Hvað nú Borgarbyggð?

Þorvaldur Jónsson

Það fer víst ekki fram hjá mörgum að sveitastjórnarkosningar standa fyrir dyrum. Þar verða einhverjir kallaðir en nokkrir útvaldir. Að undanförnu hef ég rekist á þó nokkrar greinar í blöðum um lélega frammistöðu okkar sveitarstjórnar. Að ekki sé nú minnst á Facebook. Yfirleitt eru þetta sömu aðilarnir sem skrifa þetta og virðast vita betur, kunna betur og geta betur en sveitarstjórn og aðrir sem að málum hafa komið. Eftirvænting mín var því mikil þegar framboðin hófu að senda inn kynningarbæklinga um sína frambjóðendur og áherslur þeirra. Þarna birtust væntanlega framarlega eða fremst á framboðslistum nöfn þessara manna sem látið hafa ljós sitt skína um afleita frammistöðu sveitarstjórnar Borgarbyggðar. Vonbrigðin urðu því mikil þegar enginn þeirra hafði séð ástæðu til að leyfa okkur íbúunum að njóta gáfna sinna, skipulagshæfileika, sérþekkingar á fjármálum sem og öðru sem sveitarstjórnarmál varðar.

Vilja þeir bara standa á hliðarlínunni og hrópa líkt og óstýrilátir áhorfendur á kappleik sem telja sig vita betur um leikkerfi, leikmenn og vitlausa dómara? Neikvæð umræða innan samfélagsins er okkar versti óvinur og elur á sundrungu sem við þurfum síst á að halda en að auki getur slík umræða dregið úr löngun fólks sem annars vildi flytja hingað og byggja með okkur gott samfélag til framtíðar. Við ættum ekki að tala sveitarfélagið okkar niður, það bitnar fyrst og síðast á okkur sjálfum.

Ég hef reyndar heyrt af slíkri umræðu í öðrum sveitarfélögum svo þetta er ekki sérstakt fyrirbæri hjá okkur en hins vegar ekki til eftirbreytni.

Borgarbyggð er ekki fjölmennt sveitarfélag miðað við landstærð. Því geta sjónarmið íbúanna og áherslur verið með ólíku móti. Þá er okkur nauðsynlegt að haldast í hendur og sammælast um sterka þjónustukjarna í Borgarnesi sem og í öðru þéttbýli á svæðinu. Ekki má gleyma strjálbýlum sveitum heldur en þær halda utan um þéttbýlið. Sterkar sveitir stuðla að sterku þéttbýli og öfugt. Við eigum gnótt af náttúruperlum, laxveiðiám, fallegum fjöllum, jarðhitasvæðum, heiðarlöndum, jöklum, fallegum fjörum, klettóttri strönd og fl. Marga af þessum kostum hafa framsýnir menn og konur nýtt sér og sínum sem og sveitarfélaginu til framdráttar. Sumarhúsalóðir, jarðvarmaböð, sögustaðir og fl. Þá má ekki gleyma skólunum okkar. Grunnskólar, menntaskóli, tveir háskólar.

Hvað vantar? Við búum í góðu sveitarfélagi þar sem mörg tækifæri leynast.

Þakkir til þess fólks sem vill leiða samfélagið okkar áfram.

Nokkuð hefur borið á því að fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum, veigri sér við að bjóða fram krafta sína vegna neikvæðrar umræðu. Ég hef heyrt að þetta eigi einnig við í öðrum sveitarfélögum. Það er afleitt.

Það er gott að búa á Íslandi. Það er gott að búa í Borgarbyggð. Verum þakklát og samstillt.

 

Þorvaldur Jónsson, Brekkukoti Borgarbyggð.