við Íslendingar ferðumst víða í slíkum tilgangi og því ekki að bjóða upp á slíka starfsemi á Bifröst?

En fyrsta vers, sama til hvaða tækifæris verði helst horft og hvað varðar heildstæða framtíðarsýn fyrir Bifröst, er að koma eignarhaldi allra þeirra bygginga sem enn tilheyra skólahaldinu á Bifröst og þeirra félaga sem heyra undir skólann á eina hendi og því mikilvægt að komið verði á formlegu samtali um það mál sem fyrst þannig að eignir renni ekki í áttir sem koma heildarmynd svæðisins einstaka ekki að gagni í þeirri framtíðar heildstæðu mynd sem tækifæri eru til.

Bifröst er einstakur staður í einstakri náttúru með magnaða sögu og því þykir mér það skylda allra þeirra sem málið varðar að sýna Bifröst þá virðingu að þarna verði áfram starfrækt metnaðarfull starfsemi sama hvort um er að ræða heilsuþorp, ferðaþjónusta eða slíkt ef fullreynt er með starfsemi háskóla.

 

Björn Bjarki Þorsteinsson