
Hvað er svona merkilegt við Borgarbyggð?
Eva Margrét Jónudóttir
Það var tvennt sem flestar ungar borgfirskar stúlkur gerðu þegar ég var að alast upp. Það fyrra var að vinna í Hyrnunni en það seinna var að flytja burt úr heimabyggð til að prófa eitthvað nýtt eða ná sér í menntun. Ég prófaði bæði og lengi velti ég því fyrir mér af hverju ég kom aftur heim. Af hverju að flytja aftur í Borgarbyggð þegar nánast allir vinirnir eru fluttir burt, atvinnutækifærin frekar þunnur þrettándinn og álögur á íbúa í hærra lagi. Svarið er mjög einfalt. Tíminn líður hægar úti á landi og gott ef maður saknaði þess ekki bara að vera stór fiskur í litlum sjó. En það er svo margt annað sem spilar þarna inn í líka. Kannski hefði ég ekkert komið heim aftur ef ég hefði ekki ákveðið að stofna til fjölskyldu. Það er eitthvað sem breytist inni í okkur þegar við verðum foreldrar og við förum að huga að fjárfestingu í eigin framtíð. Eftir að vera búin að eyða mörgum vikum í leit að dagmömmu á höfuðborgarsvæðinu og komst hvergi inn á biðlista einu sinni þá gafst ég upp þegar ég frétti af því að dóttir mín gæti komist 12 mánaða inn á leikskóla í Borgarbyggð. Það eru þessi grundvallaratriði sem vega svo þungt þegar við tökum ákvörðun um búsetu. Við hljótum í grunninn öll að vilja það sama. Öruggt umhverfi þar sem þjónusta við íbúa, húsnæði, tækifæri til menntunar og atvinnu er ekki af skornum skammti.
Hvar er best að búa?
Frá mínu sjónarhorni þá tel ég að; við viljum velja okkur búsetu sem hentar okkar fjölskylduhögum, við viljum fá tækifæri til menntunar við hæfi og atvinnutækifæri sem borga laun sem hægt er að lifa á, við viljum öruggt leikskóla- og grunnskólapláss þar sem er aðgengi að mötuneyti með hollum og næringarríkum mat, við viljum að allir íbúar sveitarfélagsins hafi tækifæri til að stunda hreyfingu við hæfi og við góðar aðstæður, við viljum blómlegt menningar- og félagslíf, framúrskarandi heilbrigðisþjónustu og almennilegar samgöngur. Þar að auki er ýmislegt annað sem við getum látið okkur dreyma um til að krydda grunnstoðirnar en þetta þarf ekki að vera flókið. Mig dreymir til dæmis um að lækka álögur á íbúa. Ég hef trú á því að með markvissum aðgerðum í tengslum við framsókn í skipulags- og atvinnumálum getum við látið það gerast.
Að skapa aðstæður
Borgarbyggð er í dauðafæri þegar kemur að uppbyggingu og hér þarf að kýla á hlutina. Fram undan eru virkilega spennandi tímar í skipulagsmálum og þá rétt eins og í dauðafæri ekkert svigrúm til að klikka. Fyrir mér þá snýst þetta um að skapa aðstæður. Skapa aðstæður fyrir fólkið okkar og þá sem líta til Borgarbyggðar sem búsetukosts. Ramminn má aldrei verða svo þröngur að það aftri þeim sem eru í sókn að taka skotið. Þegar talað er um stærð sveitarfélagsins með tilliti til íbúafjölda og hversu óhagkvæmur rekstur minni eininga getur verið í því samhengi, þá sé ég ekki annað en tækifæri í uppbyggingu í dreifbýli. Við stjórnum ekki hvar fólk vill búa en við getum vissulega skapað þannig aðstæður að dreifbýlið sé spennandi búsetukostur. Snúum vörn í sókn með því að breyta veikleikum í tækifæri. Hættum að rífast um hvar á að leggja hvað niður, sköpum frekar aðstæður til uppbyggingar og stöndum vörð um það sem okkur finnst skipta máli.
Eva Margrét Jónudóttir
Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Borgarbyggð