Hvað er heilsueflandi samfélag?

Anna Þóra Þorgilsdóttir og Ingibjörg Pálmadóttir

Haustið 2016 birti þáverandi ríkisstjórn stefnu í lýðheilsumálum eftir vandaða vinnu ráðherranefndar. Stefnunni fylgdi áætlun um aðgerðir er stuðla að heilsueflandi samfélagi. Meginmarkmiðið er að Ísland verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030 (hvorki meira né minna). Stefnt er að því að öll sveitarfélög taki þátt í verkefninu. Embætti landlæknis er sveitarfélögunum til ráðgjafar og metur árangur verkefnisins.

Þetta verkefni snertir alla þætti mannlífsins, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og að sjálfsögðu vinnustaði, svo ekki séu talin efri árin sem margir heyja harða glímu við. Þetta er risastórt verkefni.

Hver vill ekki taka þátt í þessu? Hver vill ekki vera heilbrigð sál í hraustum líkama – svo langt sem hægt er að ganga til að hafa áhrif á það? Það viljum við undirritaðar sem báðar erum hjúkrunarfræðingar sem höfum svo oft verið minntar á þá staðreynd að betra er heilt en gróið.

En til hvers er ætlast af sveitarfélaginu? Hvað getum við gert til að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til slíks bæjarfélags? Akranesbær hefur margt það sem þarf til að taka þátt í slíku verkefni, m.a. íþróttaarfinn sem við erum svo stolt af.

Skólasamfélagið er viðurkennt fyrir fagmennsku og sama má segja um félags- og heilbrigðisstofnanir bæjarins. Getum við samt ekki bætt okkur á mörgum sviðum er snúa almennt að vellíðan fólks í samfélaginu?  Dæmi um það sem getur haft áhrif á svokallaða heilsuhegðun fólks eru samgöngur, aðgengi að byggingum og þjónustu, hönnun hverfa og bygginga og almenn skipulagsmál.

Fimmtán sveitarfélög hafa nú þegar undirritað samstarfssamning við Embætti landlæknis um heilsueflandi samfélag eða 73% búsettra landsmanna. Í mars síðastliðnum samþykkti skóla- og frístundaráð Akraneskaupstaðar að leggja til við bæjarráð að stofnað yrði þverfaglegt teymi sem myndi gera tillögu að stefnumörkun og framkvæmdaáætlun í átt að heilsueflandi samfélagi. Þetta var samþykkt af bæjarráði og er nú í höndum bæjarstjóra til frekari úrvinnslu.

Við trúum að það séu margar hendur tilbúnar að leggja þessu málefni lið. Svo aftur sé vitnað til Embættis landlæknis kemur fram að heilsuefling miði að því að hafa áhrif á lífsstíl fólks og gera því kleift að lifa heilsusamlegu lífi við heilnæmar aðstæður. Lögð er mikil áhersla á að fólk á öllum aldri geti sjálft gert margt til að bæta andlega og líkamlega heilsu sína með því t.d. að huga að daglegum lífsvenjum og viðhorfum. Almenn fræðsla er því mikilvægur liður í að ná því markmiði.

Allt of margir, ungir sem aldnir, þjást af kvíða og depurð. Í dag er umræðan um andlega líðan mun opnari en hér áður fyrr en mætti þó vera enn meiri. Mikilvægt er að finna fleiri lausnir til að bæta og breyta líðan fólks, með fjölbreyttari úrræðum. Eitt er m.a. að fólk fái notið hæfileika sinna hvar sem það er statt í lífinu með auknum skilningi á mismunandi þörfum.

Akranes er vel til þess fallið að taka þátt í þessu verkefni. Við sjáum jafnvel fyrir okkur að við getum orðið í fararbroddi þegar fram líða stundir með okkar öflugu skóla og fjölbreytta velferðarkerfi.

Það er skoðun okkar í Framsókn og frjálsum, að við eigum skilyrðislaust að taka þátt í verkefninu og vinna að því af lífi og sál.  Þetta gæti opnað okkur möguleika sem skila sér í meiri víðsýni. Það er svo ótal margt í samfélagsgerðinni sem getur haft áhrif á líðan okkar og heilsufar bæði til góðs og ills.Við sjáum gríðarleg tækifæri í verkefninu og viljum hefjast handa sem allra fyrst.

 

Anna Þóra Þorgilsdóttir og Ingibjörg Pálmadóttir.

Höfundar eru báðar hjúkrunarfræðingar og á lista Framsóknar og frjálsra á Akranesi.