Hvað skal kjósa? Opið bréf til frambjóðenda.

Jóhann Bæring Pálmason

Ágæti frambjóðandi

Nú styttist óðum í kjördag og kosningaloforðin þeytast fram á völlinn sem aldrei fyrr. Umræðan virðist snúast að stóru leyti um hver geti unnið með hverjum en ekki hvaða samleið málefni flokkanna eiga. ESB, stjórnarskráin, utanríkismál, flóttamenn, umhverfismál, auðlindir landsins og svo framvegis eru málin sem ætlast er til að kjósendur taki afstöðu með og á móti.

Eitt er það málefni sem fáir virðast þó vera að velta sér upp úr. Framfærslukostnaður heimilanna í landinu. Hvernig hafa heimilin það fjárhagslega?

Á heimasíðu Hagstofunnar er að finna upplýsingar um meðallaun karla og kvenna. Á árinu 2014 höfðu karlar að meðaltali kr. 493.000- á mánuði en konur kr. 413.000-. Þar er einnig að finna launavísitöluna svokölluðu en frá því janúar 2015 til ágúst 2016 hefur hún hækkað um 17%. Miðað við þá hækkun ættu karlar í dag að vera með kr. 577.000- og konur með kr. 483.000-. Af þessu dreg ég þá ályktun að meðal sambúðarfólk/hjón hafi kr. 1.060.000 í laun á mánuði en það gera um kr. 640.000- til ráðstöfunar á mánuði.

Á heimasíðu Velferðarráðuneytisins er að finna reiknivél sem tekur saman hversu mikið þurfi til að reka hin ýmsu fjölskylduform á Íslandi. Gefin eru upp 2 viðmið, grunnviðmið sem hægt er að lifa af í hámark 6 mánuði og svo dæmigert viðmið sem þarf til lengri tíma. Ég setti í þessa reiknivél 3 dæmi.

Dæmi 1.

2 fullorðnir með 1 barn á leikskóla og 1 barn í skólamötuneyti, búsett í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins. Í grunnviðmiði eru útgjöld þessara fjölskyldu án húsnæðiskostnaðar kr. 316.766-. En í dæmigerðu viðmiði eru útgjöld án húsnæðiskostnaðar kr. 517.081- á mánuði.

Dæmi 2.

2 fullorðnir með 2 börn á leikskóla og 1 barn í skólamötuneyti, búsett í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins. Í grunnviðmiði eru útgjöld þessara fjölskyldu án húsnæðiskostnaðar kr. 385.545-. En í dæmigerðu viðmiði eru útgjöld án húsnæðiskostnaðar kr. 596.181- á mánuði.

Dæmi 3.

2 fullorðnir með 2 börn á leikskóla og 2 börn í skólamötuneyti, búsett í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins. Í grunnviðmiði eru útgjöld þessara fjölskyldu án húsnæðiskostnaðar kr. 442.362-. En í dæmigerðu viðmiði eru útgjöld án húsnæðiskostnaðar kr. 692.514- á mánuði.

Á heimasíðu Ríkisskattstjóra er að finna reiknivél fyrir barnabætur. Ég gerði ráð fyrir að fjölskyldurnar í dæmunum þrem hér fyrir ofan hefðu meðal laun í tekjur en það þýðir að árslaun þeirra eru þá um kr. 12.720.000-. Fjölskyldan í dæmi 1 ætti að fá kr. 557.088- ár ári en vegna tekna yfir viðmiðunarmörkum fá þau ekkert. Fjölskyldan í dæmi 2 ætti að fá kr. 914.337- á ári en vegna tekna eru bætur þeirra skertar niður í kr. 42.137- á ári eða kr. 3.511 á mánuði. Fjölskyldan í dæmi 3 ætti að fá kr. 1.152.286- á ári en vegna tekna eru bætur þeirra skertar niður í kr. 280.086- á ári eða kr. 23.340- á mánuði.

Miðað við þessar upplýsingar sem allar eru gefnar út af Ríkinu þá hefur fjölskyldan í dæmi 1 um kr. 122.000- á mánuði til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Fjölskyldan í dæmi 2 hefur kr. 47.000- til ráðstöfunar í húsnæði og fjölskylduna í dæmi 3 vantar um kr. 30.000- fyrir föstum útgjöldum og hafa ekkert þak yfir höfuðið.

Frambjóðandi góður, ég veit ekki með þig en ég sé ekki hvernig fjölskyldurnar í dæmi 2 og 3 eiga að lifa af þessu og ekki er ég viss um að auðvelt sé að fá húsnæði fyrir kr. 122.000- á mánuði hvar sem er. Því spyr ég, hvað ætlar þú og þinn flokkur að gera til að lagfæra þessa skekkju í framfærslu?

Höfundur er fjögurra barna faðir búsettur vestur á fjörðum

Jóhann Bæring  Pálmason
basi@nh.is

Fleiri aðsendar greinar